Samsettir flutningar o.fl. vegna EES

89. fundur
Miðvikudaginn 08. febrúar 1995, kl. 14:29:02 (4070)


[14:29]
     Frsm. minni hluta samgn. (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég deili ekki um það við hv. formann samgn. að það þurfi að gera EES-samningnum skil með þeim hætti að við tökum á okkur ákveðnar skuldbindingar sem við höfum samþykkt að taka á okkur og þurfum að koma yfir í íslensk lög. Við búum við þennan samning í dag og það verðum við að sætta okkur við en við getum gert það á þann hátt að þau lög sem við þurfum að setja í framhaldi af samningnum séu skiljanleg og okkur til sóma. Þó það sé útskýrt hér í athugasemdum með þessu frv. hvaða gerðir er átt við mun það ekki koma til með að standa þegar lögin verða birt. Lögin taka einungis til þess að ráðherra er heimilt að setja reglugerðir. Skýringarnar við það verður ekki að finna í lögunum. Ég ítreka því enn og aftur sem ég sagði áðan: Við getum ekki verið þekkt fyrir það hér á hinu háa Alþingi núna eða í framtíðinni að setja lög sem ekki eru sett í betra lagamál heldur en þetta og við krefjumst þess að það verði breyting á í framtíðinni. Þess vegna leggjum við til að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar.