Evrópuráðsþingið 1994

90. fundur
Fimmtudaginn 09. febrúar 1995, kl. 19:05:09 (4146)


[19:05]
     Lára Margrét Ragnarsdóttir :
    Hæstv. forseti. Á undanförnum árum hefur starfsemi Evrópuráðsins tekið nokkrum stakkaskiptum. Ber þar helst að nefna starf sem tengist inngöngu nýrra ríkja, þ.e. fyrrum kommúnistaríkja Austur-Evrópu í Evrópuráðið, enda telja þessi ríki ráðið nánast vera hliðið inn í viðurkennt samfélag lýðræðisríkja Vestur-Evrópu. Það er því þeim hjartans mál að fá viðurkenningu og inngöngu.
    Eitt af helstu hlutverkum ráðsins á undanförnum árum og í næstu framtíð verður að leiða þessi ríki í þann farveg að þau verði meðvituð um framkvæmd lýðræðis og að lýðræðisleg vinnubrögð verði höfð í heiðri í þessum ríkjum. Í tengslum við inngöngu þessara nýju ríkja var fyrir nokkrum árum samþykkt svokallað halonenákvæði sem kveður á um eins konar eftirlit með því að ný ríki framfylgi lýðræði, ella eigi það á hættu að missa aðild að ráðinu. Þessi regla hefur veitt aðhald fram að þessu og hefur eflaust átt sinn þátt í þróun innan þessara ríkja og sömuleiðis stuðlað að öryggi í Evrópu.
    Eins og kunnugt er hafa fyrrum kommúnistar komist aftur til valda í ýmsum fyrrum kommúnistaríkjum og er full ástæða til að fylgjast vel með lýðræðislegum vinnubrögðum þar. Ég vil sem dæmi geta þess að talsmenn frjálslyndra flokka í Búlgaríu, nú í stjórnarandstöðu, óttast mjög skert tjáningarfrelsi og jafnvel ferðafrelsi stjórnmálamanna. Það hefur t.d. verið hætt að útvarpa frá störfum þjóðþingsins sem byrjað var á eftir fall kommúnismans.
    Á fáum árum hefur ríkjum Evrópuráðsins fjölgað gífurlega og með inngöngu Lettlands nú í vikunni eru þau orðin 34 en enn eru þó átta lönd sem bíða inngöngu enda samrýmist framkvæmd lýðræðis í þessum löndum ekki þeim reglum sem Evrópuráðið hefur sett sem skilyrði fyrir inngöngu. Skemmst er að minnast umræðu um aðild Rússlands þar sem reynt var að þrýsta á um inngöngu sl. haust en hefur nú svo sannarlega komið á daginn að það land á ekki samleið með lýðræðisríkjum Evrópu eftir þá hroðalegu atburði sem orðið hafa í Tsjetsjeníu.
    Undanfarið kjörtímabil hef ég tekið þátt í þremur fastanefndum Evrópuráðsins, félags- og heilbrigðismálanefnd, vísinda- og tækninefnd og nefnd um tengsl milli þjóðþinga og við almenning þar sem ég gegni nú formennsku. Nefndin á að stuðla að betri tengslum milli þjóðþinga aðildarlandanna og veita upplýsingar og ræða vinnureglur og lýðræðislegar hefðir þinganna og hefur starfið sérstaklega komið að gagni á sl. árum fyrir hin nýju ríki ráðsins. Nefndarmenn reyna að fylgja eftir samþykktum ráðsins með fyrirspurnum um framvindu einstakra samþykkta þess innan þjóðþinganna og enn fremur kemur nefndin með tillögur um hvernig bæta megi tengsl við almenning og upplýsingar um störf ráðsins. Ný verkefni hafa bæst við undanfarið og nefndin fjallað sérstaklega um framkvæmd lýðræðis, ekki eingöngu í nýjum aðildarríkjum heldur einnig í því sem við köllum hefðbundnum lýðræðisríkjum. Það veldur mörgum áhyggjum hversu þingmenn hafa fjarlægst umbjóðendur sína og hvernig ráða megi bót á því. Ekkert síður er það áhyggjuefni hvernig fjölmiðlar hafa iðulega beint og óbeint stýrt pólitískri atburðarás með fréttaflutningi og áherslum sínum.
    Enn fremur er nú mikið fjallað um kosti og galla upplýsingaþjóðfélagsins með tilkomu tölvutækninnar. Nefndin hefur og mun áfram gangast fyrir milliþingaráðstefnum um þessi efni þar sem ekki einungis sitja þeir þingmenn sem setu eiga í Evrópuráðinu heldur aðrir þingmenn þjóðþinga og fulltrúar ýmissa félagasamtaka.
    Evrópuráðið hefur fyrst og fremst verið þekkt fyrir störf sín að mannréttindum og hefur að mínu mati iðulega ekki notið sannmælis fyrir störf sín, þ.e. störf þess hafa verið vanmetin. Við heyrum iðulega vitnað í Mannréttindadómstólinn í Strassborg en ég hef rekið mig á að margir átta sig ekki á því að dómstóllinn, sem er sjálfstæð stofnun, er á vegum Evrópuráðsins. Reyndin er einnig að ráðið fjallar um nánast allt hið pólitíska litróf nema helst öryggismál þar sem það þó getur haft óbein áhrif eins og ég lýsti hér að framan.
