Löggæslukostnaður

92. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 18:00:38 (4220)


[18:00]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Dómsmrn. skrifaði lögreglustjórum bréf 13. jan sl. um innheimtu löggæslukostnaðar þar sem lagðar eru línur um samræmingu á innheimtu þessara gjalda í samræmi við þær breytingar sem gerðar voru á fjárlögum fyrir yfirstandandi ár þar sem lögreglustjóraembættum er gert kleift að mæta þessum sjónarmiðum. Þetta bréf tekur til allrar þeirrar starfsemi sem fellur undir reglugerð um löggæslu á skemmtunum og um ,,slit á skemmtunum og öðrum samkvæmum``, eins og það heitir.
    Fyrirmæli þessi tóku gildi þegar í stað frá og með því að lögreglustjórar fengu viðkomandi bréf. Ráðuneytinu er kunnugt um það að í tveimur tilvikum a.m.k. hjá einu sýslumannsembætti höfðu innheimtuaðgerðir átt sér stað vegna slíks kostnaðar í janúarmánuði. En eftir að þetta bréf var sent hefur sú innheimta verið látin niður falla. Ég vænti þess að með þessum aðgerðum náist það markmið um aðstöðujöfnun sem að hefur verið stefnt í þessum efnum.