Tilkynning um dagskrá

90. fundur
Fimmtudaginn 09. febrúar 1995, kl. 17:57:38 (4142)

[17:57]
     Halldór Ágrímsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka Íslandsdeild Norðurlandaráðs fyrir gott starf á liðnu ári. Ég tel að þar hafi ríkt mikil eindrægni og ágætis samstarf. Við höfum notið góðra starfskrafta í þessu

sambandi. Það urðu þær breytingar að Snjólaug Ólafsdóttir, sem lengi hafði unnið fyrir Íslandsdeild Norðurlandaráðs á vegum Alþingis, lét af störfum og fór til annarra starfa á vegum Norðurlandasamstarfsins og vil ég þakka henni ágæt störf. Við hennar starfi tók Elín Flygenring og hefur hún ásamt Lene Hjaltason veitt okkur fulltrúum í Íslandsdeild Norðurlandaráðs þjónustu. Ég vil taka það fram að án þessara starfskrafta væri okkur ómögulegt að gegna okkar starfi á vettvangi Norðurlandaráðs.
    Nú er mikið um það rætt að draga úr starfsemi þessara þjóðardeilda og einkum er það meðal hinna landanna. Við Íslendingar tökum lítið þátt í þeirri umræðu að því leytinu til að við teljum ómögulegt að skera meira niður því að það er ekki hægt að sinna þessu starfi með færra starfsfólki. Það má reyndar segja um Norðurlandasamstarfið almennt að það er rekið af tiltölulega mjög fáum einstaklingum, bæði á það við um þingmannasamstarfið og reyndar ráðherrasamstarfið líka og það er alveg ljóst að Íslendingar hafa mun færra fólk til þess að standa að baki sínum mönnum í þessu samstarfi. Því er oft haldið fram að oft sé um óþarfa peningaeyðslu að ræða sem ég tel alls ekki vera rétt. Til að sinna þessu starfi og ná árangri út úr því þurfa menn að mæta og taka þátt í umræðunni.
    Ég held að það sé alveg ljóst að íslenskir þingmenn leggja margir mikið á sig í þessu sambandi og eyða miklum tíma bæði í Norðurlandasamstarfið og margvíslegt annað alþjóðlegt samstarf. Þetta starf er oft á tíðum vanþakkað og lítið upp úr því lagt, t.d. í fjölmiðlum, að því sé bærilega sinnt. En Ísland á mjög mikið undir góðu alþjóðlegu samstarfi og alþjóðlegum samskiptum og því skiptir það máli að lýðræðislega kjörnir fulltrúar sinni þessu starfi bæði af hálfu ríkisstjórnar og þjóðþingsins Alþingis.
    Á sl. ári hefur Íslandsdeild Norðurlandaráðs starfað vel að mínu mati. Á árinu hafa framtíðarmálin skipað langstærstan sess í starfinu einkum vegna þess að við sem erum í þessu starfi höfum haft áhyggjur af framtíð Norðurlandaráðs og óttast að það stæði til að draga úr starfi þess og höfum talið að það mundi verða til tjóns fyrir Ísland. Við höfum því lagt áherslu á að leggja okkar af mörkum til að efla þetta samstarf og tryggja það í sessi. Við höfum haldið marga fundi og fengið ýmsa sérfróða aðila til þess að koma á okkar fundi auk þess sem við höfum átt allmarga fundi með ráðherrum og á ég þar við hæstv. forsrh., Davíð Oddsson, og hæstv. samstarfsráðherra Norðurlandamála, Sighvat Björgvinsson. Samstarf við ríkisstjórnina hefur verið gott og enginn ágreiningur verið uppi á milli þingmanna og ráðherranna, a.m.k. ekki sem orð er á gerandi. Samstarf á þessu sviði hefur ekki farið eftir pólitískum skoðunum heldur hafa menn lagt sig fram um samstarf sem fulltrúar þjóðarinnar.
