Fræðsla um bókhald og fjárreiður ríkisstofnana

92. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 16:52:12 (4192)



[16:52]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég hef ekki miklu við mitt fyrra svar að bæta. Ég tek undir að það er að sjálfsögðu nauðsynlegt að þeir sem fara með bókhald og fjárreiður ríkisins séu vel að sér í þeim efnum. Mér finnst það sjálfsagt. Ég lít kannski ekki á þennan texta Ríkisendurskoðunar sem stórkostlega gagnrýni heldur fyrst og fremst ábendingu um það að eftir þessu sé farið og það er stungið upp á því til viðbótar í

skýrslunni sem liggur fyrir að hugsanlega geti það orðið skilyrði fyrir embættaveitingu að viðkomandi aðilar hafi sótt námskeið hjá fjmrn. Það þarf auðvitað að skoða en ég get fullvissað hv. þm. um að flestir þeir sem starfa við þessi efni og hafa verið ráðnir til þess á undanförnum árum, jafnvel áratugum, hafa verið menn sem eru vel að sér í þessum efnum, en lífið er að beytast og hlutirnir eru að breytast, ekki síst á þessu sviði þar sem mikill hraði hefur verið á breytingum að undanförnu.
    Þó að það komi þessu máli ekki við þá tel ég að það sé skylt og þurfi einnig að líta á og það er hvernig farið skuli með skýrslur eins og skýrslu Ríkisendurskoðunar og hvert eigi að vera hlutverk og hvort yfirskoðunarmenn ríkisreikninga eigi að hafa hlutverk í þessum efnum. Mín skoðun hefur komið fram áður. Ég tel að það eigi að kjósa sérstaka nefnd af hálfu Alþingis til að fjalla um skýrslur Ríkisendurskoðunar, gefa út álit á þeim skýrslum þannig að það liggi fyrir álit þingnefndar eða meiri hluta þingnefndar. Ég tel, og það er ekki sagt til hnjóðs þeim sem hafa verið yfirskoðunarmenn ríkisreikninga, að það þurfi að fella slíka starfsemi niður en þá þurfi að breyta stjórnarskrá íslenska lýðveldisins.
    Að lokum vil ég ítreka það að ég mun gera mitt til þess að samband verði sem allra best á milli yfirskoðunarmanna ríkisreikninga á meðan þeir eru og Ríkisendurskoðunar annars vegar og ráðuneytanna, ekki síst fjmrn., hins vegar og ég mun gera mitt einnig til þess að kynna þær gífurlega miklu breytingar sem eru að eiga sér stað hér á landi og annars staðar um meðferð opinbers fjár og meira frelsi og kannski ábyrgð þeirra manna sem fara með bókhald og fjármagn á vegum ríkisins í nafni skattborgara og Alþingis.