Atvinnuréttindi vélfræðinga

89. fundur
Miðvikudaginn 08. febrúar 1995, kl. 14:41:16 (4073)


[14:41]
     Frsm. samgn. (Pálmi Jónsson) :
    Hæstv. forseti. Hv. 16. þm. Reykv. talaði hér og varaði við því að gengið væri of langt með lagasetningu um fyrirmæli og menntunarkröfur og öryggiskröfur, enda þótt hann viðurkenndi jafnframt að slíkar kröfur yrðu að vera, a.m.k. nokkrar til þess að sem allra bests öryggis væri gætt. Ég get í sjálfu sér tekið undir þessi sjónarmið, að Alþingi þarf að gæta sín á því að ganga ekki of langt og stjórnvöld þurfa að gæta sín á því að ganga ekki of langt í kröfum á hendur borgurunum til þess að þeir geti stundað tiltekinn atvinnurekstur. En þau ákvæði frv. sem að þessu lúta eru samin með samkomulagi aðila sem ég taldi hér upp, þar á meðal með aðild fulltrúa frá smábátaeigendum og það var skoðun manna, bæði í samgn. og eins skoðun þeirra aðila sem nefndin átti tal við og sendi málið til umsagnar til, að það væri mjög mikils virði að afgreiða þetta mál. Það var jafnframt skoðun okkar að það væri ekki rétt, úr því að engar sérstakar athugasemdir komu fram varðandi þessi atriði, að Alþingi færi að breyta út af þeim texta sem hér hefur orðið samkomulag um. Því er það tillaga okkar samgn. að málið fari að þessu leyti óbreytt til afgreiðslu við 2. umr. og verði afgreitt þannig frá Alþingi.