    Því er hins vegar ekki að leyna að við höfum nokkrar áhyggjur af því að það er tilhneiging til að draga mjög úr því að aðilar séu fulltrúar þjóðanna og nú er lagt meira upp úr því að færa verulegt vald yfir til flokkahópanna. Ég er ekki þeirrar skoðunar að það eigi að standa algjörlega gegn því að flokkahóparnir fái meira vald en hins vegar tel ég mjög slæmt ef deildir þjóðþinganna starfa ekki áfram og verulegur hluti starfsins sé rekinn á þeirra vegum. Þetta er eitt af þeim málum sem nú er mikið rætt um og vonandi tekst að finna skynsamlega niðurstöðu þar sem þessu er blandað saman með þeim hætti sem hægt er að fallast á.
    Ég vil nefna það að við fengum Lars-Åke Engblom til að gera skýrslu á vegum Íslandsdeildar Norðurlandaráðs og skrifstofu Norðurlandaráðs í Stokkhólmi um Ísland, Norðurlöndin og Evrópu. Þessi skýrsla er prýðileg og vel unnin af hans hálfu og gefur ágætar upplýsingar um stöðu landsins í sambandi við þær breytingar sem nú eiga sér stað. Í framhaldi af þessari skýrslu efndum við til fréttamannaráðstefnu í Hveragerði þar sem komu um 40 manns. Þar voru framsögumenn stjórnmálamenn frá hinum Norðurlöndunum ásamt okkur Íslendingum. Þessi ráðstefna var mjög vel heppnuð og var í reynd fyrsta ráðstefnan sem fjallaði um framtíðarmálefni Norðurlandaráðs og skilaði ágætum árangri og umræðu í fjölmiðlum.
    Ég vil einnig geta þess að nokkuð hefur áunnist í sambandi við ýmis mál að því er varðar nærsvæðin og vil ég í því sambandi sérstaklega nefna heimskautasvæðin en sá sem hér stendur hefur gegnt formennsku í nefnd sem á að koma á samskiptum þingmanna þjóðanna í heimskautalöndunum. Þessi nefnd hefur fundað nokkrum sinnum og á síðasta fundi tókst í fyrsta skipti að koma á formlegum samskiptum við bæði Kanadamenn og Rússa og er stefnt að því að haldin verði ráðstefna um málefni heimskautasvæðanna í Kanada á þessu ári eða e.t.v. í byrjun næsta árs. Það er vaxandi áhugi fyrir þessum málaflokki innan Norðurlandaráðs og vænti ég þess að hreyfing komist á þau á næstunni, m.a. vegna þess að Kanadamenn vinna nú að því að stofna sérstakt heimskautaráð eða arktískt ráð. Þessi viðleitni Kandamanna er mikilvæg og mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að fylgjast vel með og taka fullan þátt í þessu starfi.
    Ég vil einnig geta þess að nú á sér stað mikill undirbúningur vegna þings Norðurlandaráðs í Reykjavík sem verður haldið í lok þessa mánaðar og í byrjun mars. Það fylgir mikill undirbúningur slíku þinghaldi og móttaka margra góðra gesta en á þessu þingi mun Íslendingur, hv. þm. Geir Haarde, taka við formennsku í Norðurlandaráði og það verður hlutskipti hans m.a. að taka þátt í þeim breytingum sem væntanlega verða á starfsemi Norðurlandaráðs. Ég er viss um að honum mun farnast það vel og þessu fylgir að Íslendingar geta haft meiri áhrif á þróun framtíðarmálanna. Að sjálfsögðu þurfum við að taka mið af vilja annarra í þeim málum en það fer ekki hjá því að formennska á hverjum tíma skiptir máli þegar breytingar eiga sér stað.
