Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

90. fundur
Fimmtudaginn 09. febrúar 1995, kl. 16:03:55 (4116)


[16:03]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hæstv. forseti. Ég get tekið undir það með hv. síðasta ræðumanni að hér á þessum stað eigum við að ræða saman og ég hef gert það eins og hann sagði áður í umræðum um utanríkismál við hv. síðasta ræðumann og einnig við hv. formann Alþb. Við höfum átt ágæt orðaskipti hér um utanríkismál en miklu skiptir að forsendurnar séu skýrar. Mínar forsendur eru alveg skýrar, ég hef sett þær fram og set þær fram óhikað og er óhræddur við það.
    Það sem hér hefur hins vegar verið sagt að ég hafi borið ákveðna alþingismenn þeim sökum að þeir hafi brotið gegn hagsmunum þjóðarinnar og framið landráð er náttúrlega algjörlega rangt. Ég vil lesa, með leyfi hæstv. forseta, það sem ég sagði um tvo hv. alþm. í ræðu minni í morgun:
    ,,Íslenskir sagnfræðingar og fréttamenn hafa síðan komist í skjölin sjálf.`` --- Þ.e. Stasi-skjölin. --- ,,Þau staðfesta að formleg og mjög náin tengsl voru á milli stjórnmálamanna hér á landi og ráðamanna kommúnistaflokksins í Austur-Þýskalandi. Tveir hv. alþm. nutu m.a. góðs af þessari samvinnu þar sem þeir voru valdir á flokkslegum forsendum til að stunda nám í Austur-Þýskalandi. Hinn sálræni og pólitíski vandi sem tengist hruni kommúnismans teygir sig því hingað til lands og raunar inn fyrir veggi Alþingis. Er ekki unnt að láta þess ógetið þegar rætt er um þróun utanríkismála í lok þessa kjörtímabils. Í upphafi hvatti ég þá sem starfa í Alþb. til að gera upp við þessa fortíð sína og flokks síns. Þeim kröfum var í engu sinnt og gjarnan svarað með skætingi eða flissi og útúrsnúningum. Ég heyri ekki betur en tónninn hafi dálítið breyst eftir sjónvarpsþátt um síðustu helgi. Við höfum m.a. hér á þingi mann sem segist hafa flúið ófrelsið, eins konar pólitískan flóttamann sem þó var sendur á flokkslegum forsendum til náms í Austur-Þýskalandi. Ég hvet enn til þess að Alþb. geri hreint fyrir sínum dyrum, það fer ekki vel á því að skjöl frá útlendum hreki menn þar úr einu víginu í annað.``
    Þetta var það sem ég sagði um hv. þingmenn og ég get ekki talið að hér sé um nein landráðabrigsl að ræða.