Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

90. fundur
Fimmtudaginn 09. febrúar 1995, kl. 16:44:34 (4128)


[16:44]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég ætla nú að snúa mér hér að umræðuefni dagsins ef svo má segja, eins og

ég bjóst við að það yrði þegar ég gekk til fundar í morgun, og taka í síðari ræðu minni upp nokkur atriði sem snúa að ræðu hæstv. ráðherra eða því efni sem hann var að fjalla um í ágætri skýrslu sinni sem hann flutti hér munnlega til okkar. Og þegar ég segi ágætri þá er það út af fyrir sig ekki almennt mat á innihaldinu heldur það að hann kom víða við og fjallaði um efni sem eru dagskrármál nú og verða það áfram um nokkurt skeið a.m.k. og það er ágætt.
    Ég ætla kannski að byrja með því að ræða svolítið spurninguna um tengslin við Evrópusambandið sem Alþfl. ber mjög fyrir brjósti og hefur gert að stefnu sinni að Ísland eigi að sækja þar um aðild. Þessi atriði sem snúa að samskiptunum við Evrópusambandið eru mjög nærtæk vegna þess að við erum bundin Evrópusambandinu í samningi um Evrópskt efnahagssvæði með mjög ákvarðandi hætti og meiri hluti Norðurlanda, bæði að fjölda til og fólksfjölda, yfirgnæfandi hluti er nú orðinn aðili að sjálfu Evrópusambandinu.
    Ég vil nefna varðandi Evrópusambandið að því er stundum haldið fram að það mál hafi ekki verið á dagskrá hér á Íslandi og Alþfl. sé nú fyrst að taka það mál á dagskrá og látið að því liggja að menn hafi bara bundið fyrir bæði augu og ekkert verið að hugsa eða fjalla um þau efni, hvort að Ísland eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Þetta er mikill misskilningur að mínu mati sem hef verið þátttakandi hér í athugun mála frá því að það hófst með skipulegum hætti 1988 að menn fóru að velta því fyrir sér hver eigi að vera tengslin. Ég var þátttakandi í nefnd undir forustu tveggja ágætra þingmanna, Kjartans Jóhannssonar, sem nú er framkvæmdastjóri EFTA, og síðar Eyjólfs Konráðs Jónssonar hv. þm., sem leiddu Evrópustefnunefnd. Auðvitað var þessi nefnd að skoða samskiptin við Evrópusambandið og stöðu Íslands í Evrópu í breiðu samhengi. Þannig var þetta málefni á dagskrá allan tímann í mínum huga, hvernig við ættum að standa að samskiptunum, og auðvitað kom upp spurningin og var velt upp með beinum hætti innan þeirrar nefndar, m.a. af þingmönnum sem áttu þar sæti, fulltrúum Sjálfstfl. sem áttu þar sæti sem sýndu áhuga á því svipað og Alþfl. nú gerir að sækja um og við ættum að sækja um aðild. Þessi nefnd skilaði af sér í skriflegu formi þeim gleggstu upplýsingum sem þó liggja fyrir um þessi efni á íslensku að ég held í aðgengilegu formi. Hv. fyrrv. formaður lyftir þeirri bók hér, riti nefndarinnar, Eyjólfur Konráð Jónsson, sem átti hlut að þessu starfi með öðrum og forustu í því um nokkurra ára bil.
    Það varð niðurstaða Alþb. á þessum árum og er áfram niðurstaða Alþb. að það eigi ekki að koma til greina fyrir okkur Íslendinga að fara að sækja um aðild að Evrópusambandinu og láta á það reyna. Það er búið að álykta um það á þremur landsfundum flokksins eftir ítarlega umfjöllun um þessi málefni og það er, vil ég fullyrða, enginn áhugi á því hjá mönnum innan Alþb. að vera að setja það mál á dagskrá með öðrum hætti. Alþb. er mjög heilsteypt að mínu mati í sambandi við þessi efni. Og það má vera að það séu tveir flokkar hér í landinu, Alþb. annars vegar og Alþfl. hins vegar, sem eru með mjög skýra stefnu og sameinaðir í þeirri stefnu en komast að alveg öndverðri niðurstöðu. Og það segir náttúrlega sitt um flokka sem stundum, aðallega af vankunnáttu að mínu mati, hefur verið fjallað stundum um í samhengi eða samtímis undir merki A-flokkanna svokölluðu af því að heiti þeirra byrja á A. En það er svo langt þarna á milli í nánast öllum þjóðmálum sem máli skipta að það er leitun í rauninni að jafnmikilli gjá á milli flokka eins og þessara andstæðna í íslenskum stjórnmálum. Það er miklu frekar að Alþb. finni skoðanabræður inni í öðrum flokkum eins og Sjálfstfl. og hluta af Framsfl. og Kvennalistanum heldur en hjá forustu Alþfl. Ég segir forustu Alþfl. því ég vil auðvitað ekki vera að alhæfa um of í þessum efnum. Og þetta er, finnst mér, alveg nauðsynlegt að hafa í huga.