    Hæstv. samstarfsráðherra, Sighvatur Björgvinsson, hefur gert grein fyrir vinnunni í sameiginlegu nefndinni sem gert er ráð fyrir að skili af sér næsta mánudag á fundi í Kaupmannahöfn. Ég ætla ekki að gera grein fyrir þeim tillögum sem þar eru komnar á blað því að það gerði hæstv. ráðherra en ég vildi aðeins segja að það er ýmislegt í þessum drögum að nefndaráliti sem ekki er fullrætt og eins og það lítur út í dag þá vil ég taka fram að ég er ekkert sérstaklega bjartsýnn á að því starfi ljúki næsta mánudag. Það hefur að vísu verið tekið tillit til nokkurra mála sem við höfum ýmsir lagt áherslu á en ég tel t.d. alls ekki nægilega ljóst hverjar eigi að vera aðaláherslur í þessu samstarfi. Það stendur að það skuli fyrst og fremst vera menningar- og menntamál og síðan stendur að auk þess beri að leggja áherslu á atvinnumál og samgöngumál eða svokallaðan infrastrúktúr og einnig á umhverfismál og málefni borgaranna. Ég tel þetta ekki vera nægilega skýrt, sérstaklega að því er varðar efnahagsmál, ekki síst með tilliti til þess að á öðrum stað stendur að leggja eigi mikla áherslu á málefni vestnorðursins. Það á að gera með því að leggja áherslu á menningarmál og einnig mál sem hafi þýðingu fyrir atvinnumál þessa svæðis. Ég býst nú við því að þetta orð beri með sér að þarna sé verið að leggja áherslu m.a. á fiskveiðar en ég tel að þetta þurfi að skýra betur vegna þess að það er mikil tilhneiging að skera niður í þessu samstarfi á ýmsum sviðum og ekki síst vegna þess að Svíar hafa tilkynnt að þeir muni beita sér fyrir því að minnka norrænu fjárlögin eins og hæstv. samstarfsráðherra tók hér fram.
    Það er ýmislegt annað sem ég geri athugasemdir við í þessari skýrslu. Ég nefni t.d. tengsl okkar við Evrópusambandið og það upplýsingastreymi sem þar þarf að fara á milli. Ég tel að því séu á engan hátt gerð nægilega góð skil í þessu uppkasti. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að forsætisráðherrarnir hafa ákveðið að það komi ekki til greina að setja á stofn sérstaka skrifstofu í Brussel í þessu sambandi og auðvitað verða menn að beygja sig fyrir þeirri ákvörðun en það er mjög mikilvægt að þessi tengsl séu sem best og stöðugt upplýsingastreymi sé milli Evrópumálanna og norrænu málanna. Það er lögð mikil áhersla á það í þessari skýrslu, sem ég er sammála, að það beri að nota norrænt samstarf og Norðurlandaráð til samstarfs um Evrópumál. Það hlýtur að bera með sér að nauðsynlegt sé að upplýsingarstreymi sé eðlilegt og gott milli annars vegar Evrópumálanna og hins vegar Norðurlandamálanna þó að auðvitað blandist þetta allt saman því að Evrópumálin eru hluti af norrænum málum.
    Ég vil jafnframt taka það fram að ég er mjög ósáttur við það sem hér kemur fram um nefndaskipun og skipulag Norðurlandaráðs. Þó að það sé hlutur sem við þurfum fyrst og fremst að ræða sem erum í Norðurlandaráði, þ.e. þingmenn, þá er það atriði sem ég tel ekki vera fullrætt. T.d. er ekki gert ráð fyrir því að þar starfi alþjóðleg nefnd og samkvæmt þessu er sett upp forsætisnefnd sem er mjög stór og hefur með höndum mjög stór og mikilvæg verkefni og ég tel að allt of sé miklu hlaðið á forsætisnefndina.
