Dragnótaveiðar

92. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 17:43:35 (4213)


[17:43]
     Fyrirspyrjandi (Sturla Böðvarsson) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. sjútvrh. fyrir hans svör við fsp. mínum um dragnótaveiðar. En í svörum hæstv. ráðherra kom fram að það eru miklar efasemdir hjá Hafrannsóknastofnun uppi um það að dragnótaveiðar hafi nokkur skaðleg áhrif á lífríki sjávar eða þær veiðislóðir sem dragnótaveiðar eru stundaðar á. Við höfum út af fyrir sig heyrt þetta áður og ég verð að viðurkenna það, hæstv. forseti, að auðvitað er ekki hægt að hafna þessum skoðunum með öllu. En það er eins og það er að það er oft tengt trúarbrögðum þegar menn ræða um veiðiskap og ekki síst það sem tengist snurvoðinni og menn skiptast mjög í tvö horn eins og hefur komið mjög berlega fram í þessari umræðu.
    Ég tel hins vegar að þessi fsp. hafi verið mjög tímabær og það sé nauðsynlegt að fá þetta rækilega fram, ekki síst í ljósi þeirra viðbragða sem urðu við þáltill. sem þm. Vesturl. fluttu í fyrra og hv. 2. þm. Vesturl. gat um réttilega. En þau viðbrögð hafa ekki einungis verið frá sjútvrn. og Hafrannsóknastofnun heldur einnig frá sjómönnum bæði á Breiðafirði og í Faxaflóa en á þessum svæðum eru mjög skiptar skoðanir um það hvort það eigi að banna dragnótaveiðar.
    Hæstv. forseti. Ég tel það mjög áríðandi að sjútvrh. leggi aukna og meiri áherslu á að rannsóknir fari fram og Hafrannsóknastofnun leiti allra tiltækra leiða til þess að draga betur fram en hefur verið gert kosti þessa veiðafæris eða galla og áhrif þeirra á lífríki sjávar.
    Að öðru leyti vil ég þakka fyrir þessa umræðu og vænti þess að hún leiði til þess að hæstv. sjútvrh. skoði þessi mál að nýju.