    Virðulegur forseti. Ég vildi gjarnan að formaður Framsfl. vissi af því að ég er að fjalla um þessi efni því að ég kem aðeins að Framsfl. í máli mínu.
    Eftir að knúinn var fram samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði á Alþingi Íslendinga illu heilli 1993 þá höfðu kannski einhverjir reiknað með því að lengra skyldi ekki haldið. En auðvitað vissum við það sem höfðum fylgst með þessu að þar yrði ekki látið staðar numið af hálfu hæstv. utanrrh. Hann fór í þetta mál með nákvæmlega sama hugarfari og Gro Harlem Brundtland og aðrir kratar á Norðurlöndum, forustumenn krata á Norðurlöndum, að aðildin að Evrópsku efnahagssvæði var bara leið að öðru marki sem lá lengra, þ.e. beinni aðild. Og þetta var hreint taktískt herbragð hjá þessum forustumönnum og hefur náttúrlega sýnt sig með skýrum og áþreifanlegum hætti að svo er háttað einnig um Alþfl. hér á Íslandi, sem --- eins og ég hef orðað --- horfði hvorki til hægri né vinstri í þessum efnum og ákvað bara að demba sér til sunds í þessa hringiðu Evrópu eins og Alþfl. vildi sjá hana þróast, án landamæra með fullt frelsi fyrir fjármagnið til að valsa og ráða þvert á landamæri og annað sem fylgir Rómarsamningnum.
    Og hæstv. utanrrh. reynir að bera það á borð fyrir þjóðina að það sé einhver leið fyrir Íslendinga að komast þarna inn í Evrópusambandið, jafnvel þvert á sjávarútvegsstefnu sambandsins, menn geti jafnvel að gamni sínu gælt við að gera hvort tveggja að binda það í stjórnarskrá Íslands að forræðið sé í höndum Íslendinga ævarandi annars vegar og hins vegar að ganga inn í Evrópusambandið.
    Ég held að það þurfi ekki mikið að ræða það efni, það ætti a.m.k. öllum sem um fjalla að vera ljóst að þetta rímar ekki saman. En ég vil hins vegar segja að þó að þetta sé afskaplega gilt mál í umræðunni og skipti auðvitað afar miklu að þá er þetta svo óralangt frá því að vera meginmálið eða eina málið sem varðar spurninguna um aðild. Það er svo óralangt frá því að þetta sé aðalmálið eða kannski eina málið sem sé prófsteinninn á það hvort við eigum að láta reyna á aðild að Evrópusambandinu. Þetta er afar mikilsvert mál í þessu samhengi en það eru fjölmörg önnur atriði í mínum huga sem útiloka það að við

eigum að láta á reyna með umsókn um aðild.
    Spurningin verður áreiðanlega hér á næstu árum: Hvert ætlum við í þessum efnum, hve langt eru íslensku stjórnmálaflokkarnir reiðubúnir að ganga? Sú spurning hlýtur að brenna, einnig á kjósendum. Alþb. hefur svarað fyrir sig, aðrir flokkar hafa uppi ákveðna stefnu í þessum málum og við tökum eftir því en þeir tala ekki mjög skýrt í málinu. Og þetta á auðvitað við um hinn tvíklofna Sjálfstfl. í þessu máli þar sem eru tvær stríðandi fylkingar, önnur sem ólm vill fara inn, það eru kannski hin fjársterku öfl að frádregnum hluta af sjávarútvegshagsmununum sem tengjast flokknum, og hins vegar mjög einörð öfl sem eru því andvíg sem betur fer. Og því skiptir það afar miklu þegar formaður Sjálfstfl. tók þá skynsamlegu afstöðu að færa sig mitt inn á milli þessara fylkinga og greina sig með skýrum hætti frá utanrrh. og flokki hans í þessum málum og segja að málið geti ekki verið á dagskrá á næstu árum, vísar því nokkur ár fram í tímann.
    Formaður Framsfl., sem tók við flokknum í vor, hefur verið að velta þessum málum mikið fyrir sér með allt öðrum hætti en fyrrv. formaður Framsfl., eins og við þekktum það og hans málflutning. Þetta er vissulega framhald af þeim ágreiningi sem þar var uppi í Framsfl. varðandi aðildina að Evrópsku efnahagssvæði. Fyrstu mánuðina eftir að formannaskipti urðu í Framsfl. þá fannst mér formaður Framsfl. ganga býsna langt í því að gæla við að nú gæti verið komin spurningin um að fara lengra. Nú segir hins vegar formaður Framsfl. að það sé stefna flokksins að sækja ekki um aðild að sinni, oft bætt við, ekki núna. En það liggja auðvitað fyrir mörg ummæli frá formanni Framsfl. á undanförnum mánuðum þar sem hann gerir ráð fyrir því að þetta geti orðið á dagskrá innan ekki mjög langs tíma, í náinni framtíð, í einu viðtali sem kom í Mbl. við formann Framsfl. hagar hann orðum sínum þannig. Og þetta hefur gerst og þetta er auðvitað áhyggjuefni í hugum okkar sem teljum að þetta eigi ekki að koma til greina af fjölmörgum ástæðum sem við teljum að þarna séu þess eðlis að við eigum að forðast það.
