Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

90. fundur
Fimmtudaginn 09. febrúar 1995, kl. 11:03:14 (4090)


[11:03]
     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil taka undir það með hæstv. utanrrh. sem hann sagði í lok sinnar ræðu að fáar þjóðir eiga eins mikið undir því að eiga góð samskipti við umheiminn og við Íslendingar og það er mjög mikilvægt nú þegar miklar breytingar eru á sviði utanríkismála í heiminum að við metum stöðu okkar af raunsæi og tryggjum það höfuðmarkmið íslenskrar utanríkisstefnu að varðveita sjálfstæði og fullveldi íslensku þjóðarinnar og tryggja öryggi okkar og efla viðskipti við aðrar þjóðir.
    Við í Framsfl. höfum talið að markmiðum utanríkisstefnunnar væri best náð með öflugu starfi innan Sameinuðu þjóðanna á vettvangi Norðurlandaráðs og með samningum og samstarfi við öll ríkjabandalög og viðskiptastórveldi. Við styðjum það starf sem Íslendingar standa að innan NATO og það hefur komið í ljós að NATO er meginvettvangur þess pólitíska samstarfs sem nú á sér stað milli austurs og vesturs og miðar að því að tryggja frið í Evrópu. Við erum þeirrar skoðunar að við eigum að auka þátt okkar í þessu starfi og reyna að vera virkari innan þessara samtaka sem við höfum verið aðilar að lengi og hefur verið mikilvæg stoð í utanríkisstefnu Íslands.
    Við erum jafnframt stuðningsmenn þess að við höfum nú gerst aðilar að nýrri stofnun, Alþjóðaviðskiptastofnuninni, sem við teljum vera mjög mikilvæga og eigi að geta leitt til frjálsari viðskipta í heiminum sem við erum mjög háðir. Íslendingar byggja svo mikið á alþjóðlegum viðskiptum að það skiptir okkur meginmáli að vel takist til í sambandi við þessa stofnun og ég fagna því að það var unnt að við gátum verið stofnaðilar að henni.
    Ég vil þó í ræðu minni nefna nokkur atriði sem ég tel ámælisverð í sambandi við starf núverandi ríkisstjórnar á sviði utanríkismála og vil þá einkum fjalla um stöðu okkar gagnvart Evrópusambandinu, þær deilur sem við höfum átt í við frændur okkar Norðmenn og jafnframt vil ég koma lítillega inn á hvalveiðimálin sem hæstv. utanrrh. kom inn á. Síðar í dag verður væntanlega rætt um norrænt samstarf en nú eiga sér stað miklar breytingar á norrænu samstarfi sem skiptir okkur Íslendinga miklu máli. Ég vænti þess að bærileg samstaða takist í þeim efnum varðandi endurskipulag norræns samstarfs en þar eru ýmis teikn á lofti sem geta reynst okkur hættuleg því að það er afar mikilvægt á þessu stigi að styrkja norrænt samstarf og ég vek athygli á því að á sama tíma og hér hefur jafnvel verið umræða um að leggja niður sendiráð á Norðurlöndunum þá eru Norðmenn að styrkja öll sín sendiráð á Norðurlöndunum, m.a. til þess að reyna að styrkja samstarf við þær Norðurlandaþjóðir sem nú eru aðilar að Evrópusambandinu. Ég tel fráleitt að bregðast þannig við um þessar mundir að draga úr starfsemi sendiráða okkar á Norðurlöndunum. Ég held að við þurfum einmitt með svipuðum hætti og Norðmenn að styrkja starf þeirra og beina því að nokkru leyti inn á Evrópusamstarfið. En það mun verða ríkur þáttur í Norðurlandasamstarfinu í framtíðinni að vinna með öðrum Norðurlandaþjóðum að málefnum sem snerta samvinnuna við Evrópusambandið.
