Lán til viðgerða á félagslegum íbúðum

92. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 17:20:39 (4202)


[17:20]
     Fyrirspyrjandi (Sturla Böðvarsson) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. félmrh. fyrir ítarlegt svar sem dregur mjög rækilega fram hvaða vandi hér er á ferðinni því allt frá árinu 1992 hefur þetta mál verið til skoðunar annaðhvort hjá Húsnæðisstofnun eða félmrn. án þess að viðunandi niðurstaða hafi fengist. Eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra þá liggur fyrir frv. sem ætti að geta veitt þær heimildir sem stjórn Húsnæðisstofnunar telur sig þurfa að hafa til að veita lán. En ég hef verulegar áhyggjur af því að það frv. nái ekki fram að ganga miðað við stöðu þess hér í þinginu þannig að ég taldi nauðsynlegt að bera fram þessa fsp. til að fá það fram hvort núv. hæstv. félmrh. hefur hugsað sér að leggja ríka áherslu á afgreiðslu þess máls.
    Einnig þarf það að liggja alveg klárt fyrir að þær breytingar sem frv. gerir ráð fyrir að verði gerðar á lögunum tryggi að stjórn Húsnæðisstofnunar hafi þær heimildir sem hún telur sig þurfa að hafa í lögum til að veita slík lán. Þarna er um mjög stór verkefni að ræða sem er nauðsynlegt að hægt verði að ganga í á þann hátt að það séu íbúðareigendurnir sem taki lánin þó jafnvel að framkvæmdir séu undir eftirliti húsnæðisnefnda á hverjum stað. Til viðbótar vildi ég segja það, hæstv. forseti, að ég tel afar mikilvægt að skoða lögin um Húsnæðisstofnun hvað varðar lán til viðhalds og endurbygginga húsa vegna þess að ég held að reynslan sýni að það sé mjög mikilvægt að húsnæðisnefndir hafi tiltekið vald á þessum hlutum. Það er spurning um það hvort það sé ekki nauðsynlegt að setja inn ákvæði í lög um skyldu húseigenda fjölbýlishúsa að safna í sjóði til að eiga fyrir nauðsynlegu viðhaldi húseigna. En ég vil þakka hæstv. félmrh. fyrir þetta svar og vænti þess að þetta mál nái fram að ganga sem fyrst því það getur ekki dregist lengur.