    Eins og fram kemur í skýrslunni um hlutverk Evrópuráðsins þá er það að veita ráðherranefnd Evrópuráðsins ráðgjöf en sú skilgreining á hlutverki þingsins eins og segir í skýrslunni endurspeglar engan veginn það vægi sem starfsemi þingsins hefur. Samþykktar tillögur Evrópuráðsþingsins sem fara til ráðherranefndarinnar hafa iðulega verið stefnumarkandi fyrir lagasetningu í þátttökuríkjum ráðsins. Margar þeirra hafa síðan fest sem sáttmálar milli þátttökuríkja og eru slíkir sáttmálar nú um 150 talsins. Að fróðra manna sögn jafngilda þessir 150 sáttmálar 30 þúsund tvíhliða samningum. Meðal þessara sáttmála má nefna mannréttindasáttmála í Evrópu, sáttmála um lyfjasamheiti, nokkuð sem allar lyfjaverslanir í Evrópu geyma eða eiga að geyma, sáttmála um peningaþvætti og sáttmála um arfleifð í arkitektúr en í því efni var Evrópuráðið frumkvöðull í verndun menningararfs.
    Á því þingi sem stóð í sl. viku var samþykkt tillaga um sáttmála um lífsiðfræði, sem eflaust á eftir að taka einhverjum breytingum svo viðkvæmt sem málið er, en unnið hefur verið að þessari tillögu innan þingsins í um það bil áratug. Sem dæmi um samþykktir á sl. ári voru samþykktir um jafnrétti kynjanna, umhverfismálaráðstefnu Evrópu, geðlækningar og mannréttindi, stöðu mannúðarmála og þarfir flóttamanna og annarra viðkvæmra hópa í ríkjum Júgóslavíu fyrrverandi, vernd og nýting efna úr mannslíkamanum, matvæli og heilsu, menntun framúrskarandi nemenda og rétt aldraðra til velferðar og læknisþjónustu.
    Enn má nefna það frumkvöðlastarf sem Evrópuráðið vann þegar það gekkst fyrir fyrstu ráðstefnu sinni um umhverfismál árið 1970. Þá þótti ekki mörgum til þess koma. Evrópuráðið gekkst einnig fyrir fyrsta umhverfisári í Evrópu árið 1975.
    Evrópuráðið hefur á sinni könnu ýmsa sjóði, svo sem félagsmálasjóðinn, en úr þeim sjóði nutu Íslendingar góðs eftir eldgosið í Heimaey 1973. Ekki má heldur gleyma ýmiss konar samkomulagi milli þjóða sem eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta. Oftast er um að ræða svæðisbundna hagsmuni, svo sem samkomulag þeirra ríkja sem land eiga að Dóná og Rín um hreinsun ánna, en einnig er um að ræða eins konar eðlislæga hagsmuni, svo sem samkomulag ríkja um aðstoð og fjármögnun við náttúruhamfarir. Loks má nefna Evrópsku ungmennamiðstöðina sem er eins konar þjálfunarmiðstöð fyrir ungt fólk með leiðtogahæfileika. Þar er bæði tungumálakennslan og ýmiss konar önnur námskeið.
    Vegna stækkunar Evrópuráðsins undanfarin ár er í gangi endurskoðun á skipulagi þess. M.a. hefur verið rætt um að fjölga fastanefndum. Í þessum fastanefndum fer fram mikil undirbúningsvinna fyrir þær samþykktir sem þingið síðan gerir. Venjan er sú að nefndir velja svokallaðan framsögumann fyrir hvert verkefni og hefur sá aðili mikla möguleika á að hafa rík áhrif á endanlega skýrslu sem síðan er lögð fyrir þingið til samþykktar. Mín reynsla er að virk þátttaka í nefndum gefi tækifæri til mikilla áhrifa. Það er því ekki eftir litlu að slægjast fyrir íslenska þingmenn að vera virkir þátttakendur í starfi Evrópuráðsins og hafa þannig áhrif á stefnu og lagagerð í Evrópu þótt óbein séu. Með ábyrgri þátttöku eigum við einnig mun betri möguleika á að vekja athygli á Íslandi og kynna íslensk viðhorf sem hafa sérstöðu á hverjum tíma og þetta reyndum við svo sannarlega í umræðum um hvalveiðimál fyrir rúmu ári síðan sem lyktuðu okkur í hag.
    Íslandsdeild Evrópuráðsins hefur búið við fjárhagslega þröngan kost til að sinna æskilegri þátttöku í störfum ráðsins og hafa fulltrúar okkar þess vegna ekki átt kost á að sækja ýmsa nauðsynlega nefndarfundi og jafnvel ekki öll þing ráðsins. Þetta er þeim mun bagalega þar sem tekið hefur verið eftir góðu framlagi fulltrúa okkar á þeim fundum sem við höfum sótt. Þess vegna ættum við að eiga möguleika á að auka enn áhrif okkar á starfsemi Evrópuráðsins með aukinni þátttöku. Ég vil þó faga því að utanrrn. hefur viðurkennt aukið mikilvægi þátttöku okkar í Evrópuráðinu með því að opna skrifstofu í Strassborg en ég vil jafnframt leggja áherslu á nauðsyn þess enn og aftur að auka möguleika Íslandsdeildarinnar til þátttöku í starfi Evrópuráðsþingsins og opna þannig leið til aukinna áhrifa.