Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

90. fundur
Fimmtudaginn 09. febrúar 1995, kl. 14:16:05 (4102)

[14:16]
     Guðmundur Árni Stefánsson :
    Virðulegi forseti. Hér hefur farið fram í morgun um margt fróðleg umræða í kjölfar yfirgripsmikillar og ítarlegrar ræðu utanrrh. um stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna. Sú umræða hefur óneitanlega farið í nokkurn annan farveg en vænta mátti og hér átt sér stað orðaskipti sem upphafsræða utanrrh. kallaði ekki sérstaklega á. Sú umræða, sem ég vil nánar fjalla um á eftir, minnir um margt á orðaskipti á árum áður, á tímum kalda stríðsins þar sem forsvarsmenn tveggja stjórnmálaflokka bárust á banaspjótum, Alþb. annars vegar og Sjálfstfl. hins vegar. En nánar um það á eftir.
    Ég held að í kjölfar ræðu utanrrh. megi þingheimi og þjóð vera ljóst að hvernig sem á er litið þá er staða Íslands í samfélagi þjóðanna sterk og kraftmikil. Viðhorf okkar og sjónarmið til hinna ólíku þátta sem snúa að okkur sérstaklega og viðhorf okkar almennt til lýðréttinda og mannréttinda um heim allan hljóma sterkt svo ekki verður um villst og utanrrh. hefur haldið merki og viðhorfum íslensku þjóðarinnar mjög vel og dyggilega á lofti. Ég held að um þetta verði ekki deilt. Forusta hans í samtökum á borð við EFTA, málflutningur hans í samrunaferli Evrópu að öðru leyti út frá hagsmunum Íslendinga, út frá málinu í heild, er með þeim hætti að eftir er tekið og á er hlustað.
    Meginatriðið er kannski það á þessum árum í tíð núv. utanrrh. og í samhljómi við stefnu Alþfl. til margra ára og áratuga þá nálgast menn þetta viðfangsefni einfaldlega á þeim grunni að ótti eða minnimáttarkennd er ekki með í farteski né heldur gorgeir og hávaði þess smáa heldur eingöngu festa og ákveðni

