Hringamyndun og samþjöppun valds í íslenskri fjölmiðlun

91. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 16:28:11 (4183)


[16:28]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það hefur komið í ljós í þessari umræðu að hún er þörf. Í fyrsta lagi liggur fyrir sem yfirlýsing frá hæstv. menntmrh. að hann telur að það komi til greina, eins og hann orðaði það, að sett verði sérlög til að tryggja tjáningarfrelsi í landinu. Í öðru lagi hefur komið fram hjá hv. þm. Tómasi Inga Olrich að hann telur eðlilegt að þessi mál verði rædd miklu rækilegar hér m.a. þegar sett verður á dagskrá frv. til útvarpslaga sem sagt er að liggi einhvers staðar í skúffum menntmrh. eða jafnvel í skúffum Alþingis, ég átta mig ekki alveg á því. Þannig að það er greinilegt að það er vilji til þess að taka á málinu í þessari stofnun með svipuðum hætti og hv. 8. þm. Reykn., málshefjandi í dag, gerði grein fyrir málinu og það er mjög mikilsverður árangur. Mikilsverður árangur andspænis þeim tíðindum sem hafa birst af þessu nýja fjölmiðlatrölli sem er að verða til í landinu með ljósvakamiðla, með prentmiðla, með gagnabanka og með margmiðlun af ýmsu tagi. Þannig að það er augljóst að Alþingi Íslendinga mun ekki sitja hjá í þessari þróun heldur taka á henni á tiltölulega skýran hátt og vonandi á þessu þingi af því að fyrir þinginu liggur fyrir frv. um að breyta stjórnarskránni og tryggja þar tjáningarfrelsi og mannréttindi. Það er nauðsynlegt einmitt út af fjölmiðlatröllinu sem er að verða til að á þessum málum verði tekið í stjórnarskránni líka og Alþingi láti málið til sín taka þegar á þeim vikum sem í hönd fara þar til því lýkur.
    Að lokum, hæstv. forseti, hafi menn þurft að efast um það hvaða áhrif svona fjölmiðlatröll og það að vera í vinnu hjá þeim eða nálægt þeim hefur á einstaklinga þurftu menn ekki annað en að hlusta á þann góða vin okkar allra hér, hv. 2. þm. Austurl. áðan, ritstjóra Tímans, sem er sannarlega kominn í bland við tröllin og við skulum sameinast um að gera allt sem við getum til að frelsa þann góða mann úr þeim klóm.