    Ég þarf ekki að taka það fram hér að Framsfl. er andvígur því að sótt verði um aðild að Evrópusambandinu og okkur þykir það miður að hér skuli vera umræða um það að nú beri að sækja að Evrópusamstarfinu einmitt þegar við þurfum á því að halda að sameinast um það með hvaða hætti við styrkjum tengslin við Evrópusambandið án aðildar. Mér finnst að það komi svo skýrt fram í þeim skýrslum sem gerðar hafa verið í sambandi við þetta mál að það þyrfti ekki að ræða það á þessu stigi að rétt sé að sækja um aðild.
    Ég vil m.a. benda á það sem segir í skýrslu háskólans sem kom nýlega frá Hagfræðistofnun þar sem tekið er fram að það megi búast við því að afkoma ríkissjóðs muni versna vegna hugsanlegrar aðildar um 5--6,5 milljarða kr. Trúlega er hærri talan réttari vegna þess að hún er miðuð við það að við gerumst aðilar að styrkjakerfi Evrópusambandsins og reynum með þeim hætti að ná sem mestu til landsins aftur af því fjármagni sem þarf að greiða til Evrópusambandsins. Það er því alveg ljóst að með þessu væri verið að taka upp nýtt millifærslukerfi í íslensku hagkerfi sem byggðist á því að færa 5--6,5 milljarða til Brussel og fá hluta af því til baka inn í íslenskan sjávarútveg og inn í íslenskan landbúnað. Inni í þessari tölu er m.a. það mótframlag sem ríkissjóður þyrfti að leggja fram á móti.
    Maður hlýtur að spyrja þegar þessar tölur liggja fyrir: Hvernig hafa menn hugsað sér að afla þessara tekna? Hafa menn hugsað sér að hækka tekjuskatt einstaklinga? Hafa menn hugsað sér að hækka virðisaukaskatt eða hafa menn e.t.v. hugsað sér að taka upp auðlindaskatt í þessu sambandi? Það þykir mér ekki ólíklegt m.a. vegna þess að sjávarútvegur fengi verulega styrki frá Evrópusambandinu og frá íslenska ríkinu og ég býst við því að mörgum þætti það óeðlilegt að sjávarútvegurinn fengi þessa styrki án þess að greiða eitthvað í staðinn. Þá væri búið að búa til nýtt millifærslukerfi í sjávarútveginum sem byggðist á því að taka af honum verulega skatta og borga svo til baka út á alls konar hluti, úreldingu skipa, styrki til að byggja ný skip, styrki til að byggja fiskvinnslustöðvar og styrki til að gera hitt og þetta. Ég er þeirrar skoðunar að slíkt kerfi væri eyðileggjandi fyrir íslenskan sjávarútveg. Það setti hann í allt annað ljós og mundi minnka þá hvöt sem þar er til þess að reka góð fyrirtæki og vera samkeppnishæfir á alþjóðlegum mörkuðum. Hitt er svo annað mál að ef við gerumst ekki aðilar að ESB, sem ég hef sagt að við viljum ekki í Framsfl., þá þurfum við að endurskoða aðstöðu sjávarútvegsins, m.a. að því er varðar tolla, og það kemur vissulega til greina að greiða með einhverjum hætti þá tolla sem leggjast á íslenskar vörur af öðrum framleiðslugreinum og jafna þannig skilyrðin innan sjávarútvegsins. Þetta eru að vísu ekki mjög háar fjárhæðir sem betur fer sem við getum reiknað með að við þurfum að greiða.
    Það er verið að reyna að semja um þessa tolla og vonandi takast þeir samningar vel en það er gert ráð fyrir því að þessar fjárhæðir miðað við núverandi útflutning verði þó aldrei meiri en kannski á bilinu 100--200 millj. á ári þó engin leið sé að fullyrða um það vegna þess að auðvitað getur samsetning útflutnings breyst. En það er hins vegar óeðlilegt að við búum við allt önnur samkeppnisskilyrði en viðskiptaþjóðirnar í kringum okkur og ég er þeirrar skoðunar að það sé miklu auðveldara að búa til tiltölulega lítið millifærslukerfi innan lands en taka þátt í þeim óskapnaði sem kæmi fram ef við gerðumst aðilar að ESB. Með þessu er ég á engan hátt að mæla með millifærslukerfi. Ég er almennt á móti því og ég

ítreka að það millifærslukerfi sem var í sjávarútveginum á sínum tíma með útflutningsgjaldinu var lagt niður og það var mikil hreinsun af því á sínum tíma og við eigum að leitast við að taka slíkt ekki upp á nýjan leik.
