Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

90. fundur
Fimmtudaginn 09. febrúar 1995, kl. 17:40:36 (4135)


[17:40]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla mér ekki að lengja þessa umræðu og aðeins að segja þrjár, fjórar setningar. Mig langar til að vitna í þann rithöfund sem nýlega hefur hlotið sérstaka heiðrun fyrir framlag sitt í þágu bókmennta. Það er Gunnar Dal rithöfundur. Hann segir svo um þau mál sem hér hafa verið ofarlega á baugi í viðtali við Alþýðublaðið í dag og tilvitnunin er orðrétt sisvona, með leyfi forseta:
    ,,Ég vona að Alþb. geri aldrei hreint fyrir sínum dyrum. Það er nógu mikill skítur í heiminum samt`` --- segir rithöfundurinn, virðulegi forseti.
    Sú umræða sem hefur verið hér í dag er mjög athyglisverð því að hér hafa gerst mikil tíðindi. Hér hefur það gerst að Alþb. hefur hrokkið aftur í gamla farið. Hér hefur það gerst að Alþb. í afstöðu sinni til utanríkismála og samvinnu við aðrar þjóðir hefur nú aftur einangrað sig í íslenskum stjórnmálum. Það eru mikil tíðindi.