Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

90. fundur
Fimmtudaginn 09. febrúar 1995, kl. 16:16:14 (4121)


[16:16]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég kvaddi mér hljóðs aðallega til að taka undir það sem fram kom hér hjá hv. þm. Tómasi Inga Olrich varðandi upplýsinga- og gagnasöfnun ekki aðeins varðandi þróun Evrópumálanna heldur líka varðandi alþjóðamálin yfirleitt. Ég held að það væri mjög æskilegt að Alþingi kæmi sér upp aðeins sjálfstæðari stöðu í þessum málum en verið hefur. Reynslan er sú, eins og eðlilegt er, að ríkisstjórnin fer með sín mál og stjórnarandstaða tekur svo á móti þeim. En hins vegar geta hér í þinginu þróast línur með allt öðrum hætti og þess vegna held ég að það gæti verið skynsamlegt að alþjóðastarf yrði skipulegra og opnara en það hefur verið í þessari stofnun. Ég tel að það hafi að nokkru leyti verið óþarflega og óþægilega lokað og kvaddi mér hljóðs til að taka undir þá hugmynd sem mér fannst koma fram hjá hv. þm. og vaka í máli hans, að Alþingi dragi saman eins mikið af gögnum og mögulegt er um utanríkismál og alþjóðlega þróun og hér reyndu menn að koma á eðlilegum samtölum um þróun þeirra mála og íslenska utanríkisstefnu til lengri tíma litið.
    Ég verð hins vegar að hryggja hann með því að ég tel að hv. 3. þm. Reykv. geti ekki verið forustumaður í þeim hópi.