Fræðsla um bókhald og fjárreiður ríkisstofnana

92. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 16:49:35 (4191)


[16:49]
     Fyrirspyrjandi (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þetta var greinargóð skýrsla sem hann gaf um þessi mál en ég tel líka að það sé mjög ámælisvert þegar ár eftir ár þurfa að koma sömu athugasemdirnar frá Ríkisendurskoðun og yfirkoðunarmönnum um sömu atriðin.
    Ráðherra sagði áðan að Alþingi og starfsmenn stofnana hefðu ekki fylgst nægilega vel með þeirri breytingu sem væri að verða á nýskipan í ríkisrekstri. Ég vil ekki samþykja að ekki sé fylgst með því, alla vega hefur okkur verið gerð grein fyrir því í fjárln. hvernig unnið er að þeim málum en það sem ég er fyrst og fremst að tala um með þessari spurningu er að Ríkisendurskoðun hefur látið þá skoðun í ljósi að það sé full ástæða til þess að auka upplýsingagjöf og fræðslu til þeirra sem eiga að sinna bókhaldi og fjárreiðum ríkisstofnanna. Það þurfi að setja þar ákveðnar kröfur um menntun og hæfni. Það hefur vissulega oft verið í umræðunni hér á landi að ekki væri nægilega vel staðið að þessum málum, það væri ekki nægilega skýrt og ekki nógu vel að málum staðið og hugsanlega getur það ekki hvað síst orðið í sambandi við þegar þarf að fara að endurskoða ríkisreikning fyrir árið 1994 og er þá hægt að minnast þeirra umræðna sem hér hafa orðið um bókhald og fjárreiður sendiráðsins í London. Ýmislegt virðist því vera athugavert sem hægt er a.m.k. að komast fram með hjá hinum ýmsu ríkisstofnunum og það er spurning hvort fjmrn. þurfi ekki að beita sér enn meira í því máli að starfsmenn ríkisins og stofnana ríkisins séu meðvitaðir um það hvernig með fjármuni og bókhald ríkisins skuli farið.
    Það má einnig minna á að það tekst ekki nægilega vel að ljúka þeim málum sem snerta ríkisreikninga því að enn er eftir að afgreiða ríkisreikning bæði fyrir árin 1991 og 1992 og enn ekki farið að mæla fyrir ríkisreikningi 1993.