Lánasjóður íslenskra námsmanna

89. fundur
Miðvikudaginn 08. febrúar 1995, kl. 15:46:11 (4085)


[15:46]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Nú hefði verið ástæða til þess að rifja upp ýmislegt úr þeirri umræðu sem fór fram vorið 1992 en þá urðu hér mjög harðar deilur um Lánasjóð ísl. námsmanna. Þegar við förum að rifja upp verk núv. ríkisstjórnar í þeirri kosningabaráttu sem fram undan er mun lánasjóðsmálið koma þar allnokkuð við sögu og þá verður ekki hægt að líta fram hjá því að hv. 12. þm. Reykv., Jóhanna Sigurðardóttir, sat á sínum ráðherrastóli og greiddi atkvæði með öllum tillögum ríkisstjórnarinnar þó hún leyfi sér núna að koma með tillögur um námsmannabætur þegar hún fer að átta sig á afleiðingum þeirra breytinga sem gerðar voru.
    Það frv. sem hér liggur fyrir tekur fyrst og fremst á því atriði sem snýr að námsmönnum sem eru að hefja nám og mega sæta því að þurfa að uppfylla ákveðnar kröfur áður en þeir fá lánin sín greidd. Nú var það svo að ákveðnar kröfur voru gerðar fyrir þá breytingu sem við erum hér að ræða, þ.e. breytingarnar vorið 1992, en skilyrði voru hert mjög rækilega með þessum breytingum. Það er mjög þarft að taka á þessu, og ég ætla að koma að því betur síðar í ræðu minni, en það er annað atriði sem snýr að þeim breytingum sem urðu vorið 1992 sem ég hef ekki síður áhyggjur af. Það er að núna í vor fara væntanlega fyrstu nemendurnir að ljúka námi sem hafa tekið öll sín lán með núverandi skilyrðum, þ.e. með vöxtum og lántökugjöldum og þeim hertu greiðslukjörum sem fylgu. Eins og menn eflaust muna úr umræðunni vorið 1992 þá voru reiknuð út dæmi um það hvernig fólk ætti að standa undir þessum greiðslum og það er ástæða til að hafa verulegar áhyggjur af því hvernig þeir námsmenn sem nú koma út á vinnumarkaðinn, og það er ekki mjög auðvelt að fá vinnu um þessar mundir, eiga að standa undir þessum lánum og ekki bara núna heldur í framtíðinni. Og eins og launakjörum er háttað hjá stórum stéttum og þar getum við nefnt t.d. kennara, hjúkrunarfræðinga, sjúkraþjálfara o.fl. sem stunda sitt nám í framhaldsskólum er enn frekar ástæða til að hafa miklar áhyggur af þessu og því að lánasjóðurinn þurfi að grípa til einhverra aðgerða eða ríkisvaldið fari þá leið sem hv. 12. þm. Reykv. hefur lagt til, að taka upp námsmannabætur. Það á alltaf að bjarga öllu með einhverjum bótum, bregðast við eftir á með einhverju bótakerfi sem er að verða vægast sagt flókið og íþyngjandi í okkar stjórnkerfi og þarf að skoða út af fyrir sig.
    En ég rifja það upp að vorið 1992 lögðum við stjórnarandstæðingar fram tillögur um breytingar á því frv. sem þá lá fyrir þar sem við vildum milda þessar endurgreiðslur. Þær tillögur eru birtar sem fylgiskjal með þessu frv. Mér finnst ástæða til, virðulegi forseti, að rifja þetta upp sérstaklega vegna þess að þetta er mál sem kemur fyrst fram síðar á þessu ári og það verður afar fróðlegt að sjá hvað kemur út úr því dæmi.
    Það er rétt sem kom fram hjá hæstv. menntmrh. og 1. flm. að það markmið sem ríkisstjórnin setti sér um að draga úr lánsfjárþörf, eins og það heitir eða með öðrum orðum að fækka lánþegum Lánasjóðs ísl. námsmanna, hefur náð fram að ganga. Það er alveg ljóst. Lánþegum hefur stórfækkað. En í kjölfar þess hljótum við að spyrja: Hvernig fjármagna námsmenn nám sitt núna? Hvernig fara þeir að þessu? Það væri afar fróðlegt að fá svar við því en ég hef hvergi séð neina könnun á því.
    Ég þekki sjálf nokkra nemendur við Háskóla Íslands og það fólk vinnur með námi sínu. Það vinnur mjög hörðum höndum og reynir meira að segja að vera í fleiru en einu starfi yfir sumarið til þess að reyna að forðast það að taka lán. Ég get mjög vel skilið það að nemendur sem huga að framtíðinni skuli reyna komast hjá því að taka lán. Þeir nemendur sem ég þekki fá líka mikla aðstoð frá foreldrum sínum sem þeir hefðu ekki fengið ef lánakerfið hefði verið eins og áður. Þannig gerist það sem við sáum fyrir að foreldrar mundu reyna að hlaupa undir bagga.
    Það væri líka afar fróðlegt að reyna að átta sig á því hvort makinn er farinn að vinna fyrir námsmanninum eins og tíðkaðist áður fyrr. Við höfum ekki neina athugun á þessu en staðreyndin er sú að það eru stórir hópar að koma út úr framhaldsskólunum. Hvað eiga þeir að gera? Hvað á fólk að gera? Er einhver betri kostur til núna en að fara í nám? Það er ekki um auðugan garð að gresja á vinnumarkaðinum þannig að það er mjög eðlilegt að fólk haldi til náms og reyni einhvern veginn að bjarga sér, hvernig sem farið er að því. Það er staðreynd að námsmönnum hefur heldur fjölgað við Háskóla Íslands en það væri

