Fríverslunarsamtök Evrópu

90. fundur
Fimmtudaginn 09. febrúar 1995, kl. 19:15:19 (4147)


[19:15]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég hygg að þessi þingdagur hafi verið einn hinn undarlegasti sem ég minnist í 16 ára þingsetu minni. Hér hafa verið til umræðu hvorki meira né minna en utanríkismál. Allur þorri dagsins hefur farið í að ræða fáránlegar hviksögur sem hvergi er hægt að finna stað en þegar kemur að því að ræða um utanríkismál þá nennir enginn að vera hér og hér er enginn í salnum nema hæstv. forseti og ég. Hér eru á dagskrá málefni eins og málefni Vesturnorræna þingmannaráðsins, samþykktir Vestnorræna þingmannaráðsins, Alþjóðaþingmannasambandið, skýrsla, Norður-Atlantshafsbandalagið, skýrsla, Ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu afgreidd hér án umræðu. Og ég spyr, hæstv. forseti: Hvers konar þjóðþing er þetta? Er þetta sú virðing sem við berum fyrir samstarfi við aðrar þjóðir? Ég veit ekki hvar þetta kjörtímabil ætlar að enda og þess vegna ber að fagna því að hv. 13. þm. Reykv., Lára Margrét Ragnarsdóttir, sá þó ástæðu til þess að ræða störf sín innan Evrópuráðsins.
    Þar sem enginn þeirra sem sitja í þingmannanefnd EFTA er hér staddur nema ég þá get ég ekki látið þessa umræðu fara svo fram að enginn sjái ástæðu til þess að ræða starfsemi EFTA. Ég vil þó taka fram að hv. 5. þm. Norðurl. v., Vilhjálmur Egilsson, er raunar staddur erlendis á vegum þingmannanefndarinnar, svo og hv. 1. þm. Norðurl. v., Páll Pétursson.
    Þó að það þjóni nú kannski ekki miklum tilgangi nema til þess að það verði skráð í þingtíðindi þá ætla ég að segja örfá orð um það starf sem ég hef orðið vitni að síðan ég tók setu í þessari ágætu nefnd. Allt þetta kjörtímabil hefur einkennst afar mikið af óvissunni sem ríkti um framtíð EFTA. Við biðum fyrstu tvö árin eftir því hvernig mál þróuðust í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi og eins og allir vita samþykktu Finnar og Svíar að gerast aðilar að Evrópusambandinu en ýmsum að óvörum urðu Norðmenn eftir í EFTA. Þegar það varð ljóst breyttist allt viðhorf manna til EFTA. Það er alveg ljóst að starfsemi þess verður að halda áfram. Fyrir þá sem ekki vita skal upplýst að Kjartan Jóhannsson er framkvæmdastjóri EFTA þannig að það er ævinlega þægilegt, eins og hv. 13. þm. Reykv. minntist á áðan, að hafa íslenska embættismenn á æðstu stöðum og gerir nefndunum að mörgu leyti auðveldara fyrir. En það óöryggi sem ríkt hefur hefur auðvitað orðið til þess að þingmenn EFTA-ríkjanna hafa verið að leita leiða um sína eigin framtíð og hafa að mínu viti ofurlítið vandræðalega beint sjónum sínum mjög til Austur-Evrópu, þeirra ríkja sem hafa verið svo mjög á dagskrá í dag.
    Nú er það auðvitað ljóst að mörg þeirra ríkja eru ekkert komin á það stig að auðvelt sé að taka þau inn í Fríverslunarbandalagið þannig að allt hefur það nú verið svona heldur vandræðalegt og mörg málþing verið haldin um málið og ég get ekki neitað því að mér hefur fundist heldur lítið koma út úr þeim. En þessi sérkennilega staða að EFTA-ríkin eru nú einungis Ísland, Noregur, Sviss og Liechtenstein setur okkur auðvitað í mjög sérkennilega stöðu, ekki síst þar sem Sviss er síðan ekki aðili að Evrópska efnahagssvæðinu þannig að það einfaldar ekki starfsemina. Sem dæmi um vandræðaganginn var samstarfsnefnd Evrópuþingsins, Efnahagssambandsins og Fríverslunarbandalagsins samansett af 66 þingmönnum, 33 frá hvorum og fór það að sjálfsögðu eftir mannfjölda viðkomandi þjóða. Þegar þessi litlu og fámennu lönd urðu eftir þótti ýmsum eðlilegt að fækka fulltrúum í samstarfsnefndinni en þá kom það babb í bátinn að þá hefði orðið að fara að taka upp allan samninginn og enginn þorði að hrófla við honum þegar svo var komið. Nefndin er því enn þá skipuð 66 þingmönnum í orði án þess að hún sé það á borði. Og satt að segja stórefast ég um þó ég viti það ekki nákvæmlega að þau lönd sem eru með okkur í Fríverslunarbandalaginu hafi virkilega fyllt upp í tölu þingmanna í þessari ágætu nefnd. Alla vega held ég að menn hittist nú eins og verið hefur og sýnir það hvað þetta er allt saman veikt.
