Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

90. fundur
Fimmtudaginn 09. febrúar 1995, kl. 16:35:19 (4124)


[16:35]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. síðasti ræðumaður gaf til kynna að það væri ekki samanburðarfræðingurinn sem talaði heldur stjórnmálafræðingurinn. Það er rétt að hann lagði málið þannig upp að hann talaði eins og stjórnmálafræðingur um þetta sérstaka pólitíska vandamál sem við höfum verið að fjalla um í allan dag.
    En mig langar til að spyrja hann þá á sömu forsendum: Hvers vegna heldur hann að sambærilegir flokkar og Alþb. í Frakklandi og á Ítalíu og víðs vegar annars staðar í Evrópu hafi talið nauðsynlegt eftir hrun sovéska kerfisins og hrun kommúnismans að ganga í gegnum eigin sögu og jafnvel gjörbreyta um starfshætti, afneita fyrri stefnu og gera upp við fortíðina eins og hefur verið gert í þessum flokkum? Það er þetta sem við erum að tala um. Við erum að tala um að það vanti sambærilega umræður hér á landi innan Alþb. og fram hafa farið í þessm flokkum. Ef hv. þm. vill ræða þetta á fræðilegum grundvelli þá er ég tilbúinn til þess. Þá vil ég líka bera Alþb. saman við þá flokka sem það bar sig alltaf saman við fyrr á árum, ekki bara austan tjalds heldur einnig vestan tjalds. Og þessir flokkar hafa gjörbreytt sér og hafa gengið í gegnum miklar þrengingar í einstökum löndum vegna þessa uppgjörs. Ef Alþb. hefði gert það en menn hafa yfirgefið Alþb. á þeirri forsendu að flokkurinn hafi ekki viljað horfast í augu við fortíðina. Hugmyndafræðilega er það rétt að gömlu stefnu Alþb. var kippt úr sambandi, önnur stefna sem kennd er við útflutning er komin í staðinn.
    Þessar umræður hér í dag hafa mér fundist mjög gagnlegar og ég þakka hv. þm. Alþb. fyrir það hve viljugir þeir hafa allt í einu orðið til að taka þátt í umræðum um þetta mál í þingsölunum. Ég hef beðið eftir því allt kjörtímabilið og það var ekki seinna vænna. Ég tel að þær hafi verið mjög gagnlegar og þær séu skref í rétta átt og þeir lýsi núna meiri vilja en áður til að ræða þessi mál.