    Kvennalistinn hefur klofnað í þessu máli og einn talsmaður listans, sem nú leiðir borgarstjórn Reykjavíkur, telur að þarna eigi allt að vera opið í þessum efnum svipað og hún slóst í hóp þeirra sem vildu ganga inn í Evrópskt efnahagssvæði þannig að þar er nú ekki neinni heilsteyptri stefnu fyrir að fara.
    Auðvitað spyrja menn og það er alveg heiðarlegt að spyrja og hafa þá afstöðu að þetta eigi að vera opið til endurskoðunar innan ekki langs tíma. En þá líka eiga menn að viðurkenna það sem sína stefnu og sitt sjónarmið. Og náin framtíð, fyrir aldamót væntanlega, geti verið tími þar sem væri tímabært að hafa uppi aðra stefnu. Að mínu mati getur þetta stóra mál verið á okkur á komandi kjörtímabili í rauninni og það skiptir þannig afskaplega miklu hvaða styrk þeir flokkar fá sem eru þess sinnis að þarna eigi að keyra hratt eða hinir sem eru tvístígandi. Það skiptir miklu upp á framhaldið og ég tala nú ekki um hvers konar ríkisstjórn verður mynduð hér að kosningum loknum, hver verður hennar stefna í þessu stóra og afdrifaríka máli.
    Þetta vildi ég sagt hafa um þessi efni. Það væri ástæða til þess að víkja að Norðurlöndunum í þessu efni og því stórafreki norskrar þjóðar að meiri hluta til að vísa frá samningnum sem gerður hafði verið um Evrópusambandið, aðild að Evrópusambandinu. Við getum komið að því í sambandi við umræðuna um skýrslu varðandi Norðurlöndin hér á eftir.
    Svo aðeins hér, virðulegur forseti, fáein atriði varðandi Sameinuðu þjóðirnar og okkar stöðu í utanríkismálum almennt. Ég er alveg sammála því sem kemur fram hjá utanrrh. í skýrslu hans að það sé þörf á því að styrkja stöðu Íslands að því er varðar aðild okkar að Sameinuðu þjóðunum og vinnu á þeim vettvangi. Ég held að þar sé hæstv. ráðherra alveg á réttu spori þegar hann leggur áherslu á þetta og það er nú svo að þó að Sameinuðu þjóðirnar séu oft undir ámæli fyrir að vera heldur óburðugar og ekki geta leyst stór vandamál þá er þetta nú vettvangurinn, hinn alþjóðlegi vettvangur þar sem menn eru að fást við það stóra verkefni að stilla þjóðir heims saman til að taka á sínum málum. Ég vona að það verði úr því fyrr en seinna að það verði tekið betur á ýmsum þáttum sem snúa að aðild okkar að Sameinuðu þjóðunum. Þörfin er aukin m.a. vegna þess að við njótum ekki þess stuðnings af hinum Norðurlöndunum sem við höfðum áður en þau skiptust upp með þeim hætti sem raun ber vitni og áður en Maastricht-ákvæðin um sameiginlega utanríkisstefnu, þ.e. að Evrópusambandið mótaði sér sína utanríkisstefnu fyrir heildina, kom inn á sviðið sem gjörbreytir málum og er eitt af þessu sem hefur breytt eðli Evrópusambandsins með mjög ákvarðandi hætti.
    Hæstv. utanrrh. sagði að það væri ekki friðvænlegt í heiminum nú frekar en áður, það jafnvel stæði verr, og það eru vissulega má segja orð að sönnu. Við stöndum frammi fyrir mjög flókinni heimsmynd og hér væri ástæða til að ræða öryggismál í breiðu samhengi, til þess er því miður ekki tími. En öryggismál eru fleira en hermál og það sem snýr að því, öryggismál eru ekki síður spurningin um að vernda umhverfi jarðar fyrir mengun og fyrir þeim vanda sem ágangur á auðlindir er, sumpart óheftur. Það snertir þá fiskveiðistefnu og spurninguna um réttindi í sambandi við fiskveiðar, sem fjallað er um í skýrslu ráðherrans og sem er eitt af þessum stóru málum sem snúa að okkur Íslendingum að reyna að tryggja þar okkar rétt og okkar hagsmuni en þar sem við verðum auðvitað að hafa mjög skýra sjón til þess mikla vanda sem er, ágangurinn í auðlindina með þeirri gífurlegu sóknargetu sem fylgir nútímatækni og nútímafiskiskipum.