Vegtenging milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar

92. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 18:38:37 (4235)


[18:38]
     Fyrirspyrjandi (Sverrir Sveinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. samgrh. fyrir þær upplýsingar sem hann gaf um hugsanlegar athuganir á þessari tillögu sem ég var að spyrjast fyrir um. Það vill svo til að ég hef undir höndum samanburð á kostnaðartölum, annars vegar að heilsársvegi gerðum yfir Lágheiði upp á 600 millj. kr. og hins vegar jarðgöngum um Héðinsfjörð upp á 1,8 milljarða. Það sýnir sig að samanburður með forsendum sem Vegagerðin notar til þess að meta hagkvæmni slíkra fjárfestinga gerir markvexti með jarðgangaleiðinni upp á 14,6% þar sem 8% eru með veginum yfir heiðina. Ég minni á að vegur lagður í 400 metra hæð lokast yfirleitt. Ég minni á veg yfir Steingrímsfjarðarheiði sem við heyrum í fréttum að er mokuð að morgni og oftast ófær að kvöldi.
    Jarðgangatækni hefur fleygt fram og við Íslendingar erum komnir töluvert áleiðis í það, og ég vænti þess að núv. samgrh. beiti sér fyrir því jafnvel þó að ég geri mér grein fyrir því að það sé lítið um fjármuni, að hlutast svo til um að jarðgangagerð verði ekki látin falla niður eftir að jarðgangaframkvæmdum um Vestfirði lýkur. Þessi jarðgöng sem bent er á þarna, það eru að vísu tvö göng samtals um 4 km á lengd, eru mjög fýsilegur kostur að mínu mati til þess að ráðast í eftir að jarðgöngum við Vestfirði lýkur, ef ráðherranum verður að ósk sinni að geta látið fara í heilsársveg yfir Fjöllin að tengja saman kjördæmin Norðurl. e. og Austfirði. Staðreyndin er sú að einmitt vegir og vegtengingar á milli kjördæma verða oft og tíðum út undan. Þess vegna segi ég það, virðulegi forseti, að það er fagnaðarefni þegar samgrh. tekur undir þessa tillögu og fyrirspurn með þessum hætti og ég vonast til þess að hann komi þessum boðskap sínum til samgn. þingsins.