Öryggi í samgöngumálum Vestfjarða

91. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 15:43:17 (4166)


[15:43]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég undirstrika að þetta mál er í tillöguformi lagt fyrir þingmannahóp Vestfirðinga af fulltrúa Vegagerðarinnar fyrir hönd ráðherra og við höfum þessar tillögur til meðferðar. Enn fremur hefur tillagan verið kynnt í samgn. sem hefur hana líka til meðferðar. Þingmenn Vestfjarðakjördæmis hafa ekki komið saman á nýjan leik í sinn hóp til að gera út um það hver niðurstaða þeirra verður í þessum málum. Ég tel því algerlega ótímabært að einstakir þingmenn úr þessum hópi séu að rjúka í fjölmiðla með skoðanir sem byggjast á þeirri fyrir fram gefnu afstöðu að þingmannahópurinn nái ekki sameiginlegri niðurstöðu um lyktir málsins. Þetta vildi ég undirstrika og ítreka að ég tel þessa umræðu vera á villigötum vegna einmitt þess hvernig málið stendur.
    Ég vil hins vegar segja almennt um málið að ég er þeirrar skoðunar að Vestfirðingar eigi að tryggja samgöngur sínar við aðra landshluta eftir vegum. Það er sú leið sem dugar best og það er sú leið sem fólk vill helst nýta sér. Góður vegur frá Ísafirði um Djúpið, sem tengir okkur við aðra hluta landsins, kostar minna en t.d. Herjólfur sem tengir Vestmannaeyjar við landið. Þó að þetta séu auðvitað töluvert háar tölur getum við ekki sagt að hér sé um að ræða slíkar tölur að menn eigi að hrökkva frá því að ráðast í þetta verkefni.
    Ég vil svo að lokum, virðulegi forseti, láta það koma fram að mér finnst að þingmenn Vestfirðinga eigi að tala mjög gætilega þeir þeir úthrópa vegi Vestfjarðakjördæmis og draga upp og ámálga þá hættu sem þeir telja vegfarendum um þá vegi búin. Ég tel að tveir hv. þm. hafi gengið allt of langt í þessum efnum á undanförnum tveimur dögum að rægja vegakerfið á Vestfjörðum.