Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

90. fundur
Fimmtudaginn 09. febrúar 1995, kl. 15:26:55 (4111)


[15:26]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það fer nú að ganga dálítið sitt á hvað hjá hv. 3. þm. Reykv. Hann er að tala um flokkslegan vanda Alþb. Alþb. er stofnað sem stjórnmálaflokkur 1968. Það er fimm árum eftir að ég lauk mínu námi. Á sama ári er lagður niður Sósíalistaflokkurinn sem hafði á árunum fyrir 1968 samskipti við flokka í Austur-Evrópu, m.a. í Austur-Þýskalandi. Ástæðurnar fyrir því að þessi flokkur hafði þar meira um að véla en ella hefði verið var auðvitað sú staðreynd að það voru engin stjórnmálaleg samskipti milli Íslands og þessa ríkis. Það voru hins vegar heilmikil viðskiptasambönd og það þyrptust þangað kaupsýslumenn allt að 100 talsins á ári hverju eða tvívegis á ári til þess að eiga viðskipti en það mátti ekki viðurkenna það stjórnmálalega að þetta land væri til.
    Menn getur greint á um þá ákvörðun að það voru tekin upp stjórnmálasamskipti. En Alþb. gerði sínar samþykktir við stofnun og stofnanir Alþb. fylgdu því eftir og formaður Alþb. gerði, eins og kom fram áðan í hans ræðu, hreint fyrir sínum dyrum og flokksins áður en Berlínarmúrinn féll. Hann skilaði utanrmn. 1989 sérstakri greinargerð til að vara við þeim vanda viðskiptalegs eðlis sem við væri að fást varðandi Sovétríkin og voru til umræðu í utanrmn. og eftir er lýst í Morgunblaðinu hvort ekki yrði mark á tekið. Svo kemur hv. formaður utanrmn. hér með þann málflutning, sem hann hefur haft uppi í dag og segir að Alþb. þurfi eitthvað að hreinsa til eða hreinsa fyrir sínum dyrum. Það er langt seilst til loku, virðulegi forseti.