Lánasjóður íslenskra námsmanna

89. fundur
Miðvikudaginn 08. febrúar 1995, kl. 15:13:32 (4076)


[15:13]
     Flm. (Svavar Gestsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Veruleikinn er sá að lánþegum í Lánasjóði ísl. námsmanna í lánshæfu námi hefur fækkað --- fækkað um 28,4% frá 1991--1992 til 1994--1995, þ.e. úr 5.725 í 4.100. Ef við tölum um alla námsmenn er fækkunin 26%. Það kemur líka í ljós að lánþegar í hópi námsmanna í lánshæfu námi voru 60% af námsmönnum fyrir nokkrum árum áður en lögin voru sett en hlutfallið er núna 40%. Af hverju er það? Það er vegna þess að þetta fólk er núna miklu lengur í námi, skólarnir eru fullir af fólki sem er lengur í námi og er að vinna með námi m.a. vegna þess hvernig kjörum er háttað m.a. andspænis bankakerfinu. Það er alveg ofboðslegt til þess að hugsa að formaður menntmn. skuli vera stoltur af þessari niðurstöðu en ekki blygðast sín fyrir hana vegna þess að það er búið að hrekja út úr skólum landsins þúsundir íslenskra námsmanna sem ella væru við nám og hefðu jafnvel lokið því. Og Ísland er eina landið hér á þessu svæði Norður-Evrópu þar sem svona er komið fram við menntakerfið og þar með framtíðina. Þingmenn Sjálfstfl. ættu ekki að monta sig af þessari ósvinnu frammi fyrir opnum tjöldum Alþingis Íslendinga.