Alferðir

92. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 18:22:45 (4230)


[18:22]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Um hina fyrri spurningu er það að segja að í desembermánuði voru drög að reglugerð send hagsmunaaðilum til umsagnar. Því miður hafa ekki allar umsagnir borist en ég hef lagt áherslu á það að reglugerð verði gefin út í þessari viku. Ég hafði raunar ætlað mér að gefa reglugerðina út í janúarmánuði.
    Um síðari spurninguna vil ég segja að við undirbúning frv. til laga um alferðir var byggt á tilskipun Evrópusambandsins frá 13. júní 1990 um ferðapakka, orlofspakka og skoðunarferðapakka. Einnig voru höfð til hliðsjónar lög um þetta efni sem sett hafa verið í Danmörku. Ráðuneytið taldi rétt að taka mið af löggjöf Dana í þessu efni enda löng hefð ríkjandi þar í samstarfi Evrópusambandsins.
    Við gerð frv. var miðað við að fylgja ákvæðum tilskipunarinnar en segja má að hún kveði á um ákveðnar lágmarksreglur og er einstökum ríkjum heimilt að ganga lengra í þeirri neytendavernd sem tilskipunin felur í sér. Ekki var gert ráð fyrir því að ganga lengra í því efni en tilskipunin gerir ráð fyrir og ég vil undirstrika það. Það verður ekki gert ráð fyrir því af minni hálfu að ganga lengra en tilskipunin gerir ráð fyrir.
    Við samningu frv. í ráðuneytinu var leitað umsagnar hagsmunaaðila og komu engar athugasemdir fram af þeirra hálfu um að frv. gengi lengra en nauðsynlegt var með hliðsjón af tilskipun Evrópusambandsins. Eftir að raddir um hið gagnstæða komu upp fól ég lögfræðingum ráðuneytisins að athuga sérstaklega hvort lög um alferðir hafi víðtækara gildissvið en tilskipunin byggir á og bera saman við löggjöf annarra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Ég álít að það sé mjög nauðsynlegt og ég hef lagt áherslu á að

þessi vinna geti legið fyrir í þessari viku og mun ganga eftir því.
    Ég get ekki gert að því ef löggjöf um alferðir hefur verið slælega kynnt. Ég veit ekki betur en yfir hana hafi verið farið af hagsmunaaðilum og þeir sem vinna að ferðaþjónustu hafa með sér landssamtök sem væntanlega láta félögum sínum eða meðlimum í té upplýsingar um breytingar á lögum eða reglugerðum eða öðru sem að ferðaþjónustu lýtur. Það er auðvitað nauðsynlegt fyrir fólk í þessari atvinnugrein eins og öðrum að fylgjast með þróuninni og fylgjast með því eftir hvaða leikreglum er farið.