Hringamyndun og samþjöppun valds í íslenskri fjölmiðlun

91. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 16:16:54 (4178)


[16:16]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Aldrei þessu vant er ég sammála fulltrúa Alþfl. í þessum umræðum. Þar er fyrst að nefna eins og hefur komið fram að í lýðræðisríkjum er talað um fjölmiðlana sem fjórða valdið í samfélaginu sem hefur það hlutverk að veita stjórnvöldum aðhald og upplýsa almenning. Við höfum reynslu af því frá ýmsum ríkjum og ýmsum skeiðum sögunnar hve hættulegt það er að stjórnvöld eða einstakir aðilar ráði öllu í fjölmiðlum og hafi þannig einhliða áhrif á alla skoðanamyndun.
    Á undanförnum áratugum hafa orðið miklar breytingar á íslenskum fjölmiðlamarkaði með fækkun dagblaða og fjölgun útvarps- og sjónvarpsstöðva en það er ekki þar með sagt að sú þróun hafi orðið umræðunni í vil. Að mínum dómi er fjölmiðlaflóran um margt fátæklegri og einlitari en hún áður var og því miður þá sinnir hún heldur illa þeirri skyldu sinni að upplýsa og veita aðhald, hvað þá að stunda vönduð vinnubrögð.
    Nú hefur það gerst að mjög sterk tengsl hafa myndast milli annars dagblaðarisans í landinu og þeirra sem reka aðra sjónvarpsstöðina, þ.e. Stöð 2. Eins og hefur komið fram eru víða í gildi lög sem takmarka eignatengsl af þessu tagi og hafa Bandaríkin verið nefnd þar til sögunnar og lögin eru fyrst og fremst til þess sett að tryggja lýðræðislega umræðu í samfélaginu.
    Í framhaldi af þessum tíðindum sem okkur hafa borist vil ég taka undir að það er fyllilega ástæða til þess að skoða eignarhald og hagsmunatengsl á íslenskum fjölmiðlum og að kanna hvort sú samþjöppun sem hér hefur orðið stenst samkeppnislögin. Í framhaldi af slíkri könnun þarf að meta hvort ástæða er til þess að setja lög hér á landi sem takmarka gagnkvæma eign á blöðum og sjónvarpsstöðvum.
    En fyrst og fremst, virðulegi forseti, eigum við svar við þessari þróun og það er að styðja og styrkja Ríkisútvarpið sem er fjölmiðill allra landsmanna og eign allra landsmanna og það getur verið það mótvægi sem við þurfum til þess að halda uppi málefnalegri, menningarlegri og lýðræðislegri umræðu í landinu.