    Þrátt fyrir það höfum við þingmennirnir, sú sem hér stendur, hv. þm. Gísli S. Einarsson, 4. þm. Vesturl., hv. 4. þm. Reykv., Eyjólfur Konráð Jónsson. Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hætti að sjálfsögðu þegar hún gerðist borgarstjóri og við tók Anna Ólafsdóttir Björnsson. Í millitíðinni gegndi hv. þm. Guðrún J. Halldórsdóttir þessu verki. Þá eru í nefndinni hv. 1 þm. Norðurl. v., Páll Pétursson, og formaður okkar hefur allan tímann verið hv. 5. þm. Norðurl. v., Vilhjálmur Egilsson. Samstarf í nefndinni hefur verið með mestu ágætum og ekki hef ég neitt út á störf hv. formanns að setja. Hann hefur sinnt þessu starfi af stökustu prýði.
    Ef ég ætti að upplýsa hv. þm., sem eru farsællega fjarverandi, um hvað við höfum í raun og veru verið að gera er svo sem ekkert af óskaplega miklu að státa, en þó höfum við dálítið skipt okkur af umhverfismálum. Íslandsdeildin tók upp umræður um mengun hafsins af völdum kjarnorkuúrgangs frá kjarnorkuendurvinnslustöðvum innan vinnuhóps þingmannanefndar um umhverfismál. Þegar við settum þá fyrirspurn fram óskuðu Norðmenn eftir að vera með okkur í þeirri fyrirspurn og okkur þótti nokkur sómi að því en við erum enn að bíða eftir svari því að allur ferill slíkra mála er harla hæggengur að mínu mati í þessari ágætu stofnun enda hefur verið unnið að því að einfalda þann feril.
    Ég hef átt sæti í fjárhagsnefnd EFTA og þar var auðvitað uppi mjög mikill vandi vegna þess að það er ekkert smámál að snúa niður svo viðamikla starfsemi þegar tvö stórríki hafa horfið úr EFTA. Auðvitað varð að taka upp alla fjárlagagerð og það var rætt um framtíð EFTA og EES á mörgum fundum. Á þessum fundum kom fram að aðildarríki EFTA hefðu gefið fyrirmæli um að starfsfólk yrði einungis ráðið út júní. Þetta olli auðvitað mörgum starfsmönnum miklum erfiðleikum og grun hef ég um að ekki hafi sérstaklega vel verið farið með alla, einkum þá sem lengst hafa unnið. Jafnframt hafa tæki fyrir stofnanir EFTA náttúrlega verið tekin á leigu og þessu þurfti öllu að skila. Ákveðið var að aðildarríki EFTA veittu ríkjum svigrúm varðandi fjárhagsskuldbindingar en þau ríki sem gengu í ESB 1. jan. 1995 mundu virða fjárhagsskuldbindingar við EFTA í sex mánuði eftir að þau væru komin í ESB. Jafnframt þurfti að ákveða hvaða mál yrðu tekin fyrir í dómstólnum og þar var miðað við að það yrði líka tímabundið. Síðan þurfti að breyta stórlega húsaleigu fyrir hús sem tekin höfðu verið til leigu fyrir lengri tíma og við þá samninga verður auðvitað að standa og greiða þá húsaleigu þangað til þeir eru runnir út. Þetta hefur því allt saman mótast af miklu róti og satt að segja verið afar erfitt að ganga til verka eins og við værum að vinna að einhverju sem við vissum að ætti framtíð. Ég skal játa hreinskilnislega að mér hefur oft og tíðum fundist starf mitt í þessari nefnd innihaldsminna en ég á að venjast þar sem ég sit í nefndum. Vegna þess að rætt var um norræna samvinnu áðan er því ekki saman að jafna hvað mér fannst ég gera meira gagn þau sex ár sem ég sat í Norðurlandaráði en þau fjögur sem ég hef setið í EFTA-nefndinni. En um það er ekki við okkur að sakast. Við áttum ekki marga kosti á því að láta mikið til okkar taka.
