Tilkynning um dagskrá

90. fundur
Fimmtudaginn 09. febrúar 1995, kl. 18:23:39 (4143)


[18:23]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra, samstarfsráðherra Norðurlanda, fyrir ítarlega skýrslu hans um störf Norrænu ráðherranefndarinnar svo og hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni, formanni Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, fyrir hans skýrslu um norrænt samstarf. Í áratugi hefur hið norræna samstarf verið hornsteinninn í íslenskri utanríkisstefnu og nú sem fyrr má kannski segja sem aldrei fyrr er Íslendingum brýn þörf á að rækta hið norræna samstarf og styrkja það svo sem mögulegt er. Þar ber okkur Íslendingum að leggja okkar lóð á vogarskál.
    Verulegur hluti norrænu fjárlaganna eða fast að helmingur rennur til menningar- og menntamála. Þess vegna vil ég gera þau mál að nokkru umræðuefni. Það hefur komið í minn hlut sem menntmrh. að gegna formennsku á tveimur sviðum norrænu ráðherranefndarinnar nú sl. ár, annars vegar menningarmála og hins vegar menntamála og vísinda. Hin aukna áhersla Norðurlanda á Evrópusamstarfið og aukin þátttaka þeirra í ýmsum evrópskum verkefnum hefur ýtt undir umræðu um stöðu og hlutverk norræna samstarfsins á sviði menntamála og vísinda. Til að ræða þessi mál á breiðum vettvangi hélt ráðherranefndin um menntamál og vísindi mikla ráðstefnu í lok ársins 1993 í Lundi í Svíþjóð þar sem framtíð norræna menntamála- og vísindasamstarfsins var rædd í ljósi þeirrar þróunar sem er og verður á evrópskum vettvangi í nánustu framtíð. Á fundi ráðherranefndar forsætisráðherranna undir forustu hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar þann 29. jan. sl. lýstu forsætisráðherrarnir ánægju sinni yfir því hversu vel hefur gengið að breyta áherslum norræna samstarfsins þannig að u.þ.b. helmingi norrænu fjárlaganna verði veitt til málaflokkanna menningar, rannsókna og menntunar og vænta þeir þess að því marki verði náð á árinu 1996.
    Í umræðu um fjárlagagerð Norðurlandaráðs fyrir árið 1995 greindi ég frá þeim þáttum sem Ísland vildi leggja megináherslu á. Þar er um að ræða rannsóknarverkefni um norræna samsemd, norrænt samstarf um mat á skólastarfi og málasamstarf þjóðanna. Þá lagði ég áherslu á Nordplus-styrkina, rannsóknastyrki og styrki fyrir lýðháskólanemendur, umhverfisrannsóknir, upplýsingatækni í skólum svo og menningarkennslu í skólum. Auk þessara verkefna er um ýmis önnur verkefni að ræða. Mörg þeirra hafa verið í gangi á undanförnum árum svo sem málasamstarfið og styrkjakerfin en öðrum var hleypt af stokkunum undir okkar forustu eins og ég gat um áðan. Í skýrslu samstarfsráðherra sem hér liggur fyrir er gerð grein fyrir stefnumörkun mennta- og menningarmálaráðherranna og framvindu þeirra viðfangsefna sem hún