    Þetta þarf að ræða betur og auðvitað er það ekki eingöngu þessi nefnd sem segir síðasta orðið í þessu samhengi. Þar mun Norðurlandaráð þurfa að taka endanlega afstöðu og alveg ljóst að flokkahóparnir þurfa að ræða þessi mál betur áður en endanleg niðurstaða getur fengist. Ég er því ekki fullviss um að endanleg niðurstaða geti fengist í nefndinni á þeim fundi sem nú hefur verið boðaður á mánudaginn en auk þess hefur verið boðaður fundur í forsætisnefnd ráðsins á fimmtudaginn í næstu viku í Kaupmannahöfn. Allt krefst þetta mikils tíma af þeim sem í þessu standa og það er ekki mjög heppilegt við þær aðstæður sem nú eru á Íslandi og í reynd ekki síður í Finnlandi en kosningar eru fram undan í báðum löndunum.
    Virðulegur forseti. Ég sé ekki ástæðu til að eyða allt of miklum tíma í upphafi til þess að gera grein fyrir skýrslunni. Hún skýrir sig að flestu leyti sjálf og ég ætla ekki að lesa upp úr henni hér til þess að spara tíma. Það eru mörg mjög mikilvæg mál á dagskrá innan Norðurlandaráðs og þar eru spennandi tímar fram undan. Það skiptir afar miklu máli að vel til takist að því er varðar þær breytingar sem nú eru fram undan. Það eru uppi mismunandi áherslur milli landa, t.d. að því er varðar völd flokkahópanna í þessu samstarfi, en að mínu mati eru flokkahóparnir ekki tilbúnir til þess í dag að yfirtaka öll þau verk sem eru nú hjá deildum þjóðþinganna sem eiga aðild að Norðurlandaráði.
    Þetta þarf að yfirfara betur og það er ekki skynsamlegt að stökkva út í breytingar sem menn sjá ekki fyrir endann á. Sannleikurinn er sá að það eru ekki uppi nein sérstök vandamál hjá Norðurlandaráði og það er ekki ástæða til einhverra gífurlegra breytinga þar. Það sem hefur gerst er það að þrjú lönd eru orðin aðilar að Evrópusambandinu og það þarf að aðlaga starfsemi Norðurlandaráðs að þessum staðreyndum. Það er líka staðreynd að tvö lönd, Ísland og Noregur, standa utan og það er mikilvægt fyrir okkur og Norðmenn að hafa sem best samstarf við hinar þjóðirnar, m.a. til þess að hafa áhrif á gang mála innan Evrópusambandsins, sérstaklega þau mál sem snerta okkur og hafa áhrif á okkar þjóðlíf.
    Þetta er í reynd verkefnið en það er rangt þegar því er haldið fram að Norðurlandaráð sé eitthvert sérstakt skrifræðisbákn sem þurfi að skera niður og það sé nánast óhugsandi að halda því samstarfi áfram í núverandi formi. Þarna hafa verið allt of ýktar lýsingar að mínu mati, þetta hefur skapað þær væntingar í samfélögunum á öllum Norðurlöndunum að það sé nauðsynlegt að fara út í einhverjar gífurlegar breytingar. Ummæli margra stjórnmálamanna sem þekkja til Norðurlandassamstarfsins hafa skapað þessar væntingar og því miður hafa margir eins og reynt að slá sér upp á því að tala heldur niðrandi um Norðurlandaráð og starfsemi þess.
    Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að það er nauðsynlegt að þetta starf hafi skilning meðal fólksins og fólkið skynji það að þetta samstarf sé til gagns. Ég vænti þess að Íslendingar skilji það betur en aðrir því að segja má að hver og einn Íslendingur taki þátt í norrænu samstarfi með ýmsum hætti. Ferðalög milli Íslands og hinna Norðurlandanna eru gífurlega mikil og samskipti íslenskra borgara mikil við bræðraþjóðirnar á hinum Norðurlöndunum. Íslenskir námsmenn sækja mjög til Norðurlandanna og ýmsir sækja þangað vinnu og mjög margir íslenskir ríkisborgarar dvelja á hinum Norðurlöndunum. Við njótum

menningarsamskipta við þessar þjóðir, við njótum samstarfs á sviði atvinnumála og fjármála, m.a. vegna stofnana sem starfa á sviði fjármála í Helsinki eins og Norræni fjárfestingabankinn, og ýmsar aðrar stofnanir sem skipta þar miklu máli.
