Samþykktir Sambands húsnæðisnefnda

92. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 16:55:57 (4194)


[16:55]
     Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að flytja til hæstv. félmrh. fyrirspurn varðandi samþykktir ársfundar Sambands húsnæðisnefnda sem haldinn var 12. nóv. sl. en á þeim fundi var ýmsum fyrirspurnum og áskorunum beint til hæstv. félmrh.
    Ástæðan til þess að ég tek þetta mál upp er tvíþætt: Í fyrsta lagi að mér finnst nauðsynlegt að þingið geri það sem hægt er til að koma húsnæðismálum á dagskrá. Það er satt að segja einn ljótasti þátturinn í okkar velferðarkerfi, það eru húsnæðismálin. Það er eins og það sé ekki gert ráð fyrir því enn þá að fólk búi í húsum í þessu kalda landi. A.m.k. er erfitt að sjá að venjulegt launafólk geti búið í almennilegum húsum af því að það er svo dýrt eins og sakir standa. Í öðru lagi vegna þess að ég tel að á þessum ársfundi Sambands húsnæðisnefnda komi saman þeir einstaklingar sem þekkja kannski best húsnæðismál flestra landsmanna með fullri virðingu fyrir ýmsum öðrum og mér finnst ástæða til þess að lyfta þessum fundum dálítið með því að flytja fyrirspurn af þessu tagi.
    Nú er það líka þannig að það eru uppi hugmyndir um að breyta húsnæðisnefndunum ansi mikið og hafa verið uppi hugmyndir um það að taka þaðan út fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar og það er satt að segja ansi mikil breyting að ekki sé meira sagt að taka fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar út úr verkamannabústaðakerfinu og hefði einhvern tíma þótt sérkennileg spásögn ef því hefði verið spáð um Álftanes eða annars staðar að Alþfl. mundi einhvern tíma á öldinni beita sér fyrir því.
    Af þessum ástæðum hef ég lagt þessa fyrirspurn fyrir hæstv. félmrh.:
    ,,Hver er afstaða ráðherra til samþykkta ársfundar Sambands húsnæðisnefnda sem haldinn var 12. nóvember sl.?``
    Og það sem ég er kannski alveg sérstaklega að inna eftir er í fyrsta lagi samþykkt sem hljóðar svo,

með leyfi forseta:
    ,,Ársfundur Sambands húsnæðisnefnda, haldinn 12. nóv. 1994, samþykkir að beina þeim tilmælum til hæstv. félmrh. og Húsnæðisstofnunar ríkisins að hin almenna vaxtalækkun í landinu verði einnig látin ná til íbúa í hinu félagslega kerfi. Það er ljóst að vaxtahækkun sú sem varð úr 1% í 2,4% eða um 140% hækkun hefur reynst þessum hópi fólks mjög erfið. Upplýst er að víða um land stendur þetta húsnæði tómt vegna þess að kostnaður við að búa í þessum íbúðum er orðinn það mikill að láglaunafólk ræður ekki við hann.``
    Síðan er hér heildartillaga varðandi ýmis mál eins og fyrningarprósentu o.fl. og ég vil einnig inna hæstv. félmrh. eftir afstöðu hennar til þeirrar áskorunar.