Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

90. fundur
Fimmtudaginn 09. febrúar 1995, kl. 16:37:31 (4125)


[16:37]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Fyrst eru það nú staðreyndirnar. Það er ekki rétt hjá hv. þm. að útflutningsleiðin, sú merka bók, hafi komið í staðinn fyrir stefnuskrána frá 1974. Alþb. samþykkti nýja stefnuskrá á flokksþingi sínu á landsfundi 1991. Ég er satt að segja hissa að jafnkunnugur maður og hv. þm. er íslenskum stjórnmálum skuli verða á sá fingurbrjótur að átta sig ekki á því í ræðustólnum. Það er kannski dálítið fróðlegt fyrir þingmanninn að skoða það skjal og hvað í því felst.
    Síðan sagði hv. þm.: flokkar sambærilegir Alþb., og fór að tala um Ítalíu og Frakkland. Ég segi

við hv. þm. sem stjórnmálafræðingur: Það er enginn flokkur á Ítalíu eða í Frakklandi sambærilegur við Alþb. Það er reyndar vandi í umræðunni um íslenska flokkakerfið í fræðilegri umræðu sem allir fræðimenn viðurkenna sem fjalla um íslenska flokkakerfið og samanburð á því og flokkakerfi annars staðar, ekki bara í þessum tveimur löndum eða ýmsum öðrum að íslenska flokkakerfið er nánast ,,sui generis``. Þess vegna m.a. var það mjög erfitt fyrir Sjálfstfl. um tíma að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi. Ástæðan fyrir því að kommúnistaflokkurinn á Ítalíu og kommúnistaflokkurinn í Frakklandi þurftu að fara í gegnum þetta uppgjör var sú að þessir tveir flokkar voru í nánum flokkslegum tengslum við kommúnistaflokk Sovétríkjanna allt til loka. En Alþb. hefur frá stofnun sinni 1968 aldrei, hv. þm., verið í neinum flokkslegum tengslum við kommúnistaflokk Sovétríkjanna. En bæði ítalski kommúnistaflokkurinn og franski kommúnistaflokkurinn voru það. Nánum, formlegum, skipulagslegum tengslum.
    Þess vegna er það ekki við hæfi, hv. þm., í vandaðri umræðu eins og þingmaðurinn vill hafa hér að bera það á borð, hvorki fræðilega né stjórnmálalega að ætla að fara að líkja þessum flokkum saman.