Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

90. fundur
Fimmtudaginn 09. febrúar 1995, kl. 15:29:10 (4112)


[15:29]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Við höfum hlustað á það hér í dag að 1968 hafi Alþb. verið stofnað og síðan hafi það ekki átt í neinum samskiptum við þessa flokka í Austur-Evrópu. Við höfum heyrt það líka hér að 1976 taldi hv. þm. sig knúinn til að flytja tillögur á þingi Alþb. til þess að árétta það að Alþb. hefði engin tengsl við þessa flokka. Við höfum heyrt það að 1989 sá formaður Alþb. ástæðu til þess að skrifa sérstaka grein í blað til þess að sýna fram á að flokkurinn hefði engin tengsl við þessa flokka. ( Utanrrh.: Hann var á móti Lenín.) Og lenínisma. 1990 klofnaði Alþb. í Reykjavík og menn gengu úr flokknum af því að þeir töldu að hann hefði ekki gert upp við þennan vanda.
    Það þýðir ekkert að koma hér og segja sem svo að 1968 hafi þessi vandi verið leystur í Alþb. Hann er óleystur enn og það er þetta flokkslega vandamál og pólitíska vandamál sem við erum að fjalla um hér þegar við ræðum um stöðu íslenskra stjórnmála og íslenskra utanríkismála. (Gripið fram í.)