Umfjöllun allshn. um þáltill. um embættisfærslu umhverfisráðherra

89. fundur
Miðvikudaginn 08. febrúar 1995, kl. 13:48:34 (4056)


[13:48]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Enn einu sinni á þessum vetri erum við að ræða vinnubrögð hér á hinu háa Alþingi. Ég vil minna á að það er eitt af grundvallarhlutverkum Alþingis að veita framkvæmdarvaldinu aðhald. Sú tillaga sem hér var vísað til nefndar í gær snýr einmitt að þessu aðhaldshlutverki Alþingis. Þar var farið fram á það að nefnd kannaði ákveðna embættisfærslu ráðherra. Nú gerist það að í allshn. í morgun er ákveðið að slík skoðun fari ekki fram. Meiri hlutinn komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri þörf á því að skipa þessa nefnd ef ég hef skilið málið rétt. Mér finnst að hv. meirihlutamenn í allshn. þurfi að upplýsa okkur um á hvaða forsendu þeir komust að þeirri niðurstöðu. Hvaða athugun á málinu liggur þar að baki? Hvernig geta þeir komist að þeirri niðurstöðu að það þurfi ekki að veita neitt aðhald eða kanna málið í þessu tilviki? Við þurfum að fá þetta upplýst. Hvaða rök liggja hér að baki? Ég beini þeirri spurningu til hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar sem stýrði þessum fundi í morgun.