gaman að vita hvernig er með skóla eins og Tækniskólann, Vélskólann, Sjómannaskólann þar sem iðulega er um fjölskyldumenn að ræða, karlmenn aðallega, sem koma úr vinnu og hafa farið í framhaldsnám eftir að hafa verið um allnokkurt skeið á vinnumarkaðinum. Ég hef ekki þær tölur fyrir framan mig en það þýðir ekkert að horfa á heildartölu. Það þarf að skoða málin, fara ofan í kjölinn á þessum tölum. Það eru framhaldsskólanemar sem koma úr foreldrahúsum, og hafa flestir hverjir notið aðstoðar foreldra sinna, sem fara í háskóla og skóla á framhaldsstigi og halda áfram að fá sömu aðstoð og áður nema þeir sem verða að taka námslán. En hvað um þessa hópa, t.d. einstæðar mæður og ekki síst þá sem hafa farið í skóla sem veita ákveðin réttindi, ég tek sem dæmi Vélskólann og Sjómannaskólann? Ég auglýsi eftir upplýsingum um það.
    Það sem ríkisvaldið hefur verið að gera á þessu kjörtímabili í málefnum lánasjóðsins er ekki síst að draga úr beinum framlögum ríkissjóðs til sjóðsins og að ýta lánasjóðnum í æ ríkara mæli út á lánamarkaðinn. Við í efh.- og viðskn. höfum fengið heimsókn frá stjórn sjóðsins á hverju einasta ári og það hefur verið fróðlegt að fylgjast með þeirri tiltekt sem þar hefur vissulega átt sér stað og hefur m.a. falist í því að leita eftir lengri lánum til þess að hægt væri að standa undir þeim miklu afborgunum sem sjóðurinn þarf að standa skil á. Þarna hefur ýmislegt verið að gerast en allt er þetta spurning um forgangsröð. Það er mergurinn málsins að forgangsröð ríkisstjórnarinnar er vitlaus. Það hefur verið skorið niður fjármagn til menntamála, til háskólans og þeir nemendur sem hafa sumir hverjir orðið að taka lán til að geta lokið námi sínu reka sig svo á það innan dyra Háskóla Íslands að það er ekki einu sinni námsframboð til þess að geta lokið námi í vissum greinum. Það rekur sig því hvað á annars horn. Annars vegar er námsmönnum gert erfiðara með að taka lán og erfiðara hvað það varðar að standast kröfurnar og hins vegar er skólinn sjálfur, og þá horfi ég einkum á Háskóla Íslands, í kreppu sem margoft hefur komið til umræðu á hinu háa Alþingi en aðeins var reynt að ráða bót á með því að hækka fjárveitingar til háskólans við afgreiðslu fjárlaga þessa árs.
    Það væri líka afar fróðlegt að fá greiningu á því hvernig fólk hagar námi sínu. Það hefur komið fram í máli háskólarektors að nemendur reyna að standast þær kröfur sem gerðar eru og reyna að flýta námi sínu en hvað segir það okkur? Hvernig er með gæði námsins? Er ekki verið að koma upp einhverju færibandakerfi og fylgja þeirri stefnu að reyna að útskrifa fólk á sem skemmstum tíma? Er það endilega gott fyrir menntunina? Er það virkilega betra? Og hvað um aðra? Hvað um þann hóp sem þarf að vinna með námi og tefst þar með væntanlega í því að ljúka námi sínu? Það verður að skoða allar þessar hliðar. Það væri fróðlegt að fá könnun á vinnuálagi á þeim nemendur sem eru að reyna að standast þessar hörðu kröfur til þess að fá námslánin sín.
    Allt þetta þurfum við að fá að vita til þess að geta lagt mat á þær breytingar sem gerðar voru á lánasjóðnum. En það er staðreynd að lánþegum hefur fækkað og það var markmiðið. Það er staðreynd að það er verið að gera fólki erfiðara fyrir. Þeir sem ekki fá aðstoð eða eiga kost á aðstoð frá foreldrum eða skyldmennum eiga erfiðara uppdráttar og þeim sem ætla sér að fara í nám t.d. á sviði heilbrigðismála eða í kennslu eða í öðrum greinum þar sem fólk sækir vinnu hjá hinu opinbera hefur verið gert stórkostlega miklu erfiðara fyrir með þeim þungu endurgreiðslum sem fylgja þessu kerfi og fer nú, eins og ég nefndi áðan, að reyna á.
    Mín skoðun er sú, hæstv. forseti, að það sé miklu heppilegra fyrir þjóðfélagið að efla menntun og gera ungu fólki auðveldara að stunda nám en að setja því stólinn fyrir dyrnar og vísa því út í atvinnuleysi. Það er staðeynd sem við getum ekki horft fram hjá að hér er töluvert atvinnuleysi og eins og við margnefndum í umræðunni á sínum tíma þá er það örugglega miklu betri kostur bæði fyrir einstaklingana og samfélagið að fólk sé í skóla og geti menntað sig en að ganga um og mæla göturnar í atvinnuleysi.
    Virðulegi forseti. Þessum þingfundi er alveg að ljúka og eins og væntanlega hefur komið fram þá styð ég þetta frv. sem hér er lagt fram. Ég hefði gjarnan viljað taka upp fleira úr tillögum minni hluta menntmn. frá vorinu 1992 og snýr að endurgreiðslu lánanna en það gefast tækifæri til þess síðar meir. En ég fagna því að við fáum tækifæri til þess að ræða þetta mál og ég held að ríkisstjórnarflokkarnir hafi enga ástæðu til að sýna neinn fögnuð yfir þeirri þróun sem orðið hefur hjá lánasjóðnum og það þurfi að skoða þetta mál í miklu víðara samhengi en eingöngu að rýna í tölu um það hvaðan lánþegarnir koma. Við verðum að skoða hvað býr að baki talnanna.