Ferðaþjónusta

92. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 18:09:16 (4225)



[18:09]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Spurt er: ,,Hvaða markvissar aðgerðir hafa átt sér stað til eflingar ferðaþjónustu svo að hún megi verða ein af aðalatvinnugreinum þjóðarinnar?``
    Umsvif ferðaþjónustu hafa vaxið mjög hér á landi sérstaklega tvo síðustu áratugi. Á árinu 1994, eða á síðasta ári, komu hingað 180 þús. erlendir gestir. Samkvæmt upplýsingum Seðlabanka Íslands námu gjaldeyristekjur af komu þeirra liðlega 16,8 milljörðum kr. Þær tekjur voru um 14,9 milljarðar árið 1993 en þá komu um 157 þús. erlendir gestir til landsins.
    Ástæður þessarar jákvæðu þróunar eru margar. Þær má fyrst og fremst rekja til mjög markvissrar vinnu, markaðsátaks, sem efnt var til erlendis og ég vík nánar að síðar. Markaðsvinnu, vil ég segja, fjölmargra aðila. Eins er undirstaða þeirrar vinnu að sjálfsögðu að samgöngumálum hefur mjög fleygt fram, flugsamgöngum til annarra landa og þar fram eftir götunum.
    Að mati þeirra sem vinna að ferðaþjónustu hafði opnun hringvegarins feikileg áhrif til eflingar ferðaþjónustu innan lands og eins hversu vel hefur áunnist með lagningu bundins slitlags. Nýjar ferjur hafa verið keyptar til landsins og ég vil líka nefna að nýr millilandaflugvöllur hefur verið lagður á Egilsstöðum sem skapar auðvitað forsendur fyrir enn frekari þróun ferðaþjónustu í þeim landshluta, Austurlandi.
    Við afgreiðslu fjárlaga fyrir yfirstandandi ár var samþykkt að lengja lánstíma lána úr Ferðamálasjóði úr 15 árum í 25. Þá vil ég minna á að á síðasta ári veitti samgrn. með sérstökum sparnaði 40 millj. kr. til sérstakrar kynningar á Íslandi erlendis og 10 millj. kr. voru veittar í sama skyni úr Framleiðnisjóði landbúnaðarins. Var það gert í samvinnu við Flugleiðir sem lögðu jafnmikið fé fram þannig að til þessa verkefnis var varið 100 millj. kr. á sl. ári og átakinu beint að fimm helstu markaðssvæðum okkar erlendis.
    Við afgreiðslu fjárlaga fyrir yfirstandandi ár var samþykkt heimild til að halda þessu starfi áfram

og verja 30 millj. kr. til hins sama verkefnis enda hefur það gefið mjög góða raun.
    Starfsemi Ferðamálaráðs hefur mjög vaxið á undanförnum árum og ég vil minna á að á árinu 1993 ákvað ég að opna skrifstofu Ferðamálaráðs á Akureyri til að sinna sérstaklega innlendri kynningu, ráðgjöf vegna uppbyggingar ferðaþjónustu sérstaklega á landsbyggðinni, umhverfismálum og ýmsum öðrum þáttum ferðaþjónustu. Þar vinna nú fjórir starfsmenn en alls eru starfsmenn Ferðamálaráðs 14 en voru átta í upphafi árs 1994.
    Á árinu 1993 ákvað ég að efna til sérstaks átaks undir heitinu ,,Ísland, sækjum það heim`` og var átakið framkvæmt á sl. ári. Tilgangur þess var að hvetja Íslendinga til ferðalaga um landið. Samhliða var aukin öll upplýsingastarfsemi um íslenska ferðaþjónustu. Gífurleg umfjöllun varð um ferðaþjónustu vegna átaksins og varð hún til að auka verulega ferðalög samkvæmt niðurstöðum kannana sem gerðar voru sl. vor og haust.
    Á árinu 1994 setti ég á stofn verkefnastjórn til að gera tillögur um nauðsynlegar úrbætur og uppbyggingu á ferðamannastöðum. Þessi nefnd hefur unnið mikið starf að söfnun upplýsinga og gert tillögur. Niðurstöður nefndarinnar munu liggja fyrir á næstu vikum.
    Strax í sumar verður unnið að úrbótum á þremur stöðum á landinu í samræmi við tillögur verkefnanefndarinnar og Ferðamálaráðs í framhaldi af sérstakri fjárveitingu til úrbóta á fjölsóttum ferðamannastöðum sem samþykkt var við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1995.
    Á árinu 1992 var sett á stofn ráðstefnuskrifstofa Íslands þar sem Ferðamálaráð er stærsti rekstraraðilinn. En hlutverk hennar er að markaðssetja möguleika Íslands sem ráðstefnu- og fundarstaðar. Til þessarar skrifstofu hefur ríkið varið um 30 millj. kr.
    Þá setti ég á síðasta ári á stofn nefnd til að kanna möguleika til að nýta sögu okkar til eflingar ferðaþjónustu en ljóst er að þar eru miklir möguleikar fyrir hendi. Auk þess er unnið að margvíslegum verkefnum öðrum með sérstöku samstarfi við lönd innan Evrópska efnahagssvæðisins.