Öryggi í samgöngumálum Vestfjarða

91. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 15:48:03 (4168)


[15:48]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég tel það mjög þarft að taka þetta mál upp hér á Alþingi eins mikil og umræðan hefur verið í fjölmiðlum og kannski ekki öllum stundum svo málefnaleg. Það sem mér finnst fyrst og fremst að við berum ábyrgð á hér allir þingmenn, ekki bara þingmenn Vestfjarðakjördæmis, er það að sú ákvörðun sem verður tekin hver svo sem hún verður taki fyrst og fremst tillit til öryggissjónarmiða og einnig að tekin séu inn þau rök sem við höfum núna varðandi þá tímaáætlun sem búast má við að uppbygging Djúpvegarins fari eftir. Þar erum við að tala um allmörg ár sem eru meira og minna í óvissu. Þetta er að vísu afskaplega þörf framkvæmd á þeim tíma sem hún verður tekin fyrir en það er ljóst að þetta er ekki eitthvað sem menn hrista fram úr erminni. Þess vegna tel ég að það verði að taka inn ekki bara annaðhvort eða heldur það sjónarmið að hafa möguleika á því að reka líka góðar ferjur. Við höfum nýlegt dæmi um það að vegur hversu góður sem hann er getur lokast um nokkurn tíma. Þetta er ástand sem við búum við víða á landinu og við verðum að fara að læra að búa með því landi sem við tilheyrum.