Dragnótaveiðar

92. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 17:40:41 (4211)


[17:40]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Það er rétt sem hér hefur komið fram að umræður um dragnótaveiðar í Faxaflóa hafa oft orðið á Alþingi og reyndar um dragnótaveiðar almennt. Þar endurspeglast sú umræða sem gjarnan einkennir umfjöllun um sjávarútvegsmálin að þar takast á hagsmunir mismunandi útgerða og mismunandi veiðarfæra, smárra skipa og stærri, og auðvitað er það oft vandkvæðum bundið þegar stærri skip og smábátar eru að veiða á sömu veiðislóð og mjög mikilvægt að fylgjast með því. En kjarni málsins í þessu tilviki er sá að hér er um að ræða veiðar sem fylgst hefur verið mjög vel með. Þær skaða ekki aðra stofna, þær eru forsenda fyrir því að nýta kolastofninn og við verðum við þær aðstæður sem við búum við í dag að nýta alla þá möguleika sem við höfum. Hrygning þorsksins fer ekki fram á sjávarbotni, hún fer fram uppi í sjónum og þess vegna hafa þessar veiðar ekki að mati okkar sérfræðinga skaðleg áhrif á hrygningarstöðvarnar.