    Það kemur jafnframt fram í þeirri skýrslu sem sjútvrn. lét gera í október 1994 --- og ég hélt nú fram að hefði verið stungið undir stól en hæstv. sjútvrh. hefur sagt mér að þessari skýrslu hafi verið dreift á aðalfundi LÍÚ og dreift til blaðamanna en ég hef ekki orðið var við að þessari skýrslu væri dreift til þingmanna eða utanrmn. eða annarra nefnda þingsins. Ég vænti þess að svo verði gert því að mínu mati er ekki nægilegt að koma henni til annars ágætra manna innan LÍÚ því að þessi skýrsla er það merk að ég tel að hún taki af öll tvímæli um það hver gæti orðið staða Íslands í sambandi við sjávarútvegsmál með hugsanlegri aðild að ESB. Hún svarar þó engan veginn öllum spurningum og þess vegna þarf að vinna að málinu áfram. Það hefur ekki verið gert og ég vil leggja áherslu á það að unnið verði áfram á þeirri braut. Það eru draumórar að ætla sér það að við getum fengið undanþágur frá öllum þeim vandamálum sem þar koma fram. Þessi mál eru það föst í Rómarsáttmálanum að ég tel engar líkur á því við núverandi aðstæður að við gætum komist undan þeim. Ég tel ekki neinar líkur til þess að við getum komist undan því að erlendir aðilar fái að fjárfesta í íslenskum fiskiskipum eins og t.d. Norðmenn voru að gera sér vonir um. Þeir gerðu sér vonir um það vegna þess að það eru skilyrði fyrir því í Noregi að það megi enginn fjárfesta í fiskiskipi nema hafa verið í fiskveiðum í a.m.k. þrjú ár. Ég held að enginn vilji taka upp slíkar reglur hér og þess vegna sé mjög ólíklegt að við komumst undan því. Ég vil líka benda á þá staðreynd að við þyrftum að yfirtaka verulegan hluta af fiskveiðistjórnunarkerfi Evrópusambandins og ég tel að allt þetta mál sé með þeim hætti að það sé út í hött við núverandi aðstæður að láta reyna á málið. Það þarf miklu betri skoðunar við og ég hvet hæstv. utanrrh. að snúa sér að því máli í stað þess að vera sí og æ að tala um aðildarumsókn að Evrópusambandinu og láta reyna á málið.
    Það er alvarlegur hlutur að sækja um aðild að ESB. Þeir sem gera það hljóta að ætla sér þangað inn ef þeir fá því framgengt sem þeir vilja. Það er ekki auðvelt að snúa til baka þegar farið er af stað, jafnvel þó það komi í ljós að margt af því sem menn vildu ná fram fái menn ekki. Þannig að slíka ævintýraferð þurfa menn að hugsa vel og undirbúa með öðrum hætti en komið hefur fram í máli hæstv. utanrrh. Ég vil jafnframt gagnrýna hvernig staðið hefur verið að því að nálgast Evrópusambandið í sambandi við hugsanleg áhrif okkar innan þess og í sambandi við okkar mál. Ég hef haldið því fram lengi að það væri nauðsynlegt að útfæra það hvernig hin pólitísku samskipti ættu að vera eftir að aðrar þjóðir hafa gengið inn í Evrópusambandið. Ég minni á það í þessu sambandi að í desember sl. fóru Norðmenn af stað með miklum látum og kröfum á hendur Evrópusambandinu um það hvernig samskiptum Noregs og Evrópusambandsins gæti verið háttað. Hugmyndir Norðmanna voru ýmsar sem ég get ekki rakið hér enda hef ég ekki fengið þann lista. Þeir gerðu ráð fyrir því á þeim lista að það yrðu haldnir fundir milli forsætisráðherra og utanríkisráðherra Noregs með formannslandinu í Evrópusambandinu reglulega. Þeir gerðu ráð fyrir því að Noregur tæki þátt í ýmsum vinnuhópum, þeir tækju þátt í upplýsinganetinu um utanríkispólitík Kóreu og þeir gerðu ráð fyrir að Norðmenn gætu þá tekið þátt í undirbúningi fyrir fundi innan Sameinuðu þjóðanna og fleiri samtaka.
