Atvinnuréttindi vélfræðinga

89. fundur
Miðvikudaginn 08. febrúar 1995, kl. 14:35:14 (4072)


[14:35]
     Guðmundur Hallvarðsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka formanni samgn. fyrir hans greinargóðu lýsingu varðandi þetta frv., um breytingu á lögum um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum.
    Ég tek heils hugar undir það sem kemur fram hér síðast í nál., hvað varðar breytingu við 6. gr., þar sem eðlilegt er að skírteinishafi hafi skírteini meðferðis við vélstjórn og sýni það þegar löggæslumaður krefst þess. Því miður ber allt of mikið á því þá Landhelgisgæslan hefur farið um borð vegna skyndiskoðana á fjölmörgum fiskiskipum hér við miðin, eins og áður hefur komið fram hér á Alþingi, þá hafa menn ekki tilskilin réttindagögn með sér.
    Hins vegar vildi ég aðeins geta þess að það kemur mér nokkuð spánskt fyrir sjónir þegar skoðaðar eru hér þær kröfur sem gerðar eru nú til manna hvað áhrærir vélavörslu á hinum smærri bátum. Það er dálítið hjákátlegt að menn kannski á bátum undir 20 rúmlestum, sem hér er gerð krafa til að skuli hafa farið á námskeið og hlotið svokallað atvinnuskírteini, vélgæslumaður, (VM), að eftir námskeið sem haldið hefur verið á vegum vélskóla þá eiga þessir aðilar að hafa þessi svokölluðu réttindi sem eru upp að 300 hestöflum á skipi allt að 20 rúmlestum, sem eru með aðalvél minni en 221 kílóvatt. Nú er það oft svo að þegar sjómenn á þessum minni bátum koma að landi og fara að landa sínum afla þá kemur þar stór vöruflutningabíll til að taka við aflanum og vélin í þeim bíl getur verið allt upp í 600 hestöfl. Ekki hafa þeir bílstjórar frekari réttindi en sambærilegum þeim sem þeir hafa þá hlotið hvað varðar meirapróf bifreiðarstjóra.
    Síðan er haldið áfram og talað um að menn skuli síðar öðlast og ná sér í meiri réttindi og þá miðað við vélarstærðir. Í frv. er líka komið inn á það að menn öðlast ákveðin réttindi en síðan jafnvel tvöfaldast réttindin miðað við hestaflafjölda vélar eða kílóvött, eins og mælieiningin er nú, þannig að menn öðlast þá aukin réttindi af reynslunni og það er auðvitað vel. Því segi ég það að þeir aðilar sem hér eru á hinum smærri bátum hafa vissulega öðlast líka mikil réttindi hvað varðar þekkingu og reynslu, réttindi kannski af guðs náð.
    Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að mér finnst, þó ég hafi auðvitað og sé manna sístur til þess að draga úr öryggisþætti sjómanna og vil þann veg sem mestan, þá megum við passa okkur á að ganga ekki svo langt að það sé nánast verið að setja svo ströng og stíf lög gagnvart þessum einyrkjum sem enn stunda sjó og eru enn að reyna að bjarga sér með sjávarfangi að það séu settar slíkar reglugerðir að það sé nánast óviðunandi fyrir þá að sækja sjó. Þetta dæmi sem ég nefni hér er kannski alveg augljóst, að það er ætlast til þess að þeir sem stjórna þessum bátum með 300--400 hestafla vélum skuli hafa tekið allmiklu meiri skóla og þurfi að hafa miklu meiri og lengri reynslu heldur en sá sem kemur niður á bryggju til að sækja aflann á einhverjum trukk sem er kannski með 500--600 hestafla vél.
    Þess vegna kom það mér líka á óvart að ég sá ekki í greinargerð að Örn Pálsson, þeirra leiðandi maður smábáta, hafði verið í að semja þetta frv., en því meir kom það mér á óvart hafandi lesið þetta og heyra svo að framsögumaður gat þess að þeir aðilar hefðu hér átt hlut að máli. Þá má kannski segja að þá séu menn aftur komnir á byrjunarreit, þ.e. að fallast á þetta frv. óbreytt, nema með þeim athugasemdum sem hér koma fram frá nefndinni. En samt sem áður, virðulegi forseti, vil ég taka það fram að hér er þó

verið að gera aðilum, sem um langan tíma hafa sótt sjó og ekki öðlast þessi réttindi nema af mikilli þekkingu og reynslu, nú er verið að gera kröfu til þeirra að þeir skuli hoppa í skóla og læra kannski það sem þekking þeirra er fyrir á. Mér finnst að hér sé verið að ganga of langt í þessu máli og það er það sem löggjafinn þarf kannski að passa sig fyrst og fremst á að setja ekki svo ströng og stíf lög að nánast óbærilegt er fyrir menn að stunda þennan atvinnuveg.