Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

90. fundur
Fimmtudaginn 09. febrúar 1995, kl. 14:49:31 (4105)


[14:49]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Að sjálfsögðu er mikill misskilningur hjá hv. þm. Birni Bjarnasyni að amast sé við

því að menn rökstyðji mál sitt með tilvísun til sögunnar. Það sem er hins vegar ámælisvert er hvernig hv. þm. meðhöndlar söguna og hvernig hann leikur hana í meðferð sinni á málunum og í lágkúrulegum tilraunum sínum til þess að koma pólitísku höggi á andstæðinga sína sem eru, eins og ég segi, einhver þau ómerkilegustu sem ég hef lengi upplifað á þingi.
    Ég held að ræða hv. þm. í morgun verði örugglega lengi í minnum höfð sem einhver allra lágkúrulegasta og ómerkilegasta þingræða sem hefur verið haldin um mjög langan tíma. Og hvernig hv. þm. byggði upp ræðu sína utan um ummæli hins svokallaða sagnfræðings og prófessors, Þórs Whiteheads, var auðvitað með endemum því hv. þm. fléttaði inn í það tveimur núv. þingmönnum og var auðvitað ekki annað réð af samhengi og uppbyggingu ræðu hv. þm. en að um þessi Stasi-tengsl væri að ræða í því tilviki sem þeir kæmu að málum.
    Hitt er svo ágætt að hv. þm. Björn Bjarnason gengst við því að vera fulltrúi kaldastríðsaflanna á þingi, vera hér síðasti þingmaður kaldastríðstímans og gott ef ekki stoltur af því. Þá bara liggur það fyrir, þá er það bara hans hlutskipti hér að reyna að rembast við það í þessum ræðustóli og sjálfsagt annars staðar í ræðu og riti að bera með sér inn í nútímann og framtíðina andrúmsloft kalda stríðsins og ég endurtek hamingjuóskir mínar og þó í reynd samúð til handa hv. þm. að bera þetta hlutskipti á herðum sér í íslenskum stjórnmálum.