Samsettir flutningar o.fl. vegna EES

89. fundur
Miðvikudaginn 08. febrúar 1995, kl. 14:21:25 (4068)


[14:21]
     Frsm. minni hluta samgn. (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. minni hluta samgn. um frv. til laga um samsetta flutninga o.fl. vegna aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Frv. hefur verið til umfjöllunar í samgn. síðustu vikur og er í raun komið í annað sinn til samgn. Á síðasta þingi var einnig flutt svipað frv. sem tókst ekki að klára þar sem mönnum þótti mjög óvenjulegt að Íslendingar þyrftu að samþykkja frv. um flutningastarfsemi sem tæki jafnframt til skipgengra vatnaleiða og járnbrauta o.fl. sem við höfum lítið með að gera á Íslandi þannig að því var vísað til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Þar var það skoðað hvort Íslendingar gætu fengið undanþágu frá því að gera sérstakar samþykktir um skipgengar vatnaleiðir og járnbrautir. Skemmst er frá því að segja að menn féllust á að það þyrfti ekki, a.m.k. ekki að öllu leyti. Þó kemur það óbeint inn í þessu frv. Eins og menn hafa séð sem skoðað hafa þetta frv. eins og það liggur frammi er það ekki stórt um sig og segir ekki mikið. Með leyfi forseta, ætla ég að lesa hér hvernig þær tvær greinar eru sem eru efnisatriði frv. 1. gr. er svohljóðandi:
    ,,Tilgangur laga þessara er að fullnægja þeim skuldbindingum sem leiðir af ákvæðum 6. kafla III. hluta samnings um Evrópskt efnahagssvæði um flutningastarfsemi og XIII. viðauka við samninginn og eigi verður skipað í önnur lög.``
    2. gr. ,,Samgönguráðherra er heimilt að setja reglugerðir að því leyti sem það er nauðsynlegt vegna skuldbindinga á grundvelli 1. gr.``
    Þar með búið. Síðan eiga lög þessi að öðlast þegar gildi. Inni í þessu frv. er ekkert um þau efnisákvæði sem setja á reglugerðir um. Aðeins heimild fyrir samgrh. að setja reglugerð á grundvelli skuldbindinga sem við höfum gert vegna EES-samningsins.
    Það var oft sagt þegar við vorum að ræða um EES-samninginn að slíkt mundi verða það sem við

sæjum í framtíðinni hér á hinu háa Alþingi. Við fengjum inn reglugerðarákvæði sem við yrðum bara að stimpla og þar með væri Alþingi Íslendinga að nokkru leyti orðið óþarft. Við ræddum þetta allmikið í samgn. núna og eins á síðasta þingi og við í minni hluta samgn. getum engan veginn fellt okkur við það að taka það upp á Alþingi að samþykkja slík lög. Þeir lögfræðingar, sem rætt hefur verið við til að skoða þetta frv. eins og það er, eru sammála um að það sé í raun ekki eðlileg afgreiðsla á lögum að koma fram með lagasetningu af þessu tagi. Vel hefði verið hægt að setja efnisatriði þessara reglugerða í frv. og síðan að gefa út reglugerðir á grundvelli þeirra laga. Það er það sem manni finnst að eðlilegt hefði verið að gera.
    Því viljum við í minni hluta samgn. skila eftirfarandi nál.:
    ,,Þessu frumvarpi er ætlað, ef að lögum verður, að veita samgönguráðherra opna heimild til setningar nokkurra reglugerða á flutningasviði til að fullnægja EES-skuldbindingum. Sú lagasetningaraðferð, sem lögð er til í frumvarpinu, er í hæsta máta óeðlileg og til þess fallin að ýta undir það viðhorf sem oft heyrist að Alþingi sé ofurselt framkvæmdarvaldinu og hlutverk þess fremur í ætt við afgreiðslustofnun en löggjafarþing. Mun eðlilegra er að sett verði sérstök lög í hverju tilviki fyrir sig og á grundvelli þeirra verði samgönguráðherra heimilt að gefa út reglugerðir í samræmi við þessar skuldbindingar okkar samkvæmt EES-samningnum. Með skírskotun til framanritaðs leggur minni hluti nefndarinnar til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.``
    Undir þetta skrifa ásamt mér, hv. þm. Jóhann Ársælsson, Guðni Ágústsson og Stefán Guðmundsson.
    Á grundvelli þessa nál., virðulegi forseti, leggjum við til að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar sem hefur það í valdi sínu að gera því efnislegri skil þannig að við getum verið sæmd af því að afgreiða það sem lög hér frá hinu háa Alþingi.