Ferðaþjónusta

92. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 18:15:10 (4227)


[18:15]
     Gunnlaugur Stefánsson :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir greinargóð svör við þeim spurningum sem ég flutti fyrir hönd hv. varaþm. Hermanns Níelssonar. Eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra þá virðist þróunin í þessari atvinnugrein stefna öll í rétta átt. Erlendum ferðamönnum er að fjölga og einnig vilja Íslendingar ferðast um sitt land í ríkari mæli en áður sem er ánægjulegt er.
    Eins og ég gat um í inngangsorðum mínum er hér um geysilega mikilvæga atvinnugrein að ræða fyrir íslenskan þjóðarbúskap. Mér er sagt að hver erlendur ferðamaður skili þjóðarbúinu 95 þús. kr. í tekjur og hvert prósent í aukningu á slíkum ferðamönnum hefur náttúrlega mikið að segja fyrir alla afkomu þjóðarinnar. Einnig hitt að hér er um mjög mannaflafreka atvinnugrein að ræða og þess frekar getur það komið að miklu gagni þegar atvinnulífið hefur átt við erfiðleika að stríða eins og glöggt má sjá á undanförnum þremur árum en þetta horfir allt til betri vegar þegar inn í framtíðina er skyggnst.
    Ég vil því aftur þakka hæstv. ráðherra greinargóð svör og læt þær óskir í ljós að þetta starf allt saman sem hér hefur verið nefnt megi bera blómlegan ávöxt í komandi framtíð.