Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

90. fundur
Fimmtudaginn 09. febrúar 1995, kl. 16:17:49 (4122)


[16:17]
     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil lýsa því hér yfir að ég tel að að mörgu leyti sé Alþingi Íslendinga vanbúið til að takast á við umfjöllun um þennan mikilvæga málaflokk. Ég hef lagt mig svolítið eftir að kynna mér þau úrræði sem þing Evrópuríkjanna hafa til að takast á við málaflokka af þessu tagi. Þau eru veruleg og það liggja fyrir þingmönnum á þessum þingum á ári hverju ítarlegar skýrslur um aðskiljanleg málefni sem mjög brýnt er að þingmenn séu vel upplýstir um og hafi góð tök á. Hér er að sjálfsögðu um að ræða verkefni sem kostar mikið fé og má gera ráð fyrir því að fjármunir þeir sem við höfum til ráðstöfunar setji okkur miklar skorður í þessum efnum. Ég er engu að síður þeirrar skoðunar að á þessum málum verði þingið að taka og reyna að styrkja þann grundvöll sem umræðan um utanríkismálin er byggð á.