byggð á sögulegri hefð lýðréttinda hér á landi, sögulegum og efnahagslegum styrk þjóðarinnar þrátt fyrir hina lágu íbúatölu. Eftir þessu er tekið, ekki eingöngu innan lands meðal almennings heldur, eins og ég sagði áðan, meðal okkar helstu vina- og bræðraþjóða.
    Við lifum á breyttum tímum í samskiptum þjóða. Veröldin hefur einfaldlega minnkað vegna stórbættra samskipta og samgangna og sem betur fer hygg ég að a.m.k. á okkar helming jarðarinnar sé vonandi að baki umræða öfganna sem því miður hefur einkennt alla stjórnmálaumræðu hér á landi til síðustu ára, a.m.k. þar sem umræðan hefur snúist á grundvelli svart/hvítra viðhorfa og öfgarnar ráðið ferð en köld rökhyggja orðið undan að láta. Eins og ég gat um í upphafi þá er nú kannski styttra í allt þetta en margur hefði haldið fyrir fram og minnir okkur á að það eru ekki mörg ár síðan múrinn féll, ekkert mörg ár frá því að það þíddi milli austurs og vesturs og menn gátu farið að nálgast hin stóru viðfangsefni Evrópu og heimsins alls með nokkuð ólíkum og öfgalausari hætti en áður.
    Það þarf ekkert að rifja það upp hvernig þessi umræða blasti við íslenskri þjóð á áratugum áður þar sem annars vegar var Sjálfstfl. með Morgunblaðið í broddi fylkingar á öðrum enda og hins vegar Alþb. með Þjóðviljann sem sitt málgagn. Margt má fullyrða að sú barátta sem þar átti sér stað ásanna á milli hafi í raun að sumu leyti grundvallað tilvist þessara stjórnmálaafla, Alþb., og áður Sósíalistaflokksins, að verulegu leyti og hugsanlega Sjálfstfl. að nokkru leyti. Það er því út af fyrir sig fagnaðarefni að loks nú um stundir getum við nálgast þessi mál, bæði tilveru þessara flokka með nýjum og bættum hætti og þetta viðfangsefni, stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna, skynsamlegar en áður var.
    Ég sagði það áðan og endurtek að afstaða Alþfl. og störf utanrrh. í samskiptum við aðrar þjóðir byggist á óttaleysi og jafnréttishugsjóninni. Við viljum engar undirlægjur vera né heldur neinir einangrunarsinnar. Það er mjög fróðlegt að rifja það upp í nútíð og fortíð hvernig nálgun íslenskra stjórnmálaflokka gagnvart flokkssystkinum, skoðanasystkinum í öðrum löndum, gagnvart öðrum þjóðum og öðrum stjórnvöldum hefur verið og er í dag. Alþfl. hefur aldrei leynt því að hann á skoðanasystkini um allan heim og hefur tekið virkan þátt í mannréttinda- og lífskjarabaráttu jafnaðarmanna hvar sem hún er háð á hverjum tíma. Þannig hefur Alþfl. látið til sín taka í alþjóðasamtökum jafnaðamanna, hefur verið í virku og góðu sambandi við skoðanasystkini á öðrum Norðurlöndum og gert þetta allt fyrir opnum tjöldum enda ekkert að fela. Þar fara einfaldlega sjónarmið saman.
    Það eru hins vegar ekki allt of mörg ár frá því að Sjálfstfl. kom út úr skápnum, eins og menn orða það nú, vildi loks viðurkenna það að til væru flokkar eða flokksbrot á erlendri grundu sem ættu eitthvað sameiginlegt með hinum íslenska Sjálfstfl. Það var talsvert vandræðamál fyrir ekki mörgum árum hvernig skipa ætti Sjálfstfl. í flokkasveit í hinu norræna samstarfi svo ég tali nú ekki um samtök hægri flokka í Evrópu eða heiminum öllum. En á síðari árum hefur flokkurinn hins vegar í þessu tilliti komið út úr skápnum og viðurkennt það að hann á samleið í raun og sanni með hægri flokkum víða í Evrópu og það út af fyrir sig er sérstakt rannsóknarefni að bera saman sjónarmið og stefnumið margra þeirra flokka og Sjálfstfl. á Íslandi.
    Framsfl. hefur sumpart átt í sömu vandræðum hvað þetta varðar. Á árum áður birtust af því fréttir að hann hefði gægst yfir járntjaldið, rætt við skoðanabræður í Búlgaríu, jafnvel Austur-Þjóðverja, sem nú eru mikið til umræðu, en almennt reynt að birta þá mynd af sér og sínum að þar færi alíslenskur flokkur sem ætti sér í raun litla sem enga hliðstæðu í erlendum þjóðlöndum.
    Alþb. er sérkapítuli í þessu öllu saman og tilvist Alþb. í kjölfar Sósíalistaflokksins hefur um margt helgast af því annars vegar að reyna að afsanna með öllu fyrri tengsl einstakra félaga í Alþb. austur yfir járntjald og gengið svo langt í þeim tilraunum sínum að líkja má við fráhvarfseinkenni. En á sama tíma hefur það auðvitað ekki farið fram hjá nokkrum manni að áhrifa þessara gömlu samskipta hefur gætt í mörgu á stefnumörkun Alþb. og mun ég rekja nokkur dæmi um það hér á eftir.
    Ég sagði áðan að í umræðunni í morgun gætti bergmáls fortíðar. Mér dettur ekki í hug að halda fram þessari umræðu á grundvelli þeirra einstaklinga sem hér hafa verið nefndir til sögu og eyði ekki í það miklum tíma hvort hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hafi notað mestallan sinn ræðutíma til að sverja af sér meint tengsl við kommúnista fyrr eða síðar. Ég hygg ekki að nokkrum hv. alþm. hafi komið það til hugar að í hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni byggi kommúnisti. Hvorki þá né nú. Það vita allir að í honum býr framsóknarmaður þá og nú og þarf ekki um það atriði sérstaklega að deila hér. Það kom mér því persónulega nokkuð á óvart að hann skyldi eyða öllum sínum ræðutíma til þess að sverja af sér þessi meintu tengsl sem ég hef svo sem út af fyrir sig ekki heyrt neinn vilja kenna hann við.
    Það breytir ekki hinu að flokkur hans hefur ýmislegt að skýra í þessum efnum. Voru það fráhvarfseinkenni til einangrunarstefnu Alþb. eða var það kannski sá andi sem blés frá Austur-Evrópu sem réð afstöðu Alþb. til samskipta við okkar bræðra- og viðskiptaþjóðir? Afstaða Alþb. til NATO og hersins sem tók í raun engum breytingum um áratuga skeið hvað svo sem leið stöðu alþjóðamála að öðru leyti, afstaða Alþb. til stóriðju og þar með erlendra fjárfesta á Íslandi í uppbyggingu íslenskrar stóriðju er saga sem Alþb. á eftir að gera miklu mun nánari grein fyrir, ástæður þeirrar tregðu. Skyldi það að einhverju leyti hafa átt sér skýringar í hinum gömlu tengslum kommúnismans eða var þar um einhvers konar fráhvarfseinkenni að ræða frá því að Sósíalistaflokkurinn var og hét?
    Við þessari spurningu verður auðvitað að gefa svar og ég held að það sé enginn betri en hv. þm. Hjörleifur Guttormsson til að svara því mjög skilmerkilega. Hann var forustumaður Alþb. í þessum málum og mótaði afstöðu þess á þeim tíma sem Alþb. hafði þessi ráð að nokkru leyti í hendi sér með ríkisstjórnarþátttöku 1979--1983.
    Á sama hátt dettur manni í hug að skoða afstöðu Alþb. til aðildar að EFTA og nú síðast fyrir ekkert mörgum árum afstöðu þessa sama flokks til aðildar okkar að EES.
    Með öðrum orðum, virðulegi forseti, þegar saman er dregið þá hlýtur að læðast að manni sá grunur að eitthvað sé ekki algerlega uppgert í afstöðu Alþb. til þessarar fortíðar með vísan til afstöðu flokksins til þeirra mála sem ég rakti áðan, þ.e. samskipta Íslands í viðskiptalegu og víðtækara tilliti til þeirra alþjóðastofnana sem ég tíundaði áðan.
    Virðulegi forseti. Ég sagði áðan að það eru margir sem hafa margt að skýra en ekki á grundvelli einstaklinganna heldur á grundvelli þeirra stjórnarathafna sem þeir hafa í umboði sinna flokka gengið fram með. Alþfl. stendur skýr og klár, jafnaðarstefnan stendur fyrir sínu, hún berst gegn kommúnisma, hefur gert það allar götur og alla tíð, hún berst á sama hátt gegn hinum öfgunum á hægri vængnum, nasismanum, og jafnaðarstefnan er í eðli sínu óbreytt og rótin sú sama og var. Við alþýðuflokksmenn höfum gengist við þeirri stefnu, ekki aðeins hér á Íslandi heldur í heiminum öllum, eigum okkar skoðanasystkini þar og þau eiga okkur hér og höfum og munum bindast bræðaböndum um að ýta fram þeirri göfugu mannúðarstefnu sem hún er. Í þeim anda hefur utanrrh. starfað, í þeim anda mun Alþfl. áfram starfa í alþjóðamálum og utanríkismálum þjóðarinnar.