Hringamyndun og samþjöppun valds í íslenskri fjölmiðlun

91. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 16:06:10 (4175)


[16:06]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Ég vil fyrst segja að það hefði e.t.v. verið réttara fyrir hv. þm. að beina þessari fyrirspurn til hæstv. viðskrh. en ég hef í sjálfu sér ekkert á móti því að svara.
    Fyrst vil ég segja það að þótt íslenska útvarpsfélagið kaupi stóran hlut í Frjálsri fjölmiðlun hf. þá held ég að það út af fyrir sig gefi varla tilefni til að setja reglur um samruna fyrirtækja á sviði fjölmiðlunar en það má kannski segja að annað væri uppi á teningnum ef meiri hluti hefði verið keyptur. En í þessu sambandi sýnist mér rétt að líta sérstaklega til ákvæða samkeppnislaga. Eins og kunnugt er gilda ekki sérstök lög um samruna fyrirtækja á sviði fjölmiðlunar hér á landi. Um það efni gilda samkeppnislögin sem hafa það að markmiði að efla virka samkeppni í viðskiptum og þar með að vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins. Í lögunum er kveðið á um m.a. að markmiðinu skuli náð með því að vinna gegn óréttmætum viðskiptaháttum, skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum og auðvelda aðgang nýrra keppinauta að markaðnum.
    18. gr. laganna er ætlað að sporna gegn hringamyndun í samruna fyrirtækja. Telji samkeppnisráð að samruni fyrirtækja eða yfirtaka fyrirtækis á öðru fyrirtæki leiði til markaðsyfirráða þess eða dragi verulega úr samkeppni getur ráðið ógilt samruna eða yfirtöku sem þegar hefur átt sér stað. Lög þessi eru almenn og taka til hvers konar atvinnustarfsemi, svo sem framleiðslu, verslunar og þjónustu án tillits til þess hvort hún er rekin af einstaklingum, félögum, opinberum aðilum eða öðrum. Það gilda engin sérlög um fjölmiðla í þessu sambandi og því fellur starfsemi þeirra undir samkeppnislögin. Samkeppnisráð hefur hingað til túlkað lögin þröngt varðandi inngrip í samruna fyrirtækja. Mikið hefur þurft til að koma til að gripið verði inn í starfsemi fyrirtækja.
    Í þessu umrædda tilviki hefur Íslenska útvarpsfélagið hf. keypt 35% hlut í Frjálsri fjölmiðlun hf. og er því rúmlega þriðjungur síðarnefnda fyrirtækisins nú í eigu þess. Hingað til hefur Samkeppnisstofnun ekki talið ástæðu til þess að aðhafast þegar um slíka eignatilfærslu í fyrirtækjum er að ræða. Það er svo aftur annað mál að víða í nágrannalöndum okkar hefur þótt ástæða til að fjalla um samruna fjölmiðlafyrirtækja, sérstaklega í lögum, m.a. með tilliti til þess að fákeppni á þessu sviði kann að hefta frjálsa skoðanamyndun. Lagaúrræði þessi miða að því að takmarka möguleika á að ná yfirráðum eigna eða fjármuna í fjölmiðlafyrirtækjum. Þetta er gert m.a. með því í fyrsta lagi að takmarka eign í fleiri en einum fjölmiðli á sama sviði, í öðru lagi með því að takmarka möguleika á því að eiga fleiri en einn fjölmiðil á mismunandi sviðum fjölmiðlunar og í þriðja lagi með því að setja skorður við hámarki eignarhlutar í ljósvakafjölmiðli, t.d. með því að draga úr möguleikum meiri hlutans til áhrifa um leið og stuðla að fjölbreytni hluthafa. Úrræðin felast annars vegar í setningu reglna um tiltekin skilyrði eða sérstakri heimild til viðkomandi stjórnvalds til frjáls mats.
    Ég hef ekki tíma til að rekja ákvæði í löggjöf ýmissa nágrannalanda okkar en víðast hvar á Norðurlöndum hafa verið sett ákvæði eða slíkt er í athugun. Ég vil benda á að árið 1992 fól ég útvarpslaganefnd að fjalla sérstaklega um það hvaða kröfur beri að gera um eignaraðild einkarekinna ljósvakamiðla, sérstaklega með tilliti til samþjöppunar eignarhalds á þessu sviði. Niðurstaða nefndarinnar varð sú að ekki væri rétt að setja önnur og strangari skilyrði um eignaraðild einkarekinna ljósvakamiðla en gilda um aðra fjölmiðla eða atvinnufyrirtæki almennt á grundvelli samkeppnislaga. Það er þó mitt mat að við verðum að skoða þessi mál í víðara samhengi og fylgjast vel með þróuninni, m.a. þeirri sem á sér stað innan Evrópusambandsins og snertir okkur vegna aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu. Ég vil ekki útiloka þann

möguleika að lögfesta sérlög um samruna fjölmiðla hér á landi.
    Þetta verður að duga sem svar mitt við spurningum hv. þm. Hann gerði nokkuð mál úr því að sjálfstæðismenn væru nokkuð fyrirferðarmiklir sem eignaraðilar að stórum fjölmiðlum hér á landi. Það má vel vera og ég vona satt að segja að svo sé en ég kannast ekki við að Sjálfstfl. sem slíkur sé tekinn einhverjum sérstökum silkihönskum af þessum stóru fjölmiðlum. Það kannast ég ekki við. Auk þess reikna ég ekki með að eignaraðilarnir ráði ritstjórnarstefnunni en það má vel vera að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson telji að svo sé. Ég held að slíkt þekkist ekki lengur nema á hreinum flokksblöðum sem eru ekki mörg eftir. Ef ég man rétt þá eru það Alþýðublaðið, Tíminn og Vikublaðið.