    Norðmenn hafa að vísu ekki fengið nein svör í þessu sambandi en ég tel afar mikilvægt að Íslendingar undirbúi hvað það er sem þeir vilja í þessu samhengi. Það hefur að vísu komið fram núna að ríkisstjórnin hefur ákveðið að hafa samstarf við Noreg um þessi mál, sem er af hinu góða, en ég vil minna á að Norðmenn hafa haft, a.m.k. fram að þessu, allt aðrar hugmyndir. Í viðtali sem birtist við utanríkisráðherra Noregs þann 17. des. í Aftenposten þá sagði hann eftirfarandi: Að hann væri þeirrar skoðunar að innan hins formlega ramma gæti átt sér stað og þróast náið samstarf sem geri það að verkum að Noregur muni fá mjög nánari samskipti við Evrópusambandið en t.d. Ísland. Það er sem sagt alveg ljóst hvað norska ríkisstjórnin var að fara. Hún var að reyna að ná fram öðruvísi samskiptum við Evrópusambandið en þeir teldu að Íslendingar ættu að fá. Ég er því ekki þeirrar skoðunar að það sé nægilegt að hengja sig aftan í Noreg í þessu sambandi. Þessi ummæli gefa m.a. til kynna að þeir hafi aðrar hugmyndir í þeim efnum.
    Með þessu er ég ekki að segja að ég sé andvígur nánu samstarfi við Noreg á þessu sviði en ég vil fara þess á leit að sem fyrst verði birtur í utanrmn. listi yfir það hvað það er sem Íslendingar vilja fara fram á í þessu sambandi. Ég hef ýmsar hugmyndir um það sem ekki er tími til að rekja hér. Ég hef margoft spurt um það í utanrmn. á sl. hausti, um hugmyndir ríkisstjórnarinnar í þessum efnum, en það hafa engin viðbrögð komið fram. Fyrstu viðbrögðin eru þau að ríkisstjórnin ákvað, eftir því sem utanrrh. upplýsti hér í ræðu sinni áðan, þann 27. jan. að eiga samstarf við Noreg um þessi mál. Við hljótum að þurfa að marka okkur eigin stefnu í þessu sambandi vegna þess að við höfum að mörgu leyti aðra stöðu en Noregur, við höfum aðra stöðu að því leyti til að Noregur hefur nýlega sótt um aðild að ESB og hafnað henni. Það höfum við Íslendingar ekki gert og höfum allan tímann verið að tala um samskipti á grundvelli samningsins um Evrópskt efnahagssvæði og þeirra ákvæða sem þar koma fram með öðrum hætti en Noregur hefur verið að gera. Þannig að því leytinu til erum við í nokkuð annarri stöðu. Það væri líka mjög slæmt ef t.d. Austur-Evrópuþjóðirnar fengju aðild að ýmsum nefndum og ráðum sem við fengjum ekki aðild að eins og ýmsar vísbendingar gefa til kynna. Þess vegna er mikilvægt að þessu máli sé vel sinnt.
    Sú deila sem við höfum átt í við Norðmenn er líka þess eðlis að samskipti landanna hafa ekki verið nægilega góð og ég er þeirrar skoðunar að það sé mikilvægt að það sé leitað samninga í þessu máli og reynt að komast að niðurstöðu sem allra fyrst þannig að eðlileg samskipti geti þróast milli landanna. Það er mikið í húfi bæði fyrir Íslendinga og Norðmenn í þessum málum því við eigum mikla sameiginlega hagsmuni, við eigum miklu meiri sameiginlega hagsmuni en andstæða hagsmuni, og við þurfum að líta fyrst og fremst til þeirra.
