Barnaklám

92. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 17:52:49 (4216)


[17:52]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli. Það er mjög þarft að við á Íslandi látum þessi mál til okkar taka rétt eins og löndin í kringum okkur því að víða í löndunum er einmitt verið að taka á þessum málum eins og kom fram í máli hv. þm. áðan.
    Ég tel að við verðum að þora að setja þær takmarkanir á tjáningarfrelsi að við getum stemmt stigu við því að fólk hafi efni með barnaklámi undir höndum og reyni jafnvel að dreifa því. Ég minni á að í þinginu er enn þá óafgreitt frv. um eftirlit með kvikmyndum, það hefur ekki enn hlotið afgreiðslu, og þar er a.m.k. einn angi af þessu máli. Það er hægt að taka á þessu þar. En ég tel mjög nauðsynlegt og er mjög ánægð að heyra það að hæstv. ráðherra er að láta verulega vinnu fara fram um þetta mál og ég vona að sem fyrst verði teknar ákvarðanir um viðbrögð eins og hér er spurt um.