Barnaklám

92. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 17:46:20 (4214)

[17:46]
     Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) :
    Hæstv. forseti. Á síðasta ári tók ég upp í fyrirspurnarformi málefni hér á hv. Alþingi sem varðar barnaklám og þá spurði ég hæstv. dómsmrh. á þennan hátt, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Eru uppi áform af hálfu ráðherrans að leggja fram frv. til laga um breytingu á almennum hegningarlögum sem lýsi refsivert það athæfi að eiga eða hafa undir höndum efni með barnaklámi?``
    Í svari hæstv. dómsmrh. kom þá fram eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Að svo stöddu hafa ekki verið teknar neinar ákvarðanir um að flytja á Alþingi frv. um breytingar á hegningarlögum til þess að gera það refsivert að eiga eða hafa undir höndum efni með barnaklámi. Á hinn bóginn hefur ráðuneytið ákveðið að láta gera greinargerð út frá refsiréttarlegu sjónarmiði.``
    Það er þess vegna, hæstv. forseti, sem ég tek upp málið á nýjan leik á hv. Alþingi og spyr hæstv. dómsmrh. svohljóðandi fyrirspurnar á þskj. 590:
  ,,1. Hefur dómsmálaráðherra látið gera greinargerð út frá refsiréttarlegu sjónarmiði um það athæfi að eiga eða hafa undir höndum efni með barnaklámi?
    2. Ef svo er, hverjar eru aðalniðurstöður greinargerðarinnar?
    3. Hafa verið teknar ákvarðanir um viðbrögð?``
    Í fyrra þegar málið var til umræðu á hv. Alþingi lá fyrir að Norðmenn höfðu sett lög sem bönnuðu að eiga eða hafa undir höndum efni með barnaklámi. Síðan þá hefur það gerst að Danir hafa sett lög sem banna þetta og þau taka gildi, eftir því sem ég best veit, 1. mars. Auk þess má geta þess að sænska ríkisstjórnin hefur mótað þá stefnu að þetta skuli einnig bannað þar þó að það sé ekki komið í lög enn þá.
    Auk þess má nefna að Norðurlandaráð hefur samþykkt tillögu um aðgerðir í baráttunni gegn barnaklámi og í þeirri ályktun kemur eftirfarandi fram, með leyfi hæstv. forseta:
    Í fyrsta lagi að Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til norrænu ráðherranefndarinnar að hún geri nauðsynlegar ráðstafanir til þess að saknæmt teljist að hafa barnaklám undir höndum á Norðurlöndum.
    Að hún efli samvinnu lögreglu og tollyfirvalda hlutaðeigandi ríkja til að koma í veg fyrir dreifingu barnakláms. Að hún stuðli að því að Norðurlönd verði í fararbroddi í öðrum ráðstöfunum á alþjóðavettvangi í baráttunni gegn barnaklámi.
    Í öðru lagi að Norðurlandaráð beini þeim tilmælum til ríkisstjórna Norðurlanda að sérhvert Norðurlandanna og Norðurlöndin í heild stuðli að því að öll ríki heims samþykki og starfi samkvæmt sáttmála Sameinuðu þjóðanna um vernd barna og ungmenna og að Norðurlöndin túlki sáttmála Sameinuðu þjóðanna um vernd barna og ungmenna með sama hætti.