Lán til viðgerða á félagslegum íbúðum

92. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 17:14:58 (4201)


[17:14]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Húsnæðisstofnun hefur gert ráðuneytinu grein fyrir afstöðu sinni þess efnis og veitt upplýsingar um einstök mál. Skulu hér rakin helstu bréfaskipti milli ráðuneytis og Húsnæðisstofnunar um þetta efni.
    Með bréfi Húsnæðisstofnunar til ráðuneytisins, dags. 6. apríl 1992, eru reifuð þau vandkvæði sem komið hafa í ljós varðandi lagfæringar á byggingargöllum sem ekki falli undir tryggingasjóð félagslegra íbúða þar sem íbúðirnar voru byggðar fyrir stofnun sjóðsins. Upplýst var að Húsnæðisstofnun hafði synjað um lánveitingar til slíkra endurbóta á félagslegu húsnæði, enda skorti til þess lagaheimild. Bent er á að vandinn sé mikill þar sem stórbyggingar séu í niðurníðslu í ýmsum byggðarlögum í landinu.
    Með bréfi dags. 30. júní 1992 sendi Húsnæðisstofnun ráðuneytinu til upplýsingar afrit af bréfum frá Hvammstanga og Akranesi þar sem rakin er nauðsyn þess að gera meiri háttar endurbætur á húsum með félagslegum íbúðum. Ráðuneytið ritaði Húsnæðisstofnun bréf þann 7. júlí 1992 og benti á að nefnd sem ynni við að meta reynsluna af félagslegum íbúðum mundi taka á þessu máli. Húsnæðisstofnun ritaði ofangreindri nefnd bréf 20. okt. 1992 þar sem upplýst er að Húsnæðisstofnun hafi borist fyrirspurnir frá húsnæðisnefndum sveitarfélaga um heimild til að veita lán úr Byggingarsjóði verkamanna til viðgerða, viðhalds og endurbóta á eldri íbúðum. Upplýst er að slíkum erindum hefði verið hafnað sökum vöntunar á lagaheimild. Ítrekuð ósk um að lagaheimildar verði aflað. Ráðuneytið ritaði húsnæðisstofnun bréf þann 7. jan. 1993 og óskaði umsagnar stofnunarinnar um tillögu frá starfshópi sem vann við að meta reynsluna af félagslegum íbúðum. Tillögur starfshópsins voru þess efnis að veitt yrðu lán úr Byggingarsjóði verkamanna vegna meiri háttar endurbóta utan húss á fjölbýlishúsi enda þótt beina skráða lagaheimild skorti enda væri talið um neyðarástand að ræða. Síðan skyldi unnið að lagabreytingum í þessa veru. Húsnæðisstofnun svarar framangreindu erindi með bréfi þann 4. mars 1993. Þar kemur fram að brýnt sé að lagaheimild fáist til að lána til meiri háttar utanhússviðhalds. 17. mars 1993 ritar Húsnæðisstofnun ráðuneytinu bréf um þetta efni og leggur þar fram áætlun um viðgerðir vegna byggingagalla í íbúðum í tíu sveitarfélögum, Ísafirði, Bolungarvík, Hvammstanga, Grundarfirði, Stykkishólmi, Akranesi, Hafnarfirði, Vestmannaeyjum, Stöðvarfirði og Búðahreppi. Tekið er fram að úttekt hafi ekki farið fram heldur sé þetta lausleg áætlun. Einnig er tekið fram að upptalning á byggingum sé ekki tæmandi, yfirlitið eigi engu að síður að gefa hugmynd um stærð vandans.
    Með bréfi dags. 24. maí 1993 veitti Húsnæðisstofnun umsögn um tillögu nefndar sem meta átti reynsluna af félagslegum íbúðum að veita mætti lán til meiri háttar viðgerð utan húss enda lægju hús undir skemmdum. Afstaða húsnæðismálastjórnar var sú að til þessa þyrfti lagabreytingu. Nauðsynlegt væri að gera ráð fyrir lánveitingum af þessu tagi í fjárhagsáætlun Byggingarsjóðs verkamanna. Með béfi Húsnæðisstofnunar til ráðuneytisins 5. okt. 1993 er greint frá útekt á ástandi hússins Höfðabraut 14--16 á Akranesi sem fram fór 10. sept. 1993. Í bréfinu er vitnað til áfangaskýrslu þar sem segir svo í niðurlagsorðum: ,, . . .  að það ítrekað að nauðsynlegt sé að endurbætur á húseigninni fari fram sem fyrst því annars heldur húsið áfram að grotna niður og rýrnar veðið í því og gæti leitt til fjárhagstjóns fyrir Byggingarsjóð verkamanna ef ekkert er að gert.`` Húsnæðisstofnun taldi að úttekt lokinni að veðlán hennar með veði í húsinu Höfðabraut 14--16 væru alls ekki í yfirvofandi hættu þannig að þau gætu tapast á næstu mánuðum eða missirum á meðan beðið væri eftir heimild í lögum og því væru ekki fyrir hendi nauðsynlegar forsendur fyrir því að veita viðgerðarlán á grundvelli neyðarréttar án lagaheimilda svo sem áður hafði verið til umræðu. Eins og framangreindar bréfaskriftir bera með sér taldi Húsnæðisstofnun sér óheimilt að veita lán til meiri háttar utanhússviðhalds í félagslegu íbúðarhúsnæði og væri óheimilt að gera hér undantekningu á þó viðgerð væri brýn. Lagastoð væri nauðsynleg.
    Er þá komið að efni næstu spurningar: Mun ráðherra beita sér fyrir nauðsynlegri lagabreytingu til að heimilt verði að veita lán til viðgerða og/eða endurbygginga félagslegra íbúða á vegum húsnæðisnefnda sveitarfélaga?
    Í frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, sem nú liggur fyrir Alþingi er lagt til að heimilt verði að veita sérstakt viðbótarlán til eigenda félagslegra íbúða í fjölbýlishúsi vegna meiri háttar utanhússviðhalds. Þetta er í 2. mgr. 10. gr. í nefndu frv. Í frumvarpsákvæðinu er skilgreint hvað átt sé við með endurbótum, endurbyggingu eða viðamikilli viðgerð á þaki, gluggum og útveggjum. Skilyrði er að kostnaður við endurbætur verði ekki greiddur úr tryggingarsjóði og lánið komi til greiðslu þegar Húsnæðisstofnun hefur staðfest með úttekt sinni að verkið hafi verið unnið á þann veg sem kemur fram í verklýsingu.