Hringamyndun og samþjöppun valds í íslenskri fjölmiðlun

91. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 16:35:38 (4186)


[16:35]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Það er rétt að ég sagði að ég vildi ekki útiloka þann möguleika að setja sérlög um samruna fjölmiðla hér á landi, en ég vil undirstrika það að ég tel þetta sem hér hefur gerst ekki endilega kalla á slíkt. Menn geta deilt um orð. Hér er auðvitað ekki um beinan samruna fyrirtækja að ræða þótt þarna sé um 35% kaup að ræða.
    Ég nefndi að löggjöf hefði verið sett í öðrum löndum sem við viljum gjarnan bera okkur saman við. Á Norðurlöndum hafa Danir t.d. sett ákvæði í löggjöf um að skilyrði þess að fá heimild til þess að reka staðbundið sjónvarp sé að umsækjandi reki einvörðungu slíkt fyrirtæki. Í Svíþjóð hefur ríkisstjórnin nýverið ákveðið að stofna sérstaka nefnd sem á að gera úttekt á fákeppni eða samþjöppun eignarhalds á sviði fjölmiðlunar þar í landi og undirbúa lagasetningu ef þörf krefur. Ég ítreka það að mér finnst sjálfsagt að þetta sé kannað hér hjá okkur.
    Það sem mér fannst kannski koma einna merkilegast fram í ræðum manna hér var þessi oftrú á ríkisrekna fjölmiðla. Það kom bæði fram hjá hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur sem sagði að svar við þessari þróun væri að styðja og styrkja Ríkisútvarpið og svo kom þessi stórkostlega hugmynd hjá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur að koma hér á laggirnar ríkisblaði þar sem öll sjónarmið eiga að fá inni, eins og hv. þm. sagði. Hugsið þið ykkur nú þegar búið verður að kjósa pólitískri kosningu á Alþingi ritstjórnina og væntanlega velja ritstjórann líka, það verður nú aldeilis að það megi treysta því að öll sjónarmið fái inni. En við erum væntanlega búin að fá þá hér upp á borðið stefnu Alþb. í þessum efnum og það er auðvitað afskaplega verðmætt að fá það út úr þessari umræðu. ( SvG: Þú gefur nú út Lögbirtingablaðið á hverjum degi.)