Málflytjendur

89. fundur
Miðvikudaginn 08. febrúar 1995, kl. 14:03:14 (4063)


[14:03]
     Frsm. allshn. (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegur forseti. Nefndin hefur fjallað um mál þetta og flutt brtt. á sérstöku þskj. og einnig gert grein fyrir áliti sínu á þeim sérstaklega og frv. í heild.
    Nefndin fjallaði ítarlega um málið og fékk á fund til sín fjölmarga aðila og ræddi ýmsar hliðar málsins.
    Í frv. þessu eru lagðar til breytingar sem snúa m.a. að öryggi viðskiptamanna lögmanna. Í fyrsta lagi verði fé viðskiptamanna geymt á sérstökum reikningum, vörslufjárreikningum, og í öðru lagi verði lögmönnum skylt að kaupa starfsábyrgðartryggingar. Talsvert hefur verið rætt um síðarnefnt atriði í nefndinni og í framhaldi af því eru lagðar til breytingar á 2. gr. frv. Enn fremur hefur, í tengslum við vörslufjárreikninga, verið fjallað um samskipti lögmanna og viðskiptamanna þeirra hvað varðar upplýsingar um innheimtufé. Rætt var um hvort hægt væri að koma því við að lögmenn sendu viðskiptamönnum sínum reglulega yfirlit eða tryggðu þeim með öðru móti upplýsingar um stöðu reikninganna. Nefndin lítur svo á að viðskiptamenn lögmanna geti gert samkomulag um að fá slík yfirlit. Og raunar í flestum tilfellum eðlilegir viðskiptahættir að þannig gangi málin fram. Ekki eru lagðar til breytingartillögur um þetta atriði að sinni en bent er á að nú stendur yfir heildarendurskoðun á lögum um málflytjendur og er gert ráð fyrir að þessi atriði, sem nefnd hafa verið hér að framan, verði athuguð frekar við þá endurskoðun.
    Lagðar eru til eftirtaldar breytingar á frv.:
    1. 2. mgr. 2. gr. verði breytt þannig að lögmönnum gefist tveir kostir til að sinna skyldu um starfsábyrgðartryggingu, þeir geti keypt ábyrgðartryggingu hjá vátryggingafélagi eða lagt fram aðra jafngilda tryggingu að mati stjórnar Lögmannafélagsins. Síðari möguleikinn verður að vera fyrir hendi ef vátryggingafélag telur sér ekki fært að selja lögmanni ábyrgðartryggingu eða ef ekki semst um skilmála slíkra trygginga milli aðila.
    Þá er lagt til að Lögmannafélagið hafi í samþykktum sínum um tryggingarskyldu hliðsjón af góðum venjum á sviði vátrygginga og hagsmunum viðskiptamanna lögmanna og er það í ljósi þess að Lögmannafélagið kveður sjálft á um þessi atriði í samþykktum sínum. Í þessu sambandi er bent á að samþykktir félagsins öðlast ekki gildi fyrr en ráðherra hefur staðfest þær, sbr. lokamálslið 1. mgr. 2. gr., og til að tryggja neytendavernd enn frekar hefur verið bætt við 2. mgr. að ráðherra skuli, áður en hann staðfestir samþykktir um tryggingarskyldu, leita umsagnar samtaka neytenda og vátryggingafélaga.
    2. Lögð er til breyting á síðari málslið 4. mgr. 2. gr. í samræmi við síðastnefnda breytingu þannig að ráðherra leiti umsagnar þessara aðila áður en hann setur reglugerð, ef til þess kemur.

    Lagt er til að frv. verði samþykkt með þessum breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali sem ég gat um áður.
    Fjarstödd afgreiðslu málsins voru Anna Ólafsdóttir Björnsson, Eyjólfur Konráð Jónsson, Ingi Björn Albertsson og Kristinn H. Gunnarsson.
    Undir nál. rita Sólveig Pétursdóttir, Guðmudnur Árni Stefánsson, Pétur Bjarnason, Tómas Ingi Olrich og Jón Helgason.