Hringamyndun og samþjöppun valds í íslenskri fjölmiðlun

91. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 16:11:27 (4176)


[16:11]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Það hefur verið þannig í íslenskri fjölmiðlun og er nú orðið svo að þrír stórir aðilar eru í fjölmiðlum á Íslandi. Það er Íslenska sjónvarpsfélagið og Frjáls fjölmiðlun, það er Morgunblaðið og það er Ríkisútvarpið. Ég hef í sjálfu sér engar áhyggjur af því að samkeppni sé ekki fullnægt meðan menn hafa þá stefnu að reka hér ríkisútvarp og ef menn standa almennilega að því. Ég tel að blöðin verði að hafa samkeppnisstöðu. Morgunblaðið hefur nýlega farið inn á það að fara út í svokallaða rafræna fjölmiðlun og það er ekki ástæða til að hefta að fleiri blöð fari inn á þann vettvang. Ég hef kynni af Frjálsri fjölmiðlun eins og þingheimur veit í gegnum það að Frjáls fjölmiðlun hefur gefið út Tímann samkvæmt sérstökum samningi. Það samstarf hefur gengið ágætlega og við höfum haft algerlega frjálsar hendur á Tímanum í okkar ritstjórnarstefnu. Menn mega ekki gleyma því að blaðamenn vinna samkvæmt sérstökum siðareglum og það er ekki hægt orðið nú til dags að segja blaðamannastéttinni fyrir verkum á Íslandi.
    Að öðru leyti vil ég ekki tjá mig um þetta mál frekar. Ég tel enga hættu að samkeppni sé ekki nóg á Íslandi eins og er í þessum málum, en nota bene, menn verða að standa að því að reka Ríkisútvarpið vel og fólk eigi aðgang að því þannig að það sé þriðji aðilinn í þessari mynd. Ég er hissa á því ef hv. 8. þm. Reykn. hefur áhyggjur af því að það komi stærri aðili en Morgunblaðið á fjölmiðlamarkaðinn.