Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

90. fundur
Fimmtudaginn 09. febrúar 1995, kl. 16:41:26 (4127)


[16:41]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég var í ræðu minni áðan að gera tilraun til að ræða þessi mál á vandaðan hátt því ég veit að hv. þm. Björn Bjarnason á til þann eðliseiginleika að geta rætt mál á vandaðan hátt. Þó utanrrh. finnist það nú ekki og hlær mjög þegar það er fullyrt. Ég tók hins vegar eftir því að þingmaðurinn lagði ekki í að ræða neitt meira þá fullyrðingu sína þar sem hann var að bera saman Alþb. og tiltekna flokka á Ítalíu og Frakklandi og gafst bara upp við það eftir svar mitt. ( BBj: Ég þurfti ekki að segja meira um það.) Nei, það er alveg rétt, það þurfti ekki að segja meira um það vegna þess að það lá alveg ljóst fyrir. Síðan fór þingmaðurinn að fara aftur með plötu sem hann er búinn að fara með margoft í dag.
    Ég var ekki að líkja neinu hér saman, hv. þm. Ég hef ekki gert það í neinni ræðu hér í dag og hef ekki stundað nein samanburðarfræði, hv. þm. Ég var að reyna í korters ræðu að lýsa því fjölþætta samskiptaneti sem öflug erlend ríki hafa haft í íslenskum stjórnmálum á sl. 40--50 árum. Ég sagði alveg skýrt að það væru engar nýjar fréttir, það er búið að liggja fyrir í áratugi, að Sameiningarflokkur alþýðu, Sósíalistaflokkurinn, hafði formleg flokksleg tengsl við flokkana í Austur-Evrópu. Það eru engar nýjar fréttir, hv. þm. Það eru heldur engar nýjar fréttir að formaður þess flokks, Einar Olgeirsson, hafi haft aðstöðu til þess að ákveða það að einstakir ungir námsmenn færu þar til náms. Þetta er búið að liggja fyrir í áratugi, hv. þm. En sá sem var formaður Alþb. á þessum tíma hét Hannibal Valdimarsson. Það sýnir veilurnar í málflutningi hv. þm. og hvað greiningin er þröng að hann hefur aldrei í öllum sínum málflutningi í dag lagt í að nefna einu orði formann Alþb., kosningabandalagsins, á þessum árum sem hann er ávallt að tala um, bara aldrei nokkurn tímann. Það sýnir náttúrlega best að það sem hér hefur farið fram í dag er ekki tilraun til að greina söguna heldur fyrst og fremst einhver óskiljanlegur pyttur frá fortíðinni sem hv. þm. hefur dottið í.