Fræðsla um bókhald og fjárreiður ríkisstofnana

92. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 16:44:06 (4190)

[16:44]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Sem svar við þessari fyrirspurn vil ég láta koma fram eftirfarandi:
    Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um ríkisreikning fyrir árið 1993 er fjöldi ábendinga og athugasemda við mörg atriði er lúta að rekstri ríkisins og fjárreiðum þess eins og hv. þm. benti á og er að finna m.a. á bls. 34 og 35 í viðkomandi skýrslu. Sú hefur verið venjan að fjmrh. hefur undanfarin ár átt fund með yfirskoðunarmönnum og ríkisendurskoðanda til þess að fara yfir helstu ábendingar og ræða leiðir til úrbóta. Þess konar fundur er áformaður vegna ríkisreiknings 1993 en fundurinn hefur enn ekki verið tímasettur. Skýrsla Ríkisendurskoðunar fyrir ársreikninginn 1993 er meiri að efni ef nokkuð er en skýrslur fyrri ára og jafnframt er augljóst að meira jafnvægis gætir í athugasemdum og ábendingum stofnunarinnar en oft áður.
    Athugasemdirnar eru einkum af tvennum toga og má skipta þess vegna í tvennt. Það eru annars vegar almennar athugasemdir sem taka til meðferðar opinbera fjármuni, reglur og framkvæmdir á bókhaldi og ráðstöfun fjármunanna og hins vegar athugasemdir við einstakar stofnanir og starfshætti þeirra. Skýrslan gefur að sjálfsögðu tilefni til athugasemda, m.a. athugasemda af minni hálfu við nokkur atriði sem koma fram í henni og ég tel að það geti verið um leið svar til hv. fyrirspyrjanda.
    Í fyrsta lagi er rétt að rifja upp að um árabil hefur verið leitast við að halda uppi margs konar fræðslu fyrir ríkisstarfsmenn á sviði bókhalds, launa og fjárlagagerðar. Um miðjan síðasta áratug efndi fjmrn., þáverandi Fjárlaga- og hagsýslustofnun, til allumsvifamikillar fræðslu undir nafninu Stjórnsýslufræðsla ríkisins, gagngert til að auka upplýsingagjöf og fræðslu um m.a. bókhald og fjárreiður ríkisins. Þessi starfsemi er enn við lýði og er nú rekin í tengslum við endurmenntunarstarf Háskóla Íslands. Jafnframt hefur ríkisbókhaldið lagt mikið af mörkum til þess að festa í sessi og fræða um bókhalds- og áætlunarkerfi ríkisins, svokallað BÁR. Þá má ekki gleyma því að fjmrn. hefur átt fundi með ráðuneytum og stofnunum ríkisins um ýmsar þær nýjungar sem hleypt hefur verið af stokkunum í gerð fjárlaga og í reikningshaldi.
    Í annan stað vil ég ekki láta hjá líða að fara nokkrum orðum um þær margháttuðu breytingar sem átt hafa sér stað í gerð fjárlaga og ríkisreiknings. Þessar breytingar hafa haft umtalsverð áhrif á starfsemi

ríkisins og ríkisstofnana og hefur breytingunni almennt verið vel tekið. Sumum kann að virðast að aukið frelsi til fjárráðstöfunar og meðferð opinberra fjármuna kunni að leiða til óábyrgrar afstöðu forstöðumanna. Þessu er alveg öndvert farið að minni hyggju. Niðurstöður reiknings fyrir árið 1993 sýna svo að ekki verður um villst að rekstur ráðuneyta og ríkisstofnana er í góðu samræmi við fjárheimildir fjárlaga. Þær nýjungar sem einkum hafa komið fram á síðustu árum eru m.a. eftirfarandi:
    Rammafjárlög þar sem einstök ráðuneyti og stofnanir bera aukna ábyrgð á skiptingu fjármuna, hafa fest í sessi. Yfirfærsla á ónýttum fjárheimildum hefur verið notuð allnokkuð á liðnum árum en það hefur vafalaust leitt til þess að forstöðumenn sýna meiri ábyrgð á ráðstöfun útgjalda og þeim hefur lærst að meta að hægt er að spara og njóta árangursins í starfi stofnananna.
    Þá má nefna að ýmiss konar safnliðir sem ráðuneytin skipta og ráðstafa hafa aukist. Má m.a. nefna liðinn Ráðstöfunarfé ráðherra sem er óverulegur að fjárhæð en hefur oft orðið til þess að ekki hefur þurft að leita aukafjárveitinga til lausnar smæstu málum.
    Þá vil ég enn fremur nefna nýbreytni sem felst í gerð þjónustusamninga við ríkisstofnanir. Fjórir slíkir hafa verið gerðir í tilraunaskyni. Of snemmt er að dæma um árangurinn en áhugi er mikill.
    Þá vil ég einnig minna á verkefnavísa og vísa þar til upplýsinga sem komið hafa frá fjmrn. og loks að ríkisreikninganefnd hefur komist að niðurstöðu um það hvernig breyta eigi uppsetningu og gerð ríkisreiknings og fjárlaga og sammála í þeirri nefnd voru m.a. fulltrúar Ríkisendurskoðunar. Ég tel þess vegna að að öllu samanlögðu hafi verið unnið heilmikið starf í þessum efnum. Ég hef nokkrar áhyggjur af því að Alþingi og Ríkisendurskoðun virðast ekki fylgjast með þeirri breytingu sem er að eiga sér stað hér á landi sem og annars staðar um nýskipan í ríkisrekstri og bókhaldi sem ég hef lýst. Ríkisendurskoðun gerir að aðfinnsluefni í skýrslu sinni hvernig til fjárheimilda er stofnað og lætur að því liggja að erfitt sé að henda reiður á fjárheimildum stofnana og frelsi til fjárráðstöfunar sé í það mesta. Einnig hefur komið upp á Alþingi ágreiningur milli ráðherra og ríkisstjórnar sem ég ætla ekki að ræða hér að sinni.
    Mér sýnist að okkur hafi ekki tekist sem skyldi af hálfu ráðuneytisins að skýra þetta út eða vekja athygli á þessum breytingum hjá viðkomandi aðilum og mun það að sjálfsögðu verða gert á næstunni og mun ég kappkosta sem best ég get að hafa samband við viðkomandi aðila sem einkum eru þá tvær nefndir, þ.e. efh.- og viðskn. og fjárln. og yfirskoðunarmenn ríkisreiknings, og skýra út það sem hefur verið að breytast og þær breytingar sem eru að eiga sér stað í þessum málefnum hérlendis og erlendis.