    Við höfum rætt um hvort búið væri að gera ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir að vandamál tengd viðskiptum með fisk, sem komu upp í Frakklandi, gætu komið aftur upp á næsta ári. Við fengum þau svör að framkvæmdastjóri Evrópusambandsins hefði fullvissað samstarfsaðila sína innan EES um að allt yrði gert til að forðast að slík vandamál kæmu upp aftur. Hins vegar var auðvitað bent á að þó að allt yrði gert til að forðast slíkt væri aldrei fulltryggt og hægt að lofa því fyrir fram og var þá vitnað til þess að Evrópusambandið hefði engan her til að ganga eftir slíkum málum og ekki get ég annað en þakkað fyrir að svo er ekki.
    Við höfum auðvitað á hverjum fundi auglýst eftir svari við fyrirspurn okkar um kjarnorkuúrganginn en svarið hefur ekki komið enn.

    Ég skal, hæstv. forseti, ekki vera að teygja umræðuna. Ég á ekki von á að fleiri taki til máls þar sem hér virðast allar horfnir af vettvangi eftir að hætt var að ræða umfangsmikla njósnastarfsemi þeirra hv. þm. flokksfélaga minna og verð ég nú að dást að því hve lítið hefur fyrir þessu farið innan flokksins en dagurinn fór þó að mestu í það.
    Rétt að síðustu varð svo dálítil umræða um hvar stofnanir EFTA ættu að vera eftir að þessi tvö ríki voru gengin úr Fríverslunarbandalaginu og Svisslendingar lögðu á það mikla áherslu að höfuðstöðvar EFTA yrðu áfram í Genf þó að hluti starfseminnar yrði að vísu í Brussel. Á fundi með hæstv. utanrrh. Jóni Baldvini Hannibalssyni var upplýst að EFTA-dómstóllinn flyttist til Lúxemborgar. Við það gerðum við athugasemd og hv. 1 þm. Norðurl. v., Páll Pétursson, spurði um þetta mál og lagði áherslu á að EFTA-stofnanir yrðu staðsettar í EFTA-ríkjum en ég á ekki von á að að þeim athugasemdum verði farið og sennilega verður það svo að dómstóllinn mun sitja í Lúxemborg eftir því sem ég best veit.
    Rétt að lokum. Einhvern veginn hef ég haft það á tilfinningunni að Evrópuþingið sé í vanda. Ég held að það hafi verið svo um langt skeið að þeim þingmönnum sem eru allmargir, mörg hundruð manns, finnist völd sín og áhrif of lítil og menn hafa talað um að annaðhvort þurfi að styrkja Evrópuþingið eða fækka þingmönnum þess og veita þá meiri völdum til hinna ýmsu þjóðþinga. Á þessu geta orðið allar þær breytingar sem hugsanlegar eru og erfitt að sjá fyrir sér framtíð þessara mála. Það var auðvitað alveg ljóst að þegar Jacques Delors yfirgaf samkvæmið urðu töluverðar breytingar því hann hefur eins og kunnugt er að vissu leyti verið höfundur Evrópska efnahagssvæðisins og Evrópuhugsjónarinnar. Það er auðvitað ágreiningur í Frakklandi um framtíð þessara mála og það er alveg ljóst að Balladur er ekki sami áhugamaðurinn um Evrópusambandið og Jacques Delors og nú hefur hann eins og kunnugt er dregið sig út sem forsetaefni í Frakklandi og menn hafa haft á orði að þar hafi Helmut Kohl misst góðan bandamann. Hvernig sem þessu öllu víkur við og hvernig þetta reynist allt í framtíðinni er auðvitað erfitt að segja. Ég held að við eigum ekki marga kosti aðra en að vinna innan Fríverslunarbandalagsins og Alþingi hefur samþykkt samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og við alþýðubandalagsmenn erum vön því að horfast í augu við staðreyndir þannig að við reynum auðvitað að gegna hlutverki okkar þar úr því sem komið er þó að við eigum mörg erfitt með að sjá hvert gagn við höfum haft af því. Ekki eru áhyggjur mínar minni þegar við horfumst í augu við að norrænt samstarf virðist vera að molna niður og allt það sem við höfum stært okkur af um áratuga skeið, svo sem vegabréfsleysi milli landanna og norræna samninginn um félagslegt öryggi. Að mínu mati þurfum við að gæta okkar mjög vel því að ég á eftir að sjá að við höfum meiri hag af Evrópska efnahagssvæðinu en við höfum haft af norrænu samstarfi. En við eigum auðvitað að gera okkar besta á hverjum þeim vettvangi sem við erum sett á og þess vegna þótti mér ekki við hæfi að enginn væri hér til þess að ræða þessi mál og upplýsa þá hv. þm. sem kynnu að renna augum yfir þingtíðindi ef ekki vill betur.
    Þá hef ég lokið máli mínu, hæstv. forseti.