Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

90. fundur
Fimmtudaginn 09. febrúar 1995, kl. 16:09:53 (4120)


[16:09]
     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Í þessari athyglisverðu umræðu um utanríkismál hafa margir þingmenn lagt áherslu á það hve mikilvægt er að ná samstöðu um utanríkismál. Það er óvenjumikilvægt fyrir Íslendinga sem þjóð að ná samstöðu í utanríkismálum. Ekki einungis vegna þess að þeir geta ekki tryggt öryggishagsmuni sína sjálfir heldur ekki síst með tilliti til þess að mjög fáar þjóðir eru eins háðar milliríkjaviðskiptum efnahagslega og þar af leiðandi lifa Íslendingar á því að öryggi í alþjóðamálum geri heimsviðskipti möguleg. Við eigum afkomu okkar, okkar viðskiptalegu hagsmuni undir því að friður ríki. Það er því alveg rétt sem hér hefur komið fram að það er mjög mikilvægt að menn vinni að því að ná samstöðu í utanríkismálum. Jafnframt hefur komið fram gagnrýni á ríkisstjórnarflokkana, þá flokka sem starfa saman í ríkisstjórn og hafa meiri hluta á Alþingi, að þeir hafi ekki unnið að því að skapa grundvöll fyrir sameiginlega utanríkisstefnu og framtíðarsýn í utanríkismálum.
    Ég tel að þetta sé rangt og í raun og veru mjög ósanngjarnt. Minnumst þess að í umræðunni um Evrópska efnahagssvæðið kom í ljós mikill klofningur milli stjórnmálaaflanna hér á Alþingi og þeirri umræðu lauk með því að fullkomið ósamkomulag var um það á þinginu hvernig með það skyldi farið. Síðan hefur verið dyggilega unnið að því að reyna að finna sameiginlegan flöt fyrir flokkana á Alþingi til að taka á sambandinu við Evrópusambandið og það hefur tekist undir forustu hv. formanns utanrmn., Björns Bjarnasonar. Finnst mér full ástæða til að rifja það hér upp þegar menn hafa komið fram með það sem ég kalla ósanngjarna gagnrýni á að ekki hafi verið reynt það sem hægt var til að ná samstöðu í utanríkismálum í þeirri erfiðu stöðu sem við stóðum í eftir umfjöllunina um Evrópska efnahagssvæðið.
    Ég gat um það í máli mínu áðan, virðulegur forseti, að ég teldi að það væri ástæða til að vinna betur að upplýsingaöflun um íslensk öryggismál en gert hefði verið. Ég er sannfærður um að það er nauðsynlegt. Ég velti því fyrir mér og varpa þeirri hugmynd hér fram hvort ekki væri rétt að Alþingi léti sérstaklega kanna stöðu íslenskra öryggismála og þá á ég við öryggismála í víðustu merkingu þess hugtaks með hliðsjón af þeirri stækkun Evrópusambandsins sem nú á sér stað, þ.e. með inngöngu Finnlands, Svíþjóðar og Austurríkis, með hliðsjón af ríkjaráðstefnu Evrópusambandsins, með hliðsjón af hugsanlegri stækkun ESB til austurs, sem nú er þegar farið að ræða mjög mikið um innan þjóðþinga Evrópusambandsríkjanna og þá ekki síst á meðal embættismanna þessara ríkja, og þá einnig með hliðsjón af nýjum áhersluatriðum sem hafa komið fram hjá NATO gagnvart múhameðstrúarríkjum við Miðjarðarhafið. Í þessari athugun þyrfti einnig að hafa hliðsjón af þeim átökum milli kristinna manna og múhameðstrúarmanna sem nú eiga sér stað á Balkanskaga og á Kákasussvæðinu. Síðast en ekki síst þyrfti inn í þessa athugun að koma ítarleg umfjöllun og upplýsingaöflun um tengsl öryggishagsmuna Íslendinga, öryggishagsmuna Evrópusambandsins og efnahagsþróunarinnar í Mið- og Austur-Evrópu. Því það er rétt að undirstrika það að þessi missirin fer fram í Evrópusamabandinu mjög ítarleg umfjöllun um tengsl þessara mála, öryggishagsmuna annars vegar og efnahagsþróunarinnar hins vegar. Og það er alveg ljóst að Evrópusambandið er reiðubúið til þess að axla verulegar byrðar, taka verulega áhættu, að því er mér sýnist til að tryggja sína öryggishagsmuni með stækkun Evrópusambandsins austur á bóginn, taka á sig miklar efnahagslegar byrðar til að tryggja sér svigrúm þar og tryggja frið í þeim heimshluta.
    Þess vegna varpa ég því hér fram til þess að fá umræðu um það hvort þingmenn telji að ástæða sé til að taka á þessum málum sérstaklega á vegum Alþingis. Ég tel að utanmrn. Alþingis væri ákjósanlegur vettvangur til þess að ráðast í könnun af þessu tagi. Ég tel að það starf sem þar hefur verið unnið fram að þessu sé góður grunnur til að vinna á og að út úr þessu starfi gæti svo komið grundvöllur að frekari tilraunum til að ná saman um framtíðarsýn í öryggismálum okkar í víðustu merkingu þess orðs.