    Ég vænti þess að Norðmenn muni viðurkenna rétt okkar til veiða í Barentshafi sem hlýtur að vera grundvallaratriði í þessu máli. En ég vil líka benda á að það er afar mikilvægt að löndin komi sér sem fyrst saman um síldveiðar og í þessu samhengi líka um veiðar suðvestur af Reykjanesi.
    Mér hefur fundist að ríkisstjórnin hafi gengið fram í þessu máli heldur sundruð og oft er talað um það í þeim samtölum sem ég á a.m.k. við Norðmenn að það sé eins og hér séu tvær ríkisstjórnir í þessu máli. Annarri stýri hæstv. sjútvrh. og hinni hæstv. utanrrh. Þetta er afar óheppilegt í svo viðkvæmu máli sem þessu þegar ráðherrar geta ekki komið fram sem ein heild í svo stóru utanríkispólitísku máli. Það er engin ástæða til annars en að Íslendingar eigi að geta sameinast í þessu máli því auðvitað er það kappsmál stjórnarandstöðu á hverjum tíma að stórmáli sem þessu sé komið í höfn.
    Ég tel mikilvægt að verði farið af stað með samninga og reynt að ná niðurstöðu sem fyrst á þessu ári og kosningar séu ekki látnar standa í vegi fyrir því að reynt sé að ná samkomulagi í þessu mikilvæga og viðkvæma máli. Við í Framsfl. erum tilbúin til samstarfs í því máli ef ríkisstjórnin telur ástæðu til og viljum ekki að kosningar nú á næstunni trufli samningsumleitanir.
    Hæstv. utanrrh. kom í ræðu sinni inn á hvalveiðimál. Hann sagði réttilega í ræðu sinni að þar þyrftu menn að ganga fram af varfærni. Ég get tekið undir það. En það er afar mikilvægt í því stóra og viðkvæma máli að þar sé einhver ein stefna. Það hefur komið fram að hæstv. sjútvrh. er andvígur því að ganga í Alþjóðahvalveiðiráðið en svo virðist vera að aðrir ráðherrar í ríkisstjórninni séu þeirrar skoðunar að það eigi að ganga í Alþjóðahvalveiðiráðið. Þetta er mjög óheppilegt þegar ráðherrar koma fram með mismunandi hætti í svo viðkvæmu máli. Ég vil alls ekki útiloka að það verði gengið í Alþjóðahvalveiðiráðið á nýjan leik. Að sumu leyti heppnaðist það ekki nægilega vel að ganga úr því vegna þess að Norðmenn og fleiri þjóðir héldu áfram að vera í Alþjóðahvalveiðiráðinu. En menn hljóta þá að verða að svara því: Hvað á að gerast þegar gengið verður í Alþjóðahvalveiðiráðið? Halda menn að það verði gefnir út kvótar daginn eftir? Nei, ekki aldeilis. Og þær hugmyndir sem þar eru uppi um kvóta á næstunni eru þess eðlis að við getum ekki reiknað með því að þar verði gefin út mikil réttindi á næstu árum, því miður. Ef við göngum þar inn þá tel ég að við þurfum að halda áfram með þær rannsóknir sem við hófum á árinu 1987. Það er ekki hægt að fylgjast með hvalastofnunum án einhverra veiða. Þetta vita allir sem til þekkja. Við höfum heimild til þess samkvæmt samningum sem gilda innan Alþjóðahvalveiðiráðsins að hefja slíka vísindaáætlun. Við ætluðum okkur að gera það að því er varðar hrefnuna. Það hefur aldrei verið gert. Þess vegna er full ástæða til þess að fara út í allverulegar veiðar á hrefnu þó ekki sé nema til þess að fylgjast betur með hrefnustofninum og gera sér grein fyrir því hvaða áhrif hann hefur á lífríkið í kringum landið. Þetta verður ekki gert án veiða.