tók til. Ég mun því ekki rekja það ítarlega en gera nokkrum þáttum örlítil skil.
    Eitt stærsta verkefnið sem ég hef lagt áherslu á í formennsku minni er að ýta úr vör miklu rannsóknarverkefni um norræna samsemd. Hugtakið norræn samsemd eða identitet er mikið notað í umræðu um norrænt samstarf og oft talið að norræn samsemd sé meginstoð í hinu öfluga norræna samstarfi. Með auknu evrópsku samstarfi sem öðru alþjóðlegu samstarfi er mikilvægt að varpa frekara ljósi hvað norræn samsemd felur í sér. Leitast verður við að varpa ljósi á hvaða þættir hafa áhrif á hana, efla hana eða draga úr henni. Sérstaklega verður hugað að því hvaða þættir hafa áhrif á samsemd norrænna unglinga. Þannig eru áhugamál unglinga könnuð, þekking þeirra og viðhorf til norræns samstarfs. Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála hefur verið falið af ráðherranefndinni að leiða þetta rannsóknarverkefni en að því koma sérfræðingar frá öllum ríkjum Norðurlandanna. Á næstu þremur árum verða veittar alls rúmar millj. dkr. í verkið af norrænu menningarfjárlögunum. Við gerum okkur vonir um að þessi rannsókn skili vitneskju sem koma megi að gagni við mótun norræns samstarfs í framtíðinni svo og þátttöku Norðurlanda í auknu evrópsku samstarfi.
    Annað verkefni sem hafið hefur verið nú að okkar frumkvæði er mat á skólastarfi. Á undanförnum árum hefur orðið breyting á stjórnun grunn- og framhaldsskóla í öllum ríkjum Norðurlanda. Ábyrgð á valdi og fjármunum hefur í ríkara mæli verið dreift til lægri stjórnsýslusviða og sjálfra stofnananna. Slík valddreifing eykur eftirlitshlutverk yfirvalda. Það er mat menntmrn. að öflugt norrænt samstarf um mat á skólastarfi muni styrkja hinar norrænu þjóðir. Vegna menningarlegrar nálægðar geta þær samnýtt sér þekkingu á þessu sviði og þróað ýmis mælitæki og matsaðferðir. Einnig geta löndið staðið saman að ýmsum úttektum á skólastarfi.
    Á árinu var 4,5 millj. dkr. varið í Nordmål-áætlunina. Á þessum árum hafa fjöldamörg námskeið verið haldin fyrir kennara, túlka og kennaranema. Einnig hafa verið gefnar út námsbækur, orðabækur og ýmis upplýsingarit. Hjá Orðabók Háskóla Íslands er nú unnið að orðabók fyrir íslensku og skandinavísku málin. Einnig kom út í ár grunnorðalisti fyrir færeysku og íslensku. Þá stendur yfir rannsókn á dönskukennslunni á Íslandi. Staða norræna skólafulltrúans í Norræna húsinu heldur áfram út árið 1995. Ný framkvæmdaáætlun um norræna málsamvinnu hefur verið undirbúin en fulltrúar frá Félagi dönskukennara og Samtökum móðurmálskennara á Íslandi eru mjög virkir í þessu samstarfi.
    Ég vil aðeins drepa á nokkra mikilvæga þætti í viðbót sem varða menntamál, rannsóknir og menningarmál í norrænu samstarfi. Ég nefni þar tölvusamskipti skóla. Í mars sl. opnuðu norrænu forsætisráðherrarnir norrænt tölvusamskiptanet fyrir skóla. Við þróun á þessu tölvuneti var í ríkum mæli stuðst við þá þekkingu og reynslu sem fengist hefur af Íslenska menntanetinu. Má með sanni segja að Íslendingar hafi verið fyrstir Norðurlandabúa til að tengja nær alla grunn- og framhaldsskóla saman í eitt tölvusamskiptanet. Hefur Íslenska menntanetið vakið mikla athygli á Norðurlöndum sem og víðar erlendis. Í norræna skólatölvusamskiptanetinu á að vera hægt að nota alla norrænu bókstafina. Þetta skilyrði var sett í upphafi og hefur tekist að leysa það tæknilega. Netið tengist alþjóðlega tölvunetinu Internet. Vonast er til að þessi tölvusamskipti verði til að örva samstarf bæði nemenda og kennara á Norðurlöndum og styrkja tengsl á milli einstaklinga og stofnana.
    Nordplus-styrkirnir á háskólastigi og á framhaldsskólastigi hafa haldið áfram á árinu. Íslenskir námsmenn hafa notið góðs af þessum styrkjum en einnig hefur talsverður fjöldi erlendra námsmanna komið til Íslands. Það er ánægjulegt að sjá að mikið jafnræði ríkir í þessum efnum en ýmsir óttuðust að straumurinn yrði meiri úr landi en til Íslands. Í heild hafa styrkirnir haft mjög jákvæð áhrif á hreyfanleika námsmanna á milli Norðurlanda. Hefur streymið frekar aukist heldur en hitt þrátt fyrir aukna möguleika námsmanna á háskólastigi að fá styrki á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
    Norræni lýðháskólastyrkurinn hefur notið mikilla vinsælda, ekki síst hjá íslenskum nemendum. Hafa miklu færri getað fengið styrk en sótt hafa um. 20 íslenskir nemendur hafa fengið styrk á sl. ári.
    Styrkirnir á vísindasviðinu sem NORFA, Nordisk Forskerutdanningsakademi, sér um að veita hafa einnig án efa aukið samstarf norrænna vísindamanna. Oft er norræna samstarfið einnig liður í öðru alþjóðlegu rannsóknarsamstarfi, m.a. á vegum rannsóknaráætlana Evrópusambandsins. Fjárveiting til stofnunarinnar var 31,4 millj. dkr.
    Verkefnaáætlun um eflingu norrænnar menningarfræðslu í skólum liggur fyrir. Nýr samstarfssamningur um norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðinn er fullbúinn til undirritunar. Framkvæmdaáætlun um menningarstarf í þágu barna og ungmenna er í undirbúningi og verður lögð fyrir þing Norðurlandaráðs í haust. Kerfi ferðastyrkja handa ungum listamönnum er komið í framkvæmd.
    Þetta eru að sjálfsögðu aðeins örfá dæmi um þau fjölbreyttu viðfangsefni sem unnið er að á vegum norrænu ráðherranefndanna á sviði menningarmála, menntamála og vísinda. Ávinningur okkar Íslendinga af þátttöku í þessu samstarfi er ótvíræður. Því ber að fagna þeirri samstöðu sem virðist vera fyrir hendi um að áfram skuli leggja rækt við samstarf norrænna þjóða á sviði menningar, menntunar og rannsókna svo sem áréttað var í stefnuyfirlýsingu frá fundi forsætisráðherra Norðurlanda í lok fyrra mánaðar eins og áður gat.