Alferðir

92. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 18:19:45 (4229)

[18:19]
     Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég hef borið fram fsp. á þskj. 575 til hæstv. samgrh. um alferðir og hljóðar fsp. svo, með leyfi forseta:
  ,,1. Hvenær er að vænta reglugerðar samkvæmt lögum um alferðir, nr. 80/1994?
    2. Hyggst ráðherra leggja fram breytingu á lögum um alferðir þar sem gildissvið þeirra er víðtækara en nauðsynlegt er samkvæmt þeirri tilskipun Evrópubandalagsins sem lögin eru byggð á?``
    Með lögum nr. 80/1994, um alferðir, var lögfest efni tilskipunar Evrópubandalagsins nr. 90/314 EBE, um ferðapakka, orlofspakka og skoðunarpakka. Markmið laganna er að tryggja aukna neytendavernd á sviði ferðaþjónustu og eru því þau verulega íþyngjandi í garð þeirra er selja slíkar ferðir. Hins vegar hefur löggjafinn gengið lengra en nauðsynlegt var vegna framgreindrar tilskipunar. Þannig er í 2. gr. laganna talað um að ferðaheildsali sé sá sem setur saman alferð og býður hana til sölu hvort heldur beint eða gegnum ferðasmásala.
    Í 2. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar er hins vegar talað um að efni hennar nái ekki til þeirra sem aðeins stöku sinnum setja saman slíka ferð og bjóða til sölu. Sem dæmi má taka að á vegum Ferðaþjónustu bænda eru bændur víða um land farnir að selja ferðamönnum gistingu. Þar er ekki um alferð að ræða. Í sumum tilvikum eru bændur einnig með einhverja viðbótarþjónustu í boði svo sem hesta, veiði eða skoðunarferðir. Þeir sem gista hjá Ferðaþjónustu bænda og fara í stutta hestaferð meðan á dvöl stendur eru þannig að kaupa sér alferð í skilningi laga nr. 80/1994, óháð því hvort bóndinn er aðeins í stöku skipti að selja slíka ferð eða hvort sala slíkra ferða er orðinn stór þáttur í starfseminni.
    Samkvæmt tilskipun Evrópubandalagsins væri hins vegar aðeins um að ræða alferð í síðara tilvikinu. Hér er um mjög mikilvægt atriði að ræða þar sem lög um alferðir leggja miklar skyldur á þá sem selja slíkar ferðir. Auk þess má þess geta að þessi löggjöf hefur mjög slælega verið kynnt í landinu og má alveg reikna með því að fjöldi aðila hafi starfað ólöglega síðan lögin voru sett vegna þess að þau hafa ekki verið kynnt.