Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

90. fundur
Fimmtudaginn 09. febrúar 1995, kl. 17:36:02 (4133)


[17:36]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er ekki mín krafa og hefur aldrei verið að hv. 1. þm. Austurl. taki undir með sósíalistum á Norðurlandaráðsþingum. En það hefur nú kannski ekki verið aðalburðarásinn í andstöðunni við Evrópusambandsaðild. Hann hefur komið styrkari úr öðrum áttum sem ég hélt að væru eitthvað skyldari hugmyndum og hugsjónum hv. 1. þm. Austurl., miðflokkurinn norski, sem reisti það merki með myndugustum hætti norskra stjórnmálaflokka og skipti sköpum en það var ekki stuðning að hafa frá fulltrúum Framsfl. í Norðurlandaráði, ekki nokkurn einasta, í sambandi við það andóf sem þar var uppi og varðaði Norðurlönd öll.
    Það er alveg rétt sem formaður Framsfl. segir að það er enga formlega aukaaðild að hafa að Evrópusambandinu í þeim skilningi. En hv. þm. sótti það svo mjög að reyna að komast í nefndir og ráð í Brussel að hann fór í sérstaka ferð í júní til að hitta Bangemann til þess að reyna að fá fulltrúaaðild að nefndum sem hver maður átti að geta áttað sig á að var ekkert opið samkvæmt samþykktum Evrópusambandsins enda var hann rekinn á dyr og heim með það.
    Hann spyr um Evrópskt efnahagssvæði hvort það séu ekki allir sem bara blessi þann samning. Hvers konar samningur er samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði? Hann er um það að menn hengja sig aftan í stofnanir Evrópusambandsins og geta engum vörnum við komið í reynd, eru bara dregnir áfram og menn fá afraksturinn á færibandi inn á Alþingi Íslendinga til að stimpla. Ég er andvígur slíku kerfi.