    Allt þetta samstarf hefur haft mikla þýðingu fyrir Íslendinga í gegnum tíðina og ég tel að norræna samstarfið sé grundvallaratriði í íslenskri utanríkisstefnu og sé í reynd nauðsynlegt í þeim skilningi að Íslendingar geti verið sjálfstæð og fullvalda þjóð. Það er nánast óhugsandi að reka samfélag eins og Ísland án þess að hafa gott samstarf við grannþjóðir og það hefur reynst okkur gífurlega mikilvægt í gegnum tíðina að eiga gott samstarf við hinar Norðurlandaþjóðirnar.
    Ég er ekki í nokkrum vafa um að allir þeir sem koma að norrænu samstarfi á Íslandi vilja leggja sig fram um það að tryggja þetta samstarf til frambúðar. Spurningin er aðeins sú hversu langt okkar bræðraþjóðir vilja ganga í þessu sambandi og sýna því skilning að þetta samstarf sé nauðsynlegt í ekki mjög breyttri mynd í framtíðinni. Einkum vænti ég þess að Svíar breyti um skoðun í þessu sambandi því það var vont merki frá þeim þegar þeir tilkynntu að þeir hygðust beita sér fyrir niðurskurði á samstarfinu. Það gerðu Danir ekki þegar þeir gengu í Evrópusambandið, þeir lögðu ekkert slíkt til og hafa rækt Norðurlandasamstarfið ágætlega við hliðina á Evrópusamstarfinu og við flest höfðum þær væntingar að þetta mundi ekki breyta miklu fyrir Svíþjóð og Finnland. Því miður eru uppi slíkar hugmyndir í Svíþjóð en það er sem betur fer ekki full pólitísk samstaða um það hjá þeim en Svíar eru mjög ráðandi í þessum efnum enda greiða þeir u.þ.b. 40% af fjárlögum Norðurlandaráðs. Þessi fjárlög eru ekki mjög umfangsmikil þegar litið er til þjóðartekna þessara landa. Hér er aðeins um að ræða rúmar 700 millj. dkr. sem er mikið fé á mælikvarða okkar Íslendinga en ekki mikið fé ef litið er til allra Norðurlandanna. Ég leyfi mér að fullyrða að þessu fjármagni er almennt vel varið. Auðvitað má þar gera betur á ýmsum sviðum og það þarf að vera til stöðugrar endurskoðunar og sjálfsagt að taka þátt í því að leggja ýmislegt niður og taka annað upp í staðinn. En mér þykir ósennilegt að það sé hægt að rækta norrænt samstarf í framtíðinni af einhverjum krafti með minna fjármagni en þarna er til umráða. Og í því sambandi má benda á að ýmis verkefni eru að bætast við eins og nærsvæðasamstarfið við Eystrasalt, á Norðurslóð og nú ekki síst það samstarf sem mun koma til vegna þeirrar þróunar sem er í Evrópu og inngöngu þriggja landa inn í Evrópusambandið og einnig þeirrar staðreyndar að bæði Ísland og Noregur eru aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu og þurfa því að rækta margvíslega samvinnu við Evrópusambandið með líkum hætti og hin Norðurlöndin sem hafa gerst aðilar.
    Virðulegur forseti. Ég læt þetta duga hér í upphafi en vil endurtaka þakkir mínar til fulltrúa í Íslandsdeild Norðurlandaráðs fyrir samstarf þeirra og vinnu í sambandi við norræn málefni og jafnframt þeirra starfsmanna sem unnið hafa hörðum höndum að því að gera þetta samstarf árangursríkt.