    Ég vil spyrja: Hvaða viðræður hafa átt sér stað við aðrar þjóðir um þessi mál? Hefur eitthvað verið rætt t.d. við Bandaríkin um þetta efni? En samstarf við þá á þessu sviði er mjög mikilvægt. Hefur verið rætt við ýmsar aðrar þjóðir um hugsanlega samvinnu innan Alþjóðahvalveiðiráðsins ef við þá göngum í það? Mér finnst stefnan í þessu máli vera afar óljós. Og það er slegið úr og í. Það eru menn sem koma hér í þingið reglulega sem virðast hafa fengið loforð um að hvalveiðar verði hafnar á síðasta ári, þessu ári eða næsta ári. Þeir vitna til viðtala við ráðherra og ýmsa aðra og gera sér ávallt vonir um að nú séu veiðarnar að hefjast. Ég held að allir geti verið sammála um að lífríkið í kringum Ísland og auðlindir hafsins verði ekki nýttar með skynsamlegum hætti nema eitthvað sé tekið úr öllum stofnum.
    Ég vil þó að lokum koma inn á eitt mál sem ég tel mikilvægt í þessu samhengi og í samhengi við nýtingu auðlindanna almennt og það er samstarf þjóða á Norður-Atlantshafi. Kanadamenn hafa komið með þá tillögu að stofna Norðurheimskautaráð. Ég vil spyrja um stefnu ríkisstjórnarinnar í því máli. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að taka þátt í stofnun þessa ráðs og ég tel það mjög mikilvægt að byggja þetta ráð á því starfi sem hafið er í svokölluðu Rovaniemi-ferli, sem hafin var af Finnum, fyrir nokkrum árum og byggist m.a. á nánu samstarfi umhverfisráðherra þessara ríkja.
    Ég tel það mjög mikilvægt að byggja upp samstarf annarra ráðherra, m.a. sjávarútvegsráðherrar þessara þjóða við Norður-Atlantshaf til þess að reyna að stuðla að bættri nýtingu auðlinda hafsins og sameinast um stefnu í fiskveiðimálum og í nýtingu hvala- og selastofna. Ég vænti þess að íslenska ríkisstjórnin komi fram með stefnu í þessu máli og vinni að því að koma slíku samstarfi á.
    Á vegum Norðurlandaráðs hefur verið unnið mikið starf í sambandi við þetta mál og við höfum að undanförnu verið að vinna að því að koma á samstarfi þingmanna á þessu sviði og nokkur framgangur hefur orðið í því máli, m.a. með þátttöku Kanadamanna og Rússa. Við gerum okkur vonir um að fá jafnframt þátttöku Bandaríkjamanna í þessu þingmannasamstarfi en meiri tregða hefur verið hjá þeim en vonandi verður breyting þar á en svo virðist vera að meiri áhugi sé að kvikna hjá þeim í sambandi við nánara samstarf um Norður-Atlantshaf.
    Við eigum svo mikilla hagsmuna að gæta og svo margt sameiginlegt með þessum þjóðum að við hljótum að reyna að auka allt samstarf og samvinnu við þær um okkar brýnustu hagsmunamál.

    Virðulegur forseti. Ég hef í þessum orðum mínum reynt að koma inn á nokkur mál sem snerta mikilvæg hagsmunamál Íslands. Ég vænti þess að hæstv. utanrrh. sjái sér fært síðar að svara einhverju af því sem ég hef spurt um. Þó ég hafi gagnrýnt ýmislegt í hans störfum og stefnu ríkisstjórnarinnar þá er margt sem vel hefur verið gert og ég hef ekki komið að í mjög mörgum orðum. En auðvitað er það svo eins og alltaf áður að margt er vel gert og annað miður og það er nauðsynlegt að gagnrýna það og veita ríkisstjórn og utanrrh. á hverjum tíma aðhald sem vonandi verður til þess að hann stefnir inn á réttari brautir.